400% fleiri umsóknir um alþjóðlega vernd á Íslandi en í nágrannalöndunum

 

Í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi ræddi Bergþór Ólason við dómsmálaráherra um þann mikla fjölda umsókna á Íslandi um alþjóðlega vernd og hvað ráðherran teldi skýra þennan mikla fjölda umsókna.  Sem dæmi nefndi Bergþór að árið 2019 hafi umsóknir um alþjóðlega vernd hér á landi verið hlutfallslega 400% fleiri en í Danmörku og Noregi.   Að endingu spurði Bergþór hvort ráðherra hefði tölur um hver sé áætlaður heildarkostnaður við móttöku hælisleitenda og meðferð mála þeirra vegna óska um alþjóðlega vernd á þessu ári.

 

Fyrirspurn Bergþórs var eftirfarandi:

"Virðulegur forseti.  Mig langar hér í dag til að beina fyrirspurn til hæstv. dómsmálaráðherra um málefni hælisleitenda. Það hefur vakið athygli undanfarna daga að töluverður straumur hælisleitenda sé nú til landsins á sama tíma og landamærin eru meira og minna lokuð gagnvart almennri umferð á grundvelli sóttvarnasjónarmiða. Meðal annars hafa borist fréttir af því að 40% farþega í einni vél óskuðu alþjóðlegrar verndar og vakti það töluverða athygli. Það er nú ekki spurningin sem ég ætla að beina til hæstv. ráðherra. Nýlega bárust jafnframt fréttir af því að nokkur misbrestur væri á því að einstaklingar, sem hefur verið hafnað um alþjóðlega vernd, yfirgefi landið. Raunar virðist sem slíkir einstaklingar eigi það til að týnast.

Mig langar til að setja þetta aðeins í norrænt samhengi en umsóknir um alþjóðlega vernd á árinu 2019 fyrir hverja 10.000 íbúa voru 24 á Íslandi, 22 í Svíþjóð, átta í Finnlandi, fimm í Danmörku og fjórar í Noregi. Þetta þýðir að umsóknir um alþjóðlega vernd á árinu 2019 voru 400% fleiri á Íslandi en í Danmörku og Noregi. Í því samhengi vil ég spyrja hæstv. ráðherra hverjar hann telji skýringarnar vera á þeirri staðreynd að fjöldi umsókna um alþjóðlega vernd sé hlutfallslega hærri hér á landi en í öðrum norrænum löndum. Hvernig telur ráðherrann að standi á því að fólk í þessari stöðu, þ.e. umsækjendur um alþjóðlega vernd, sæki í meira mæli til Íslands en t.d. til Danmerkur, Noregs og Svíþjóðar?"

Svör dómsmálaráðherra og umræðuna í heild sinni má sjá hér