Endurreisum Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins!

Rannsóknarstofnun byggingariðnaðarins (Rb) stofnuð 1965, var formlega tekin af lífi þann 1. júlí síðastliðinn. Til verksins var fenginn ráðherra ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunar. Félagsmálaráðuneytið undir stjórn barnamálaráðherra sá um jarðsetninguna.

Rb eins og stofnunin var kölluð í daglegu tali átti sér nokkuð langa og merkilega sögu. Hún varð til í kjölfar setningu laga um rannsóknir í þágu atvinnuveganna, nr. 64/1965. Samkvæmt þeim lögum var kveðið á um að verkefni Rb ættu að vera: „kynning á niðurstöðum rannsókna og veiting upplýsinga um byggingafræðileg efni“. Auk þess voru á verkefnaskrá Rb, húsnæðis- og byggingamál, vegagerð, steypurannsóknir, jarðvegsathuganir, útgáfa og kennsla.

Frá upphafi lagði stofnunin mikla áherslu á útgáfu sérfræðirita og leiðbeiningablaða fyrir byggingariðnaðinn. Þau rit byggðu oftar en ekki á niðurstöðum langtímaverkefna sem unnin voru á vegum stofnunarinnar eða í samstarfi við aðrar ríkisstofnanir eins og Vegagerðina. Steinsteypu-rannsóknirnar sem dæmi og þróun á gerð steinsteypu sem stofnunin vann að á líftíma sínum eru hvorki meira né minna en heimsfrægar á sviði byggingarverkfræðinnar. Í sérfræðiritunum var einnig ítarlega fjallað um ýmis málefni byggingariðnaðarins auk þess sem stofnunin gaf út verklýsingar og byggingavísitölur í samstarfi við Hagstofuna. Útgáfu sérfræðiritanna lauk að mestu árið 2007 er dauðastríð Rb hófst, með innlimun stofnunarinnar í Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Dauðastríðinu er nú lokið. Upprisu og endurreisnar Rb er krafist.

 

Tómas Ellert Tómasson, byggingarverkfræðingur og skipar 2. sæti á lista Miðflokksins í Reykjavíkurkjördæmi Norður.

Greinin birtist á Vísi þann 1. ágúst, 2021