Stefnuræða Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins

Stefnuræða Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins, á Landsþingi flokksins sem fram fór á Hilton Reykjavík Nordica 14. og 15. ágúst, 2021

Upptöku af ræðu Sigmundar davíðs má sjá hér

Kæru félagar og vinir.

Loksins er komið að því.

Landsþing til að ræða stefnu okkar fyrir næstu kosningar og Ísland framtíðarinnar.

Það er einstaklega ánægjulegt að geta komið saman þótt sóttvarnir geri okkur ekki kleift að halda hefðbundið þing og margir fylgist með okkur að heiman.

Í fyrri ræðu gagnrýndi ég ríkisstjórnina og benti á það sem betur hefði mátt fara. Mér fannst mikilvægt að halda því til haga svo að við vitum hvað er í vændum ef ekki verður breyting á.

En nú er komið að framtíðinni og lausnunum.

Í þessari ræðu ætla ég að ræða viðfangsefnin og stefnu okkar. Enda er verkefni okkar nú að klára nýja stefnuskrá.

Málefnanefnd flokksins og sérstakir hópar á tilteknum málasviðum hafa unnið mikið og gott starf. Frá fyrsta landsþinginu hefur stefnan þróast og bæst við hana meðal annars með vinnu í þinginu og sveitastjórnum.

Að viku liðinni verður svo annar viðburður.

Þegar flokksmenn hafa lagt línurnar á þessu þingi mun ég fylgja því eftir með sérstökum kynningarfundi.

Þar fer ég yfir hvernig hægt er að ná stórum og mikilvægum markmiðum með algjörlega nýrri nálgun í íslenskum stjórnmálum. Þetta verða útfærslur sem virka og eru til þess fallnar að ryðjast í gegnum allar hindranir sem góðar hugmyndir og framfaraskref mæta yfirleitt.

Allt verður þetta byggt á þeirri stefnu og þeim markmiðum sem við leggjum upp með á þessu þingi og samtölum mínum við fólk sem þekkir best til á sínu sviði.

Ég er svo sannfærður um að lausnir okkar muni virka að þegar ég lagði af stað í ferðalag um landið fyrir tæpum tveimur vikum lét ég konuna mína hafa drögin þannig að ef ég lenti í óhappi á leiðinni gæti hún komið þeim á framfæri og flokkurinn nýtt hugmyndirnar til hagsbóta fyrir landið.

En nú þurfum við að leggja línurnar og það er af nógu að taka þegar við skoðum þörfina fyrir úrbætur og af nógu að taka hvað varðar lausnir okkar.

Ég ætla að fara yfir tækifæri landsins á mörgum sviðum en á öllum þessum sviðum gilda sömu grundvallaratriði.

Við stjórn landsins þarf að fara að líta á heildarmyndina, heildaráhrif og langtímaáhrif þeirra ákvarðana sem eru teknar. Þetta er grundvallaratriði.

Annað grundvallaratriði er barátta okkar fyrir því að láta stjórnmál aftur snúast um innihald og raunverulegar afleiðingar, ekki bara umbúðir og yfirlýst markmið eins og nánast allir aðrir einbeita sér að þessa dagana.

Síðasta atriðið sem ég þarf að nefna áður en ég sný mér að málefnunum er mikilvægi þess að við Íslendingar höfum trú á okkur sjálfum sem þjóð og trú á gildi fullveldisins.

Við nýtum ekki tækifærin ef við þorum ekki að taka stórar ákvarðanir sem byggja á hagsmunum okkar samfélags. Samstarf og viðskipti við aðrar þjóðir eiga svo að fela í sér gagnkvæman ávinning.

En þá að málefninunum. Ég ætla að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið á fyrsta landsþinginu.

Þar ræddi ég um umhverfismál og í ljósi þess sem hefur komið á daginn verð ég aðeins að byrja á dálítilli gagnrýni áður en ég sný mér að lausnunum.

Nú eru nefnilega blikur á lofti með að stjórnvöld, sem hafa fengið aukið vald yfir daglegu lífi almennings, í góðri sátt við þjóðina sem hefur staðið saman, -vegna faraldursins, muni vilja færa það vald yfir á umhverfismál.

Ríkisstjórnin ákvað að toppa sjálfa sig og gefa fyrirheit um að landið dragi enn meira úr losun gróðurhúsalofttegunda en til stóð og enn meira en önnur lönd. Það gerir hún þrátt fyrir að svigrúm Íslands til að draga úr losun sé minna en nánast allra annarra landa, einmitt vegna þess að við notum nú þegar fyrst og fremst endurnýjanlega orku.

Enginn veit hvernig á að ná markmiðunum en kostnaðurinn yrði gríðarlegur.

Eins og ég hef áður nefnt áætlaði breska fjármálaráðuneytið að kostnaðurinn við að ná kolefnishlutleysi þar í landi fyrir árið 2050 (tíu árum síðar en íslensk stjórnvöld leggja til) myndi nema yfir 175.000 milljörðum króna. Það var svo talið vanáætlað og nú hefur breska rafmagnsveitan áætlað að kostnaðurinn nemi um 525.000 milljörðum króna og bara það sem snýr að þeirra sviði, ekki að samgöngum, flutningum, iðnaði, landbúnaði osfrv.

Smá samanburður: Í bili miðar breska fjármálaráðuneytið við 12.250 milljarða á ári. Til samanburðar var hætt við að veita hjúkrunarfræðingum þar í landi þriggja prósenta launahækkun til að spara 52 milljarða.

