Íslenskt – já takk!

Frá því að ég var lítil stelpa hef ég verið stolt af íslenskum landbúnaði.

Ég hef verið stolt af því hvað vörurnar eru góðar á bragðið, hvort sem um ræðir mjólkurafurðir, kjöt, egg, grænmeti, kornafurðir eða annað sem framleitt er hér á landi. Ég hef verið stolt af því hversu hreinar afurðirnar eru og ég hef verið stolt af öllum þeim bændum sem standa vaktina nótt sem nýtan dag, sinna sínum búfénaði eða gæta að sinni vöru svo við hin getum notið góðs af. Það er ekki sjálfgefið að hafa greiðan aðgang að hreinni og góðri fæðu og ég tel okkur Íslendinga ekki átta okkur á því í hvers konar forréttindastöðu við erum með landbúnaðinn okkar. Þennan frábæra iðnað þarf að styðja með ráðum og dáðum.

Tryggja þarf að orkukostnaðurinn sé lágur eða sambærilegur því sem stóriðjan greiðir fyrir sína orku. Eins þarf að styðja bændur svo þeir geti áfram eflt nýsköpun og þróun í greininni. Með þessu móti nálgumst við það markmið að gera landbúnaðinn sjálfbæran en sjálfbær landbúnaður er lykilatriði, ekki síst þegar við búum á óvissutímum eins og nú með óútreiknanlega veiru vofandi yfir okkur og mögulegum lokunum landsins.

Það eftirlitskerfi sem nú er við lýði er bæði flókið og kostnaðarsamt fyrir framleiðendur. Það þarf að einfalda svo um munar án þess að það komi niður á gæðum vörunnar. Eins mætti leggja landbúnaðinum lið er viðkemur að gera hann enn lífrænni. Þar mætti notast við þróunarstyrki og leita nýrra leiða við áburðarframleiðslu sem notast við innlend náttúruleg hráefni svo sem þörunga og kalk. Það eru margir möguleikar þegar hugsað er í lausnum og það er eitt af því sem leggja þarf ríka áherslu á.

Nú viljum við öll leitast við að minnka kolefnisspor landsins en þó hafa stjórnvöld fært sig í auknum mæli í þá átt að flytja inn kjötvöru, stundum langt að, t.d. frá NýjaSjálandi. Ég er alls ekki hrifin af þessari breytingu því bæði getur hún haft neikvæð áhrif á hreinleika íslenskra afurða sem og að auka kolefnisspor landsins. Það var að þessum sökum sem þingflokkurinn lagði fram þingsályktunartillögu þar sem óskað var eftir því að kjötvörur og garðyrkjuafurðir til manneldis væru merktar með svokallarðri kolefnismerkingu.

Með þessu móti sér neytandinn svart á hvítu hvaða vörur menga mest og ætti þetta að verða til þess að margir hugsuðu sig um áður en þeir keyptu erlenda vöru fram yfir íslenska náttúruvænni og hollari vöru. Kolefnisspor er þó ekki það eina sem upplýsa þarf neytendur um en upprunaland vöru er ekki síður mikilvægt með tilliti til þess að sýklalyfjanotkun er ekki eins háttað í öllum löndum, hvorki innan Evrópusambandsins né utan þess. Í greinagerð frá árinu 2017, sem unnin var fyrir Heilbrigðisráðuneytið, kom fram að á Íslandi sé notkun sýklalyfja í landbúnaði eins sú minnsta í heiminum. Það er ekki lítils virði þegar baráttan við sýklalyfjaónæmar bakteríur verður æ erfiðari og aðalframkvæmdastjóri Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar hefur lýst yfir að neyðarástand væri að skapast í meðhöndlun sjúklinga vegna sýklalyfjaónæmis.

Ég vil stöðva innflutning á ófrosnu kjöti, eggjum og ógerilsneyddum matvælum til að tryggja fæðuöryggi en verði því ekki komið við er lágmark að neytandinn sé meðvitaður um þá áhættu sem hann tekur þegar hann kaupir vörur sem koma annars staðar frá. Sérstaða Íslands er ekki sjálfgefin og við verðum að standa vörð um fæðuöryggið með öllum ráðum. Forsjálir sjá í hendi sér að verðmæti hreins matvælaiðnaðar verður sífellt meiri og því ættum við frekar að stuðla að verndun greinarinnar svo forsendur séu fyrir því að flytja vöruna út síðar meir þegar enn minna verður um hreina fæðu í heiminum. Skammsýni má ekki ráða ríkjum á þingi og ég heiti því að ég muni fylgja sannfæringu minni og kjósa með íslenskum landbúnaði.

Íslenskt – já, takk!

 

Anna Kolbrún Árnadóttir er þingmaður Miðflokksins og situr í 2. sæti á framboðslista Miðflokksins í NA-kjördæmi

Greinin birtist í Bændablaðinu þann 12. ágúst, 2021