Ofanflóðasjóður - Þarna munar 8 milljörðum

Í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag ræddi Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, um ofanflóðasjóð og mikilvægi þess að halda uppi öflugum ofanflóðavörnum á Íslandi sem við höfum verið minnt rækilega á tvisvar á liðnu ári. 

Þorsteinn beindi fyrirspurn sinni að fjármála- og efnahagsráðherra hvort það væri ekki alveg ljóst að það fé sem var til í sjóðnum þegar fjármálaráðuneytið yfirtók hann verði nýtt til að vinna þessar nauðsynlegu framkvæmdir eins fljótt og verða má.

"Á hverju ári eru innheimt ofanflóðagjöld af fasteignaeigendum á Íslandi upp á rúma 2 milljarða. Ofanflóðasjóður hafði um 700 milljónir á ári í vaxtatekjur að auki, þannig að u.þ.b. 3 milljarðar á ári innheimtust í þennan sjóð sem stendur straum af ofanflóðavörnum. Í viðtali fyrir ári síðan, í kjölfar atburðanna á Flateyri, sagði stjórnarmaður í sjóðnum að í honum væru þá í kringum 23 milljarðar kr., en hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra vildi meina að þar væru 15 milljarðar. Þarna munar 8 milljörðum, en það er nú aukaatriði í málinu.

Fyrir nokkrum árum gerði fjármálaráðuneytið ofanflóðasjóð upptækan og henti honum inn í ríkissjóð. Fram kom í fréttum um daginn að ríkisstjórnin ætlaði að veita 1.600 milljónir í ofanflóðavarnir og auðvitað veitir ríkisstjórnin ekki neinar fjárhæðir í það þarna vegna þess að þeir peningar eru til, þeir eru markaðir, þeir eru innheimtir á hverju ári.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé vilji hans að beita enn meira afli vegna þeirra peninga og þeirra fjármuna sem tilheyrðu þessum sjóði til að efla ofanflóðavarnir, ekki bara á þessum tveimur stöðum sem ég nefndi, fleiri staðir liggja undir á Austfjörðum og víðar, hvort hæstv. ráðherra hugsi sér að veitt verði rösklega inn í þennan málaflokk til þess að við getum komið þessum málum í sæmilegt horf."

Upptöku af fyrirspurn Þorsteins í þingsal og svar ráðherra má sjá hér