Ástæðan fyrir því að ég eyddi tíma í að rekja þetta er sú að á Íslandi er verið að innleiða stefnu sem er algjörlega galin og gengur lengra en í Bretlandi. Hún verður gríðarlega dýr, mun draga úr framleiðslu innanlands, hækka skatta og gjöld á almenning -og leggja á nýja- til að stýra neysluhegðun og hefta ferðafrelsi og annað frelsi daglegs lífs. Einnig hefta landbúnað, draga úr fjölda ferðamanna og fækka ferðum Íslendinga til útlanda.

Með öðrum orðum þá snýst hún um skert lífskjör.

Ef einhverjir halda að ég sé að taka of djúpt í árinni bendi ég þeim á að lesa loftslagsstefnu stjórnvalda og hlusta á ötulustu talsmenn hennar.

Allt þetta mun svo leiða til aukinnar misskiptingar þar sem miklu færri munu hafa efni á að reka og eiga bíl, ferðast eða kaupa ýmsar vörur.

Og þetta minnkar ekki loftslagsvandann. Eykur hann frekar.

Það besta sem við getum gert fyrir loftslagsmál heimsins er að framleiða sem mest á Íslandi.

Ég hef oft nefnt að ef álver flyttist frá Íslandi til Kína myndi losun vegna framleiðslunnar nærri tífaldast. Halda menn, að ef álveri væri lokað hér yrði bara framleitt minna ál í heiminum? Aldeilis ekki, eftirspurnin mun áfram aukast og henni yrði þá mætt með kolabruna.

En hugleiðið nú þetta, ég er ekki að leggja fram tillögu, bara að nefna dæmi til að setja hlutina í samhengi:

Ef eitt álver á stærð við Fjarðarál yrði flutt frá Kína til Íslands, eða bara næsta álver byggt á Íslandi frekar en í Kína, myndi sparnaðurinn í losun gróðurhúsalofttegunda vera meiri en öll núverandi losun Íslands.

Og aftur, ég er ekki að leggja til að við fjölgum álverum en það segir sína sögu að eitt nýtt álver myndi skila meiri árangri í loftslagsmálum en óhemju dýr stefna ríkisstjórnarinnar um að draga úr framleiðslu og lífsgæðum á Íslandi.

Heimurinn þarf miklu meiri endurnýjanlega orku. Þar getur Ísland gert ótrúlega hluti og þarf að nýta tækifærin betur. Framleiða meira. Það getur þýtt að losun landsins aukist fremur en að minnka en á heimsvísu mun það draga úr losun og vera það besta sem við getum gert í loftslagsmálum. En það mun líka bæta lífskjör Íslendinga.

Eftirspurn eftir endurnýjanlegri orku veitir okkur ómæld tækifæri til að auka verðmætasköpun um allt land. Við getum aukið orkuframleiðslu, bætt flutningskerfið og nýtt virkjanir betur.

Jarðvarmann er hægt að margnýta í þrepum. Fyrst til raforkuframleiðslu, svo til húshitunar, í baðlón og sundlaugar, við þurrkun og alls konar framleiðslu og svo framvegis.

Víða er þessi verðmæta orka ekki nýtt til fulls. Við Þeistareyki og önnur orkuver mætti byggja upp þekkingar- og framleiðslugarða. Slík starfsemi hefur til dæmis vaxið og dafnað við Svartsengi.

Þannig nýtum við vannýtta orku og sköpum góð, vellaunuð störf.

Fólk sem starfar að orkumálum víða um heim segir mér að ásókn í umhverfisvæna orku aukist svo hratt að þar sem hún er aðgengileg fylgi allt hitt á eftir.

Við ættum að einsetja okkur að flytja út að minnsta kosti eins mikið eldsneyti og við flytjum inn. Ekki raforkuna, alls ekki raforkuna, heldur umhverfisvænt eldsneyti sem framleitt er á Íslandi.

Til dæmis mætti framleiða vetni og binda það, ammoníak og metenól. Það er svo flutt út og notað þar í orkuframleiðslu eða breytt í umhverfisvænt gas sem dælt er inn í gasleiðslukerfi.

Við ættum líka að stefna á að flytja út eins mikið af matvælum, framleiddum á landi, og við flytjum inn. Því markmiði má ná með hærra hlutfalli innlendra afurða í neyslu innanlands og auknum útflutningi.

Ódýrari orka til matvælaframleiðenda væri mikilvægur liður í því að bæta samkeppnishæfni þeirra gagnvart erlendri framleiðslu. Auðvitað ættu íslensk gróðurhús að fá orku á stóriðjuverði og óvíða í heiminum er eins vænlegt að stunda fiskeldi á landi.

Og mikilvægur liður í umhverfisvænu framleiðsluátaki um allt land er jöfnun raforku- og kyndingarkostnaðar. Orkan er sameiginleg náttúruauðlind þjóðarinnar. Fólk á ekki að þurfa að borga mismikið fyrir hana eftir því hvar það býr.

Fyrirtæki á borð við Landsvirkjun eiga að koma með í þetta átak og líta til heildaráhrifanna fyrir samfélagið.

Miðflokkurinn mun leiða byltingu í atvinnumálum, það má kalla það græna byltingu, með framförum í tækni, í framleiðslu og lífskjörum um allt land.

Um leið og við byggjum upp framleiðslu og hátækniiðnað á Íslandi ættum við að bjóða Grænlendingum samstarf við að nýta auðlindir landsins og veita þeim aukna þjónustu. Grænlendingar hafa lengi lýst áhuga á að vinna með Íslendingum.

