Fjarskipti og öryggi landsmanna

Á undangengnum árum hafa orðið mikla breytingar í fjarskiptamálum Íslendinga. Tækninni hefur fleygt fram og sífellt fleiri þættir mannlífsins eru nú háðir net- og símatengingum.

Eftir að ákveðið var fyrir allmörgum árum að selja Símann frá íslenska ríkinu með manni og mús, ef svo má að orði komast, hefur samkeppnisstaða landsbyggðarinnar versnað gagnvart þéttbýlinu. Þar sem ríkið á enga innviði lengur í fjarskiptaþjónustu ræðst hún af hagnaðarvon einkafyrirtækja sem líkt og flest slík nú til dags eru rekin með hámarksarðsemi að leiðarljósi. Þannig má segja að krafan um sífellt hraðari nettengingar vegna aukinnar tölvutækni hafi skilið dreifbýlið eftir í rykmekki þar sem lítil hagnaðarvon einkafyrirtækjanna hefur orðið til þess að lítið er gert þar. Því var íslenska ríkið tilneytt að leggja fram mikla fjármuni í uppfærslu fjarskipta á landsbyggðinni, s.s. í farsímakerfi og ljósleiðarakerfi. Þrátt fyrir það hafa bæði sveitarfélög og íbúar dreifbýlis þurft að greiða stórar fjárhæðir líka til að fá ljósleiðaratengingu inn á sín heimili og fyrirtæki.

Þessu hafa fylgt talsverðir vaxtarverkir. Til að mynda má nefna að mjög víða er lítið eða ekkert farsímasamband, hvort tveggja er varðar talsamband eða netsamband. Það er ekki einu sinni svo gott að samband sé öruggt á þjóðvegi 1, hvað þá á öðrum vegum eða heima á sveitabæjum um allt land. Þá hefur komið í ljós að þegar rafmagn fer af í vondum vetrarveðrum er ekki tryggt að þessi símakerfi hafi varaafl nema skamma stund. Þannig hafa komið upp varasamar aðstæður í slæmum veðrum að vetri þegar rafmagn fer af stórum landsvæðum. Á sama tíma hættir heimasíminn að virka, en mjög víða er búið að slökkva á gamla koparvírnum fyrir heimasíma sem ekki þurftu sértengingu við rafmagn heimila til að virka. Þegar rafmagnsleysi hefur svo dregist á langinn dettur farsímasamband einnig út, ef það var fyrir hendi áður. Þá hefur skapast hættulegt ástand þar sem fólk hvorki kemst í burtu né getur haft samband við umheiminn ef bráð veikindi eða slys ber að höndum.

Þörf er á átaki í uppbyggingu farsímakerfisins á Íslandi. Sjá þarf til þess að fyrirtæki í farsímaþjónustu fari saman í þá vegferð og að samkeppnisyfirvöld verði sett á hliðarlínuna í því máli þar sem sjónarmið um samkeppni í slíkri uppbyggingu eiga ekki við. Þá þurfa ríki og sveitarfélög að koma að og hafa skoðun á því hvernig kerfið verður uppbyggt því þar liggur ábyrgðin á heilsu og velferð landsmanna. Tilkoma farsímakerfis með almennilegri útbreiðslu án „dauðra“ punkta á krítískum stöðum er mál sem snýst um heilsu og velferð íbúa þessa lands og sívaxandi fjölda þeirra sem það heimsækja.

Sækjum fram og gerum betur fyrir Ísland allt.

 

Högni Elfar Gylfason skipar 5. sæti á lista Miðflokksins í Norðvesturkjördæmi fyrir komandi alþingiskosningar

bjorkoghogni@gmail.com

Greinin birtist í Morgunblaðinu þann 12. ágúst, 2021