Forgangsröðun ríkisstjórnarinnar

 

Karl Gauti Hjaltason tók forgangsröðun ríkisstjórnarinnar til umræðu í störfum þingsins þann 13. október.

"Áhersla stjórnvalda birtist í þeim málum sem eru á dagskránni þessa dagana. Hvar eru málin til að bregðast við ástandinu, efla atvinnu og skýla heimilunum?"

Karl Gauti Hjaltason:

Herra forseti. Nú í upphafi nýs þings skyldi maður ætla að ríkisstjórnin setti í forgang ýmis mál sem tækju á eða undirbyggju þjóðfélagið undir það áfall sem um þessar mundir er orðið ansi hreint fyrirsjáanlegt, þ.e. verulegur eða stórkostlegur samdráttur í tekjum ríkissjóðs samfara fordæmalausum vexti útgjalda á sama tíma. Þrjár stærstu gjaldeyrisskapandi greinar þjóðarinnar berjast í bökkum. Ferðamannaiðnaðurinn er við frostmark, áliðnaðurinn er í mikilli niðursveiflu og sjávarútvegur hefur þolað loðnu- og humarbrest síðustu ár og makríllinn er óviss.  Tími þingsins og nefnda þess er dýrmætur og aldrei eins og nú. Með réttu ætti ríkisstjórn á slíkum tíma að leggja fram frumvörp um viðbrögð við ástandinu, stóreflingu innlendrar framleiðslu og eðlilegar varnaraðgerðir hennar. Harðar aðhaldsaðgerðir í stjórnkerfinu þar sem öllum óþarfa, allri sóun og bruðli væri braut kastað. Atvinnuskapandi og hvetjandi aðgerðir, að lækka skatta og álögur á fólk og fyrirtæki. Frumvörp sem stemma stigu við skelfilegum afleiðingum atvinnuleysis á heimilin í landinu og koma í veg fyrir að fjölskyldur verði bornar út af heimilum sínum, eins og gerðist hér fyrir áratug síðan. Einfalda regluverk og gera stjórnsýsluna þjónustumiðaðri til að þjóna fyrirtækjum og almenningi.  En hver er dagskrá þingsins í dag og síðustu daga þegar kemur að stjórnarfrumvörpum? Þar birtast áherslur ríkisstjórnarinnar helst: Mannanöfn — endilega að leggja niður einstaka mannanafnahefð okkar allt frá landnámi, sannkallað þjóðareinkenni Íslendinga, í stað þess að gera mögulegt að leysa einstök, erfið mál, sem virðast vera tilefni þessarar lagasetningar. Frumvarp um kynjahlutföll í nefndum og stjórnum Alþingis, jöfn staða og réttur kynjanna, ný lög um stjórnsýslu jafnréttismála, þar sem stjórnsýsla þessara mála sýnist vera gerð flóknari og kerfislægari en nokkru sinni fyrr. Að skipuð verði ný kærunefnd jafnréttismála, enda hefur sú fyrri reynst stjórnvöldum óþægur ljár í þúfu. Þrjú frumvörp um kynrænt sjálfræði. Frumvarp um leigubílstjóraakstur — endilega að rústa starfsumhverfi leigubílstjóra núna. Í hruninu gekk fram af þjóðinni að brýnasta málið á Alþingi á þeim tíma væri sala áfengis í verslunum. Svipað virðist á döfinni núna; gælumál, og mál sem mega bíða. En brýnum viðfangsefnum er ekki sinnt.

Hér má sjá upptöku af ræðu Karls Gauta