Landið geymir stóran hluta þeirra sjaldgæfu jarðmálma sem hægt er að vinna á jörðinni. Þessir málmar eru gríðarlega eftirsóttir enda nauðsynlegt hráefni í hvers konar hátækni. Fyrir vikið seilast stórveldin nú til áhrifa á Grænlandi en þar getum við orðið mikilvægir liðsmenn við að hjálpa heimamönnum að byggja upp innviði og nýta auðlindir sínar sér til hagsbóta. Það myndi skila báðum löndunum miklum ávinningi.

Ástæðan fyrir því að ég byrjaði á að ræða mikilvægi aukinnar verðmætasköpunar er sú að hún er nauðsynleg til að standa undir allri þjónustu hins opinbera og aukinni velferð á Íslandi. Hagvöxtur á Íslandi hefur ekki verið nógu mikill að jafnaði. Við gætum gert miklu betur en það er auðvitað háð því að hér verði ekki rekin vaxtarhamlandi stefna eins og boðuð hefur verið.

En við þurfum líka að fara betur með peninga skattgreiðenda.

Samhliða auknu kerfisræði stækkar báknið. Það hefur aldrei verið stærra. Sú þróun mun bara halda áfram nema mörkuð verði stefna um hvernig henni verði snúið við.

Á fjórum árum væri hægt að minnka umsvif hins opinbera miðað við landsframleiðslu um 10% með því að stöðva útþensluna, ráða ekki í meira en helming þeirra starfa sem losna, einfalda stofnanakerfið og auðvitað með aukinni landsframleiðslu.

Miðað við árið 2020 myndi 10% sparnaður þýða að hægt væri að lækka álögur á almenning um 125 milljarða króna. Slík lækkun fæli í sér gríðarlegar kjarabætur og mjög aukinn hagvöxt.

Íslendingar eru ein skattpíndasta þjóð í heimi þegar allt er tekið með í reikninginn. En er fólk að fá nógu mikið fyrir svo háa skattlagningu?

Fólk heldur eftir minna af tekjum sínum en víðast hvar annars staðar en kerfið er auk þess mjög flókið og oft til þess fallið að draga úr vinnu og verðmætasköpun.

Þegar atvinnurekandi getur þurft að greiða yfir 2000 krónur til að koma hverjum þúsundkalli í launaumslag starfsmanna ýtir það ekki undir fjölgun starfsmanna eða hærri laun.

Miðflokkurinn mun lækka álögur á íslenskan almenning og einfalda skattkerfið.

Of stórt bákn og of mikið kerfisræði kostar ekki bara mikla peninga og hærri skatta. Það hefur líka tilhneigingu til að hindra verðmætasköpun og viðureignin við kerfið getur reynst fólki og fyrirtækjum erfið og dýr.

Þegar aftur gafst tækifæri til að fara um landið og hitta fólk heyrði ég sams konar sögur og á ferðum mínum áður en faraldurinn reið yfir. Um allt land hitti ég fólk sem sagði farir sínar ekki sléttar í samskiptum við kerfið. Sögurnar tóku á sig ýmsar myndir og tengdust bæði atvinnurekstri og daglegu lífi.

Viðkvæðið á landsbyggðinni var oft að bara ef kerfið væri ekki stöðugt að búa til hindranir væri nóg um að vera enda ótal tækifæri sem fólk væri til í að nýta.

Höfum í huga að stórt bákn og íþyngjandi regluverk bitnar hlutfallslega mest á tekjulægra fólki og minni fyrirtækjum. Hinir hafa fremur burði til að fást við kröfurnar.

Það dugar ekki bara að minnka báknið. Við þurfum líka að einfalda kerfið og það mun Miðflokkurinn gera.

Lausnirnar eru til reiðu. Ríkisstjórn áranna 2013-16 var búin að kynna aðgerðaáætlun og byrjuð að vinna eftir henni.

Það var meira að segja skrifuð handbók fyrir opinbera geirann um hvernig ætti að ná fram sparnaði og einfalda regluverk.

Eitt af því sem við ákváðum var að í hvert skipti sem stjórnvöld innleiddu ný íþyngjandi lög eða reglugerðir þyrfti að afnema tvær sambærilegar reglur. Þannig mátti virkja sókn kerfisins í nýjar reglur til að einfalda regluverkið og draga úr því.

Rétt áður en faraldurinn hófst safnaði svo Miðflokkurinn saman reynslusögum fólks af viðureign sinni við kerfið svo við gætum kortlagt vandann betur.

Miðflokkurinn mun tryggja að stjórnkerfið verði í þjónustu við almenning en ekki öfugt. Samhliða því munum við tryggja jafnræði milli borgaranna og stjórnkerfisins.

Svo er það fjármálakerfið. Fyrir síðustu kosningar lögðum við fram heildaráætlun um hvernig mætti nýta þá einstöku stöðu sem íslenska ríkið var komið í, eftir uppgjör slitabúanna og yfirtöku bankanna, til að endurreisa fjármálakerfið sem hagkvæmt og sanngjarnt kerfi sem veitir almenningi og fyrirtækjum góða þjónustu á góðu verði.

Ríkisstjórnin tók U-beygju og nú eru erlendir vogunarsjóðir aftur komnir til áhrifa í fjármálakerfinu og farnir að greiða sér ríflegan arð.

Enn er þó tækifæri til að bæta kerfið með hliðsjón af tillögum okkar.

Það fer ágætlega á því að færa sig beint úr kerfishindrunum og fjármálafyrirtækjum yfir í húsnæðismálin.

Í fyrradag voru sagðar fréttir af því að framboð á húsnæði hefði dregist saman um 60% á höfuðborgarsvæðinu milli ára og þriðjungur eigna væri seldur á yfirverði, -hærra verði en beðið var um.

