Endurskoðum viðskiptasamninga um landbúnaðarvörur

Á síðastliðnum árum hefur innflutningur á landbúnaðarvörum vaxið hröðum skrefum. Þetta má einkum rekja til samnings um viðskipti með landbúnaðarvörur við ESB. Slíkur samningur kom fyrst til framkvæmda 1. mars árið 2007 í stjórnartíð Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks. Auk tollfrjálsra kvóta var samið um 40% lækkun á tollum flestra kjötafurða. Þann 1. Mai 2018 tók síðan gildi víðtæk breyting á þessum samningi. Mest áhrif þar hafði víðtæk stækkun tollfrjálsra kvóta fyrir osta og kjötvörur.

Á undanförnum mánuðum hefur síðan komið í ljós að líklega er búið að flytja inn meira magn hingað til lands á öðrum kjörum en þessir samningar gerðu ráð fyrir. Fráfarandi ríkisstjórn hefur dregið lappirnar í að taka þarna á málum. Ekkert er að frétta af starfi nefndar sem fjármálaráðherra setti til að rýna málið í janúar á þessu ári. Von er á skýrslu frá Ríkisendurskoðun um málið sem unnin er að beiðni þingmanna Miðflokksins sem fengu slíka skýrslubeiðni samþykkta á Alþingi í byrjun nóvember 2020.

Þetta hefur m.a. leitt til vaxandi ójafnvægis í sölu á fituríkum mjólkurvörum og svo osti hins vegar. Þá hefur þetta þrýst á verð á kjöti til framleiðenda. Í ferðum mínum til bænda undanfarnar vikur hefur þetta komið glöggt fram og birtist m.a. bæði í biðlistum eftir slátrun fyrir nautgripi og verðlækkunum. Þessu ber saman við það sem forsvarsmenn bænda hafa sagt um málið á síðustu misserum.

Utanríkisráðherra boðaði endurskoðun þessara samninga við ESB á liðnum vetri. Það stöðvaði hann þó ekki í að bæta enn á tollfrjálsa kvóta fyrir búvörur í viðskiptasamningi við Bretland síðastliðið vor. Engar breytingar urðu á tollfrjálsum kvótum gagnvart sambandinu líkt og Norðmenn náðu fram. Þá eru tollkvótar gagnvart ESB mun stærri hér á landi, sé miðað við hina frægu höfðatölu, en í Noregi. Fyrrnefnd endurskoðun þarf að fara fram hið fyrsta samkvæmt skilgreindum markmiðum.

Þá þarf greinilega að efla eftirlit með því að staðið sé við gerða milliríkjasamninga. Slíkt þarf ekki að fela í sér aukið skrifræði eða flækjustig heldur fyrst og fremst nýta til hins ýtrasta þær upplýsingar sem liggja fyrir. Upplýsingar um útflutning annarra ríkja til Íslands eru aðgengilegar. Eftir þeim má finna hvar mismunur er, hvar hann er áberandi mestur og þannig greina hvar skórinn kreppir. Í Noregi er þetta unnið skipulega af stofnum sem heitir „Mattilsynet“. Miðflokkurinn hefur flutt tillögur um stofnun sérstaks ráðuneytis fyrir landbúnað eins og hér var um langa hríð. Með þessu fengi þetta verkefni nauðsynlega athygli og yrði að sjálfsögðu unnið í samvinnu við önnur stjórnvöld eins og Skattinn og Hagstofu Íslands eftir því sem við á.

Ég hef unnið við hagsmunagæslu og önnur verkefni tengd landbúnaði alla mína starfsævi og þekki vel til í starfsumhverfi hans, ekki síst því sem snýr að framkvæmd viðskiptasamninga. Það er helsti hvatinn að því að ég gef kost á mér í þessum alþingiskosningum til að leggja mitt af mörkum í að styrkja umgjörð um landbúnaðinn. Hann er okkur öllum mikilvægur, ekki aðeins til að fæða okkur og veita atvinnu með því að nýta landsins gæði, heldur er hann líka ríkur hluti af sjálfsmynd okkar sem þjóðar. Landsbyggðin lifi!

 

Erna Bjarnadóttir skipar 2. sæti á lista Miðflokksins í Suðurkjördæmi

Greinin birtist í Bændablaðinu þann 9. september, 2021