Einkarekstur í heilbrigðisþjónustu

 

Í óundirbúnum fyrirspurnum í dag beindi Sigmundur Davíð Gunnlaugsson þeirri fyrirspurn til fjármála- og efnahagsráðherra hvort nú væri ekki rétti tíminn til að ná fram aukinni hagkvæmni í heilbrigðiskerfinu með því m.a. að semja við einkareknar stofur.

Sigmundur Davíð:

Forseti. Þessa dagana er mikið álag á heilbrigðiskerfið og á sama tíma erum við að fást við líklega mestu efnahagslegu niðursveiflu í 100 ár. Því spyr ég hæstv. fjármálaráðherra hvort þetta sé ekki einmitt rétti tíminn núna til þess að ríkið fái meira fyrir peninginn sem þangað rennur, þ.e. að við náum aukinni hagkvæmni þar. Heilbrigðiskerfið er auðvitað, ásamt almannatryggingum, langstærsti útgjaldaliður ríkisins. Er ekki rétti tíminn núna til þess að við á sama tíma léttum á heilbrigðiskerfinu og fáum meira fyrir útgjöld skattgreiðendanna með því að semja við einkareknar stofur um að fást við þær aðgerðir sem hafa í mörgum tilvikum beðið mánuðum, jafnvel árum saman? Við þekkjum öll dæmi um að fólk sé sent til Svíþjóðar eða Danmerkur í aðgerðir á einkastofum þar á kostnað ríkisins, sem er þá jafnvel margfaldur, þrefaldur á við það sem myndi kosta að framkvæma slíkar aðgerðir hér heima. Nú þegar ríkið þarf að fá meira fyrir peninginn og spara og heilbrigðiskerfið er undir miklu álagi, er þetta ekki akkúrat rétti tíminn til að ráðast í slíkar aðgerðir?

Svör fjármála- og efnahagsráðherra og umræðuna í heild sinni má sjá hér