Það er ekki hægt að búa við það að borgaryfirvöld hefti framboð á húsnæði með skipulagðri lóðaskortsstefnu.  Stefnu sem er liður í áformum um að þrengja að þeirri byggð sem fyrir er og leggja grunn að óhemju óhagkvæmum Borgarlínuhugmyndum.

Áformin birtast meðal annars í því að borgin er langt komin með að breyta olíufélögum í fasteignafélög með því að veita þeim leyfi til að byggja fyrir næstu hús ef þau loka bensínstöðvum og fækka bílastæðum.

Það þarf líklega að skylda sveitarfélög til að tryggja lóðaframboð og gera það án þess að líta á það sem sérstaka tekjulind.

Samhliða því þarf þó að einfalda regluverkið og gera skipulagningu og framkvæmd auðveldari og hagkvæmari. En um leið vernda rétt kaupenda vegna galla með tryggingum verktaka.

Við þurfum líka fjölbreyttari nýbyggingar. Í Bretlandi skipaði ríkisstjórnin sérstakan hóp um fallegra og betra húsnæði.

Formaður hópsins var hinn þekkti heimspekingur Roger Scrouton. Hann færði rök fyrir því að mikilvægt væri að leyfa hefðbundinni fagurfræði að njóta sín samhliða framkvæmdum í tísku hvers tíma.

Það var ánægjulegt að sjá niðurstöður hópsins því þar kom fram margt sem ég hef talað fyrir frá því löngu áður en ég byrjaði í stjórnmálum. Það að vernda gamla byggð og byggja bæði klassískar byggingar þar sem það á við en líka hús í tísku samtímans styrkir alla byggðina og verndar verðmæti fasteignanna.

Sjáið bara framkvæmdirnar við nýjan miðbæ á Selfossi. Miðbærinn er hannaður til að vera aðlaðandi. Ekki aðeins munu húsin þar laða að sér íbúa, ferðamenn og atvinnulíf. Miðbærinn mun einnig auka og vernda verðmæti annarra fasteigna í sveitarfélaginu, einbýlishúsin, raðhúsin, fjölbýlishúsin og atvinnuhúsnæði.  Það er ekki hvað síst mikilvægt að líta til fallegrar hönnunar þegar verið er að byggja félagslegt húsnæði.

Í Brugge í Belgíu skoðaði ég félagslegt húsnæði frá 15. öld sem enn er mjög eftirsótt. Svipuð dæmi má reyndar finna víða.

Stóru fjölbýlishúsin sem voru reist fyrir fátækt fólk á millistríðsárunum í Vínarborg eru nú mjög eftirsótt.

Hins vegar hefur félagslegt húsnæði sem var byggt á seinni hluta 20. aldar víða verið sprengt niður því það var lélegt og umhverfið ómannvænt.

Eins og Scrouton benti á: Gæðin borga sig því húsin endast margfalt lengur og það er stórt umhverfismál.

Markmið okkar ætti þó að vera að allir Íslendingar fái tækifæri til að eignast eigið húsnæði.

Árið 2016 kynnti Ragnar Árnason hagfræðiprófessor tillögur að því hvernig vinna mætti að því markmiði. -Tillögur um hlutdeildarlán. Í faraldrinum innleiddi ríkisstjórnin (og þingið allt) örlítið brot þessarar hugmyndar.

Það var hins vegar gert á heldur kerfislægan hátt.

Úrræðið nær bara til nýrra íbúða sem Húsnæðis og mannvirkjastofnun hefur samið um og samþykkt fyrir fram.

Lánin eru bara fyrir þá tekjulægstu. Þeir mega sækja um á sérstökum umsóknartímabilum sem auglýst eru nokkrum sinnum á ári og svo er dregið um hverjir þeirra sem uppfylla skilyrði fái stuðninginn.

Þeir sem eru með samþykkt kauptilboð í eign njóta forgangs í happdrættinu.

Allt er þetta heldur sérkennilegt enda úrræðið aðeins ætlað þeim sem hafa ekki efni á að kaupa án ríkisframlagsins.

Hvernig á þá fólk að gera skuldbindandi tilboð án þess að vita hvort það fær fjármögnunina?

Enda hef ég heyrt sögur af því að fólk hafi beðið svara svo lengi að það missti af eignunum sem það ætlaði að kaupa.

Við ættum einfaldlega að innleiða hugmyndina eins og hún var kynnt þannig að hún geti skilað þeim árangri sem henni var ætlað.

Þannig verði öllum íslenskum ríkisborgurum gefinn kostur á að kaupa eign miðað við ákveðin stærðarmörk með hlutdeildarframlagi frá fjárfestingarsjóði fasteigna.

Kaupandinn getur notað sjóðshlutann sem veð með vissum skilyrðum. Þegar húsnæðið er selt fær sjóðurinn sinn hluta endurgreiddan. En ef ekki er búið að selja húsnæðið innan 10 ára endurgreiðir kaupandinn framlagið með láni á viðeigandi kjörum.

Fasteignasjóðurinn getur selt skuldabréf á markaði og verið orðinn sjálfbær að 10 árunum liðnum.

Á síðustu áratugum hefur húsnæðisverð hækkað um 2,4% á ári að meðaltali. Ef það breytist ekki verður fjárfesting sjóðsins arðsöm en fyrst og fremst munu fleiri en ella ná að eignast eigið húsnæði.

Miðflokkurinn mun gefa öllum tækifæri til að eignast fasteign.

Það er mikilvægt að lausnir í húsnæðismálum, eins og á öðrum sviðum, nái til landsins alls.

Fyrir síðustu kosningar kynntum við heildarstefnu Miðflokksins í byggðamálum undir heitinu Ísland allt.

Stefnan er ólík fyrri áherslum í byggðamálum, annars vegar að umfangi og hins vegar vegna þess að með henni er litið til heildarsamspils allra byggðamála um allt land.

