Bygging hátæknisorpbrennslustöðvar - Tillaga til þingsályktunar

Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokksins, mælti í gær fyrir þingsályktunartillögu sinni um byggingu hátæknisorpbrennslustöðvar.

Með tillögunni er umhverfis- og auðlindaráðherra er falið að kanna hagkvæmni og möguleika þess að reisa hátæknisorpbrennslustöð sem meðhöndli mest allt eða allt sorp sem ekki er unnt að endurvinna hér á landi.  Ráðherra kynni Alþingi niðurstöður könnunarinnar fyrir 1. apríl 2021.  

Evrópusambandið stefnir að því að einungis 10% af öllum úrgangi sem til fellur árið 2035 verði urðaður og tekin hefur verið upp sú stefna í mörgum löndum Evrópu að brenna fremur sorpi en að urða það.   Ljóst er að með vaxandi kröfum í umhverfismálum verða þjóðir heims hver fyrir sig að sjá um að eyða því sorpi sem til fellur hjá þeim með umhverfisvænum og hagkvæmum hætti. Því er tímabært að Íslendingar komi á fót eigin hátæknisorpbrennslustöð sem byggð yrði samkvæmt ýtrustu kröfum um mengunarvarnir.

Sorpbrennslustöðvar eru útbúnar sérstökum tækni- og hreinsibúnaði til að brenna úrgang og hægt er að nýta varmann sem myndast við brennsluna. Árið 2016 voru starfræktar 2.200 WTE (waste-to-energy) sorpbrennslustöðvar í heiminum.  Á Íslandi er ein sorpeyðingarstöð sem hefur leyfi til sorpbrennslu, en það er móttöku-, flokkunar- og brennslustöðin Kalka, sem er í eigu sveitarfélaganna á Suðurnesjum. 

Fjölmargir kostir fylgja hátæknisorpbrennslustöðvum.  Með því að brenna sorpi í hátæknibrennslustöð er sorpinu breytt í nýtanlega orku, raforku og hitaorku. Þá skila nýjustu hátæknisorpbrennslustöðvarnar tiltölulega lítilli loftmengun, langt innan þeirra marka sem leyfileg eru. Minna land fer til spillis og grunnvatn mengast síður.

Hér á landi hefur magn úrgangs farið vaxandi síðustu ár. Árið 2016 nam magn úrgangs sem féll til yfir milljón tonna og náði magnið sögulegu hámarki árið 2017 þegar það var 1,4 milljónir tonna.   Hluti úrgangsins fer til endurvinnslu en það sem eftir stendur er að mestu urðað á urðunarstöðum víðs vegar um landið, m.a. í Álfsnesi, í Fíflholti á Mýrum og við Blönduós, ásamt öðrum úrgangi.  En urðun úrgangs getur valdið grunnvatnsmengun um langa framtíð sé ekki rétt staðið að málum.

Nýlega hafa komið upp hugmyndir um að sigla með sorp frá Íslandi til Svíþjóðar og fleiri landa til brennslu í svokölluðum hátæknisorpbrennslustöðvum.

Mikilvægt er að Íslendingar stígi skref í þá átt að endurvinna sem mest af því sorpi sem hér fellur til og eyða því sem eftir stendur með þeim hætti sem frekast er fallinn til að vernda náttúru og umhverfi. Þannig verði stuðlað að verndun náttúrunnar fyrir núlifandi og komandi kynslóðir og sýnt í verki að Íslendingar taki ábyrgð á að farga eigin sorpi með eins lítilli mengun fyrir umhverfið og nokkur kostur er.

Í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu fer nú fram vinna við gerð stefnu í úrgangsmálum en drög að stefnunni voru send á umsagnaraðila í júlí síðastliðnum. Flutningsmenn fagna því að sett verði heildstæð stefna í úrgangsmálum en telja afar brýnt að Alþingi lýsi yfir vilja sínum hvað varðar byggingu hátæknisorpbrennslustöðvar á afgerandi hátt með samþykkt tillögu þessarar.

Þingsályktunartillöguna má lesa í heild sinni hér.  

Flutningsræðu Karls Gauta má sjá hér.

Tillagan gengur nú til annarar umræðu og til meðferðar í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis.