Fótfestulaus loftmenni

Áhugamönnum um manngert loftslag er nú stefnt til Glasgow á ráðstefnu (COP26), þar sem skrásetja skal markmið heimsleiðtoga og klappa fyrir þeim. Ráðstefnuna sækja hins vegar ekki allir og vantar helst fulltrúa þeirra landa sem mest losa af gróðurhúsalofttegundum.

Það er ekki líklegt til árangurs í neinum málaflokki sem markast af síbreytilegum þáttum og þróun að aðeins þeir leiti lausna sem eru sammála og allri gagnrýni, efasemdum eða nýrri nálgun sé hafnað því hún samræmist ekki upplifun flestra. Það er eins og gleymst hafi í öllum látunum að vísindin hverfast um það að fólk efist, aðeins þannig verður til ný þekking eða betur ígrunduð niðurstaða eða lausn á fyrirliggjandi vanda.

Helgi Tómasson, prófessor í hagrannsóknum og tölfræði við Háskóla Íslands, skrifaði grein á dögunum sem birtist í Morgunblaðinu 14. október sl. sem er merkilegt innlegg í alla umræðu um loftslagsmál. Hann fjallar m.a. um skýrslu IPCC en sú skýrsla leikur stórt hlutverk á áðurnefndri ráðstefnu í Glasgow.

Í greininni kemur fram að tölfræðingar sem hafa sérþekkingu á tímaröðum álykta af fyrirliggjandi gögnum að „þróun yfirborðshita jarðar sé tregbreytileg með fast meðaltal“. Breytingar séu því mjög hægar „og verðskuldi alls ekki gildishlaðnar upphrópanir eins og hamfarahlýnun eða loftslagsvá“. Það má því spyrja sig hvort tölfræðiþáttur loftslagsvísindanna sé í raun illa ígrundaður – en af hverju ætli það sé? Varla er það viljandi gert?

Glannalegar yfirlýsingar í loftslagsmálum eru ekki nýjar af nálinni en skemmst er frá því að segja að Al Gore lýsti því yfir er hann tók við Nóbelsverðlaununum í desember 2007 að Norðurpóllinn yrði líklega bráðnaður að fullu árið 2013, og byggði það á rannsókn bandaríska sjóhersins (US Navy researchers). Þá vísaði hann einnig til rannsóknar þar sem fram kom að Norðurpóllinn yrði bráðnaður að sumri til í síðasta lagi árið 2029. Al Gore er vitaskuld vorkunn að þurfa að bera fyrir sig rannsóknir á sviði þar sem óvissan er afar mikil en það ætti, ef allt væri eðlilegt, að tryggja opna umræðu um alla þætti sem geta haft áhrif – þar á meðal tölfræði, meðhöndlun gagna og á hverju dómsdagsspárnar grundvallast.

Ég athugaði því fyrir forvitnissakir hvort loftslagsráðstefnan í Glasgow, hvar tugþúsundir fulltrúa hinna ýmsu þjóða heims koma saman til að leysa loftslagsvandann enn á ný, byði upp á umræðuvettvang um tölfræði og meðhöndlun gagna. Eftir snögga yfirferð virðist svo ekki vera. Engin gagnrýnin umræða, ekki reynt að velta við öllum steinum heldur aðeins gengið út frá gildandi spám án þess að huga að því hvernig þær eru til komnar. Reynslan sýnir hins vegar að slíkt leiðir fólk hratt út í mýri og þá verða mörg loftmennin fótfestulaus.

 

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins.

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu þann 3. nóvember, 2021

bergthorola@althingi.is