Í stað þess að reyna smáskammtalækningar hér og þar spila allar aðgerðir saman og eitt styður annað. „Ísland allt“ snýr að samgöngum, fjarskiptum, orkuflutningum, heilbrigðisþjónustu, menntamálum, aðstæðum atvinnurekenda og allri þeirri þjónustu sem allir landsmenn eiga jafnan rétt á.

Þótt þetta kosti sitt er ávinningurinn af því að verja allar byggðir landsins og nýta tækifæri þeirra til verðmætasköpunar miklu meiri en kostnaðurinn sem af því hlýst. Það er líka menningarmál og réttlætismál.

Í byggðamálum mun Miðflokkurinn leiða samfélagið úr dýrri vörn í arðbæra sókn.

Vegakerfið hefur lengi verið vanrækt og þarfnast stórfelldrar uppbyggingar. Það á við í þéttbýlinu á höfuðborgarsvæðinu og hringinn í kringum landið. Sú staða er þjóðhagslega óhagkvæm, hún dregur úr hagvexti og getu okkar til að nýta landið allt og skapar hættur fyrir vegfarendur.

Þótt framkvæmdir standi nú yfir samkvæmt samgönguáætlunum liðinna ára er ekki hægt að miða framtíðaruppbyggingu við það -eins og nú- að þær byggist á ávinningi af óvenjulegum, raunar einstökum, efnahagsaðgerðum ásamt fjárfestingaátaki vegna áhrifa heimsfaraldurs.

Við þurfum fyrirkomulag sem tryggir stöðugar endurbætur og viðbætur til framtíðar.

Með stofnun almenningshlutafélags í eigu allra landsmanna getum við sett af stað viðvarandi, gagngerar endurbætur á samgöngukerfi landsins.

Félagið myndi einbeita sér að uppbyggingu stofnvega.

Ríkið innheimtir nú þegar gríðarlegar tekjur af umferð en auk þess gæti félagið gefið út skuldabréf. Vaxtakjör íslenska ríkisins eru einstaklega góð eftir að ríkisfjármálin voru löguð á sínum tíma og ásókn í að lána ríkjum fjármagn jókst.

Lífeyrissjóðir eða aðrir fjárfestar gætu þannig fjármagnað þessar þjóðhagslega arðbæru framkvæmdir.

Með þessu móti getur farið fram fyrirsjáanleg og viðvarandi vinna þar sem allir stofnvegir verða kláraðir, einbreiðum brúm útrýmt af þjóðveginum, ferðamannaleiðir byggðar upp, göng lögð til að tengja byggðir og lagðar tvær akreinar í hvora átt þar sem umferðarálag er mest en 1+2 vegir annars staðar.

Núverandi ofurskattlagning umferðar veitir tækifæri til úrbóta, möguleikann á að endurskoða gjaldlagningu á samgöngur til að tryggja jafnræði og stöðugt innstreymi í almenningshlutafélagið.

Samgöngubætur skila auk þess þjóðhagslegri hagkvæmni, efla byggðirnar og atvinnuvegina um allt land.

Ferðaþjónustan mun augljóslega njóta góðs af enda vegkerfið nú ekki í stakk búið til að takast á við hina miklu fjölgun ferðamanna. Ferðaþjónustan mun líka njóta góðs af skattalegum hvötum og öðrum aðgerðum sem sniðnar eru að minni fyrirtækjum enda teljast lang flest fyrirtæki í greininni til lítilla fyrirtækja.

En hvaða litlu fyrirtæki hafa verið undirstaða byggðar í landinu frá upphafi?

Það eru fjölskyldubúin sem mynda saman íslenskan landbúnað. Það er menningarlega, sögulega, efnahagslega og samfélagslega mikilvægt að vernda landbúnaðinn. Enda höfum við lagt fram víðtækustu stefnu sem birst hefur í stjórnmálum, alla vega um áratuga skeið, um eflingu landbúnaðar og matvælaframleiðslu.

Íslenskur landbúnaður er umhverfisvænn og þegar við bætist áhersla á skógrækt mun mikilvægi hans  í umhverfismálum aukast enn.

 

Hin undirstöðuatvinnugreinin sem við höfum stundað frá landnámi, sjávarútvegur, skipar einnig sérstakan sess í menningu og sögu þjóðarinnar.

Það er mikilvægt að landsmenn upplifi að fyrirkomulagið sem greinin starfar eftir sé sanngjarnt og um leið þarf að tryggja að sú hagkvæmni sem greinin hefur náð á Íslandi glatist ekki.

Í sjávarútvegi eins og öðrum greinum þurfum við stefnu sem bitnar ekki á litlu og meðalstóru fyrirtækjunum eða ýtir undir samþjöppun.

Lítil og meðalstór fyrirtæki á flestum sviðum og um allt land voru lent í vörn löngu áður en faraldurinn hófst.  Útgjöld þeirra höfðu aukist mikið og viðureignin við kerfið var orðin þeim erfið.  Slíkt skekkir mjög samkeppnisstöðu hinna minni. Þegar reglugerðapakkarnir streyma á færibandi frá Evrópusambandinu og eru jafnvel innleiddir af áfergju bitnar það fyrst og fremst á minni fyrirtækjunum.  Þeim er ætlað að uppfylla kröfur sem eru sniðnar að alþjóðlegum stórfyrirtækjum.

Þegar sparisjóður á Íslandi þarf að uppfylla sömu skriffinnskukröfur og Deutsche Bank eða bara stóru íslensku bankarnir veikir það augljóslega stöðu þess litla.

