Biðin eftir innlögn á Vog er allt of löng!

Biðin eftir innlögn á Vog er allt of löng!

22. október síðastliðinn mælti ég fyrir þingsályktun um að fela heilbrigðisráðherra að skipa starfshóp sem gerir áætlun um að bæta aðgengi að meðferðarúrræðum á sjúkrahúsinu Vogi, meðferðarstöðinni á Vík og göngudeild SÁÁ.

Sjúkrahúsið Vogur er sérhæft og hefur séð um afeitrun og meðferðir undanfarna áratugi með góðum árangri, er reynsla þeirra sem þar starfa yfirgripsmikil og hefur vakið athygli út fyrir landsteinana. Á Vogi er veitt sérhæfð meðferð við fíknisjúkdómum sem byggist á læknisfræðilegum greiningum, afeitrun, lyfjameðferð og einstaklingshæfðri sálfélagslegri meðferð svo fátt eitt sé nefnt.

Í svari frá heilbrigðisráðherra við fyrirspurn minni um biðlista á Vogi kemur fram að árið 2020 voru 530 einstaklingar á biðlista eftir innlögn á Vogi og hefur biðlistinn haldist nokkuð stöðugt í þeim fjölda frá árinu 2014. Biðtími er stuttur fyrir þá sem eru að leita sér meðferðar í fyrsta sinn og enginn fyrir unglinga. Iðulega eru einstaklingar á biðlista sem eru ekki að fara í meðferð í fyrsta sinn. 

Í greinargerð um þjónustu SÁÁ sem gefin var út á árinu 2020 kemur fram að árið 2019 voru 2.317 innlagnir á Vog hjá 1.624 einstaklingum sem geri u.þ.b. 1,4 innlagnir á hvern einstakling og álykta má út frá því að það komi til ítrekaðra innlagna hjá sumum. SÁÁ fær ár hvert ríkisframlag til rekstursins og samkvæmt fyrrnefndri greinargerð var heildarkostnaður árið 2019 við rekstur Vogs 983 miljónir króna og ríkisframlag rúmar 796 miljónir króna. Kostnaður á legudag var 45.575 kr. miðað við 21.582 legudaga á ári.

Ljóst er að meðalbiðtími frá 20 dögum til 120 fyrireinstakling með neyslu- og fíknivanda eftir innlögn á Vog, er hvorki til hagsbótar fyrir einstaklingana sjálfa né samfélagi í heild. Öllum ætti að vera ljóst að greitt aðgengi að fíknimeðferð er besta leiðin fyrir einstaklinga í fíknivanda við að ná tökum á vandanum. Fíkn fer ekki í manngreinarálit og heltekur heilu fjölskyldurnar. Nokkuð er um að einstaklingar þurfi fleiri en eina meðferð til að ná bata. Til að auka líkur á bata þarf að tryggja gott aðgengi að úrræðum. Oftast eru þeir sem þurfa að bíða lengi eftir meðferð kallaðir endurkomukarlar eða -konur sem eiga að baki eina eða fleiri meðferðir. Einhverjir láta lífið á meðan þeir bíða.

Ég hef verið spurður, af hverju Vogur og SÁÁ er nefnt í þingsályktuninni. Auðviðað eru fleiri sem veita meðferðir og eru að gera mjög góða hluti. Sjúkrahúsið Vogur er sérhæfð stofnun í afeitrun fíkla og er í góðu samstarfi við Landspítalann. Aðrir sem sinna meðferð njóta þjónustu þeirra við afeitrun ef með þarf.

 

Höfundur:  Sigurður Páll Jónsson, þingmaður Miðflokksins í NV-kjördæmi.

Pistillinn birtist fyrst í Morgunblaðinu þann 26. október, 2020