Aukin gjaldtaka og regluverk má ekki verða til þess að veikja þá litlu og koma í veg fyrir að fólk leggi í að stofna ný fyrirtæki um góðar hugmyndir. Störfin og nýju verðmætin verða til hjá litlu fyrirtækjunum.

Miðflokkurinn mun létta af þeim álögum og veita þeim betra rekstrarumhverfi og rétt eins og veittur var skattaafsláttur vegna hlutabréfakaupa ætti nú að veita slíkan afslátt vegna fjárfestingar í litlum fyrirtækjum og nýrri verðmætasköpun. 

Fyrirtækin þurfa líka á því að halda að menntakerfið útskrifi fólk með þekkingu á þeim sviðum sem skipta mestu máli við efnahagslega uppbyggingu landsins.

Það hefur lengi verið rætt um mikilvægi þess að efla iðn- og tækninám. Stjórnmálamenn hafa þó ekki verið reiðubúnir til að gera það sem þarf.

Slíkt nám er dýrara en margt annað nám. Fjárveitingarnar þurfa að taka mið af því og stjórnvöld að vera ófeimin við að eyrnamerkja fjárveitingar ákveðnu námi. Skattgreiðendur, einstaklingar og fyrirtæki borga reikninginn. Þeir eiga að geta haft áhrif á hvernig fjármagnið er nýtt.

Slík nálgun auðveldar líka ríkisvaldinu að liðka fyrir samstarfi skóla og fyrirtækja og auka ásókn í námið.

Á Íslandi ættu allir sem vilja nema iðn- og tæknigreinar að eiga rétt á að komast í nám.

 

Heilbrigðiskerfið hefur talsvert verið rætt að undanförnu. Vandi þess varð ekki til með kórónuveirufaraldrinum. Þörfin fyrir úrbætur í kerfinu hefur verið ljós lengi en á kjörtímabilinu hefur gallað kerfi verið gert verra og síður til þess fallið að gegna hlutverki sínu.

Ísland er eitt best stæða ríki heims, fámenn þjóð í tiltölulega stóru og gjöfulu landi. Við getum rekið heilbrigðiskerfi sem tryggir öllum góða þjónustu alla ævi.

Á kjörtímabilinu hafa heilbrigðismal verið í heljargreipum kerfisræðis og pólitíkur sem virðist beint upp úr ríkisstefnu Marteins Mosdal.

Markmiðið verður að vera að tryggja öllum góðan aðgang að góðri heilbrigðisþjónustu. Samþjöppunarstefna liðinna ára skilar því ekki. Miðflokkurinn mun snúa þeirri þróun við og færa heilbrigðisþjónustuna aftur nær fólki um allt land.

Til að ná markmiðinu um að veita öllum landsmönnum góða þjónustu þarf að laga kerfið og nýta fjármagnið þannig að árangurinn skili sér til sjúklinga.

Ef ríkið á að nýta fjármagnið vel og veita góða þjónustu þarf það að geta samið við þá sem geta best hjálpað sjúklingum. Slíkt felur ekki í sér einkavæðingu heilbrigðiskerfisins.

Ætlar einhver að halda því fram að ríkið geti gert alla hluti betur en allir aðrir? Þeir eru varla margir. Á fjölmörgum sviðum leitar ríkið eftir þjónustu þeirra sem geta innt hana best af hendi.

Áratugum saman hefur sjálfstætt starfandi fólk skipt sköpum í heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Við þurfum að nýta krafta þessa fólks og gera heilbrigðisstarfsfólki kleift að velja á milli vinnustaða. Þannig fáum við fleiri, ánægðari, betur launaða heilbrigðisstarfsmenn og það gagnast sjúklingum. Vel menntað fólk verður auk þess líklegra til að skila sér heim eftir verðmætt nám í útlöndum.

Við skulum líka virða þau fjölmörgu félög, sjálfboðaliðasamtök og hjálparstofnanir sem hafa áratugum saman aðstoðað kynslóðir Íslendinga. Þessi samtök á að efla með stuðningi og skattalegum hvötum í stað þess að hrekja þau í burtu og beina öllum inn í yfirfullt kerfi á einum stað.

Það ætti ekki að koma neinum á óvart að nýbygging Landspítalans við Hringbraut er þegar komin langt fram úr áætlun þótt hún sé varla komin upp úr jörðinni.

Auðvitað verður sú bygging sem nú er verið að reisa kláruð en á meðan unnið verður að því er rétt að hefja undirbúning að því að viðbótar uppbygging fari fram á hagkvæmari hátt á betri stað fremur en að stöðugt verði bætt í kraðakið við Hringbraut næstu ár og áratugi.

Það er líka hagkvæmt að byggja fleiri hjúkrunarheimili en einnig að efla heimahjúkrun og þjónustuheimili sem henta þeim sem hafa heilsu til.

Hver ætli kostnaðurinn sé af því að eldri borgarar þurfi að liggja inni á Landspítalanum af því það gleymdist að gera ráð fyrir fyrirsjáanlegri þörf fyrir önnur úrræði. Á meðan nýtist spítalinn ekki sem skyldi fyrir aðra sjúklinga.

Það er líka hagkvæmt að eyða biðlistum. Því fyrr sem fólk fær lækningu því betra fyrir einstaklinginn og samfélagið. Aðgerðirnar verða enda framkvæmdar að lokum.

Varla ætla menn að reikna það sem sparnað við biðlistafyrirkomulagið að einhverjir deyi á biðlista eða verði of veikir til að fara í aðgerð.

Það verður ekki hægt að framkvæma allar aðgerðirnar á Landspítalanum en það er hægt að framkvæma þær víða á Íslandi á mun hagkvæmari hátt en að senda þjáð fólk til útlanda í margfalt dýrari aðgerðir.

Þegar við verðum búin að laga kerfið mun fólk ekki heyra fleiri fréttir um aðflæðisvanda og fráflæðisvanda.

Þetta er allt spurning um skipulag og góðan rekstur byggðan á skynsemi, ekki pólitískum kreddum.

 

Undanfarin ár hef ég reglulega rifjað upp fyrirheit mitt og ríkisstjórnarinnar frá 2014 um að þegar búið væri að ná efnahagslegum viðsnúningi fengju eldri borgarar að njóta þess. Þeirra hlutur yrði réttur.

Árangurinn í efnahagsmálunum náðist en enn bíða eldri borgarar.

Eldri borgarar eiga að njóta jafnræðis á við aðra, greiða sams konar skatta og hafa frelsi til að stjórna eigin lífi.

Skerðingar Almannatrygginga eru ekki aðeins ósanngjarnar og til þess fallnar að gera fólki erfitt fyrir við að bæta líf sitt. Þær fela líka í sér mjög neikvæða hvata fyrir samfélagið. Þær draga úr vinnu, verðmætasköpun og sparnaði. Allt eru það mikilvægir hlutir fyrir samfélagið í heild.

Við þurfum að einfalda kerfið, draga úr skerðingum og innleiða jákvæða hvata.

Málefnefndin hefur unnið gott starf við að greina þetta og fengið góðar tillögur, meðal annars frá Hákoni Hákonarsyni sem þekkir þessi mál í þaula og öðrum sérfræðingum.

Samhliða því að taka á skerðingavandanum og veita fólki aukið frelsi til að fara með eigin sparnað og hafa áhrif á lífeyrissjóði munum við tryggja rétt fólks til að starfa lengur ef það vill.

Slíkri breytingu fylgir víðtækur ávinningur.

Margir sem vilja vinna lengur -að meira eða minna leyti- og geta lagt mikið af mörkum, öðlast frelsi til þess og það hefur jákvæð áhrif á heilsu þeirra og þar með heilbrigðiskerfið.

Vinnuframlag í samfélaginu eykst og það eykur hagvöxt sem skilar ávinningi fyrir alla. Hagur ríkissjóðs batnar með meiri tekjum og staða lífeyrissjóða styrkist með meiri iðgjöldum.

Með þessu fækkar ekki störfum fyrir hina yngri. Aukin landsframleiðsla skilar fleiri störfum og hærri tekjum.

Það er mikilvægt að gera greinarmun á aðstæðum öryrkja og eldri borgara en hvað varðar skerðingar og lífskjör hljótum við að geta sammælst um að byggja upp kerfi sem tryggir viðunandi kjör en veitir líka jákvæða hvata.

Við höfum öll skyldur við aðra meðlimi samfélagsins.

 

En við viljum líka aðstoða nauðstadda annars staðar í heiminum. Íslendingar hafa lagt metnað í það með þróunaraðstoð og með því að taka vel a móti flóttamönnum sem við bjóðum til landsins.

Hælisumsóknakerfið er hins vegar í algjörum ólestri og síður en svo til þess fallið að gera okkur kleift að nýta fjármagn sem best til að hjálpa þeim mest - sem þurfa mest á hjálpinni að halda.

Við þurfum að andmæla þeim sem leitast við að setja meingallað og misnotað hælisleitendakerfi í samhengi við allt fólk af erlendum uppruna. Fólk sem hefur flust til landsins af ýmsum ástæðum og lagt mikið af mörkum til samfélagsins. 

Lögreglan hefur bent á að meirihluti þeirra sem kemur til að leita hælis í Evrópu komi á vegum stórhættulegra glæpagengja sem taka oft aleiguna af fólki eða hneppa það í ánauð með því að selja því væntingar um vænlega áfangastaði.

Í þeim efnum er Ísland rækilega komið á kortið. Hælisleitendur eru nú hlutfallslega sexfalt fleiri á Íslandi en í Noregi og Danmörku.

Það er annars vegar afleiðing þeirra skilaboða sem þarlend stjórnvöld hafa sent frá sér og hins vegar þeirra skilaboða sem berast frá Íslandi.

Slíkar fréttir eru fljótar að berast og hafa fljótt áhrif.

Hælisumsóknum hefur fækkað um 90% í Danmörku á síðast liðnum sex árum.

Nú segir forsætisráðherra Danmerkur, formaður jafnaðarmanna, að markmið ríkisstjórnarinnar sé að enginn komi til Danmerkur til að sækja um hæli. Danir vilja ekki láta nota landið sitt sem áfangastað fyrir glæpagengi, þeir vilja sjálfir hafa stjórn á því hverjum boðið er til landsins.

Íslensk stjórnvöld hafa hins vegar farið í þveröfuga átt við stjórnvöld annars staðar á Norðurlöndum. Það þýðir að fleiri munu líta á Ísland sem vænlegan áfangastað í staðinn.

Jafnvel í þeim lokunum sem fylgdu faraldrinum dró ekki eins mikið úr ferðum hingað í Norður Atlantshafið eins og til landa á meginlandi Evrópu.

Samþykktar hælisveitingar á síðasta ári segja sína sögu. Á covidárinu 2020 voru þær 585 á Íslandi. Hlutfallslega 9 sinnum fleiri en í Danmörku.

Ríkisstjórnin reyndi svo að koma í gegn frumvarpi sem hefði gert þá sem koma hingað sem hælisleitendur jafnsetta þeim sem stjórnvöld bjóða hingað og hafa lagt mikinn metnað í að þjónusta vel. Ekkert væri eins til þess fallið að ýta undir misnotkun kerfisins og hamla möguleikum okkar á að hafa stjórn á því.

Við þurfum að ná stjórn á landamærunum og geta sjálf metið hvernig við aðstoðum sem flesta sem þurfa sem mest á hjálp að halda. Misnotkun kerfisins bitnar verst á þeim sem helst þurfa hjálp.

Við ættum að taka upp stefnu danskra jafnaðarmanna í þessum málum. Sú stefna er heilsteypt og vel ígrunduð niðurstaða mikillar og góðrar vinnu eftir 40 ára biturra reynslu.

Stefnan gengur út á að ná stjórn á eigin landamærum, hindra misnotkun glæpamanna og nýta fjármagn til að gera sem mest gagn.

Við þurfum að hugleiða hversu vel núverandi fyrirkomulag Schengen samstarfsins hentar okkur. Fjöldi Evrópulanda, sem ekki eru aðeins aðilar að Schengen, heldur einnig að Evrópusambandinu, hefur á undanförnum árum vikið Schengen fyrirkomulaginu til hliðar þegar það hefur verið talið nauðsynlegt til að verja landamæri. Við eigum líka að leyfa okkur að gera þær ráðstafanir sem við teljum nauðsynlegar og henta Íslandi sem eyju.

Að sjálfsögðu munum við þó ekki draga úr samstarfi við önnur lönd hvað varðar löggæslu og landamæravarnir.

 

Skýrslur greiningardeildar Ríkislögreglustjóra um ört vaxandi umsvif skipulagðrar glæpastarfsemi á Íslandi eru sláandi lesning. Það er í raun óskiljanlegt að þær hafi ekki vakið meiri athygli en raun ber vitni þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir, ekki hvað síst Miðflokksins, til að efna til umræðu um innihaldið.

Vaxandi umsvif erlendra glæpagengja við innflutning og sölu fíkniefna, misnotkun hælisleitendakerfisins, mansal og margt annað sem við getum ekki sætt okkur við að viðgangist (og aukist) í íslensku samfélagi kallar á viðbrögð.

Í skýrslunum er fjallað um þörfina fyrir sérstaka löggæsludeild til að taka á skipulagðri brotastarfsemi. Ég tek undir rökin og tel einsýnt að við ættum að stofna sérstaka lögreglu til að fást við skipulagða glæpi.

Greiningardeild ríkislögreglustjóra gæti þannig orðið að öflugu liði með nægan mannafla, tækjabúnað, þekkingu, tækni, úrræði, samstarf við sams konar lögreglu í nágrannalöndunum og annað sem þarf til að takast á við þessa miklu ógn.

Þetta er dæmi um verkefni sem mun spara miklu meira fyrir samfélagið en það kostar. Svo ekki sé minnst á þau verðmæti sem felast í því að tryggja öryggi og forða sem flestum frá fíkniefnaneyslu og annarri ánauð.

Það var ótrúlegt við þessar aðstæður að sjá stjórnvöld leggja fram frumvörp sem hefðu auðveldað misnotkun hælisleitendakerfisins og lögleiðingu fíkniefna.

Áherslan þarf að vera á að efla það góða starf sem fram fer á Íslandi við að aðstoða fórnarlömb fíkniefna og fjölskyldur þeirra. Ekki að auðvelda aðgengi og senda þau skilaboð að eiturlyfjaneysla teljist ásættanleg að mati íslenskra yfirvalda.

Og gleymum ekki forvarnastarfi og mikilvægi íþrótta og æskulýðsfélaga. Þau gegna gríðarlega mikilvægu hlutverki við að vernda andlega og líkamlega heilsu íslenskra ungmenna og þjóðarinnar allrar. Fjárfesting á því sviði skilar sér margfalt til baka.

 

Faraldurinn hefur minnt okkur Íslendinga á að við stöndum öll í þessu saman og mikilvægi þess að við sem þjóð, og í raun ein stór fjölskylda pössum upp á hvert annað.

Það er áminning um mikilvægi þess að verja frelsi hvers og eins og að við erum öll jafnrétthá en einnig áminning að við höfum öll skyldur gagnvart samfélaginu.

Á Íslandi þurfum við að standa vörð um hefðbundið frjálslyndi sem gengur ekki hvað síst út á frelsi fólks til að hafa ólíkar skoðanir og tjá þær. Geta þannig efnt til rökræðu án þess að þurfa að óttast útskúfun.

Ef einhverjir hafa skoðanir sem okkur mislíkar þá svörum við með rökum fremur en að hefta umræðu.

Framfarir liðinna alda og árþúsunda hafa byggst á frelsi til að hugsa og tjá sig og samkeppni hugmyndanna.

Kosningar í lýðræðisrík eru til þess ætlaðar að bjóða upp á hugmyndamarkað þar sem kjósendur geta vegið og metið það sem ólíkt fólk og flokkar hafa upp á að bjóða.

Það er mikilvægt að verja þessa grundvallarhugmynd lýðræðisins, allir hafa jafnmörg atkvæði, eitt á mann, og eiga að hafa jafnmikil áhrif. Forstjórinn á ekki að ráða meiru um stjórn landsins en sá sem þrífur skrifstofuna hans.

En til þess að kjósendur geti haft áhrif á hvernig landinu er stjórnað verða stjórnmálamenn að standa við það sem þeir lofa og eru kosnir út á. Þeir hafa engan rétt á að gefa öðrum valdið, jafnvel þótt þeir kalli það faglegt ferli.

Stjórnmálamenn eiga ekki valdið. Þeir hafa það bara að láni í nokkur ár í senn. Valdið er almennings og ekki annarra að gefa það.

Í samræmi við þetta munum við starfa sem flokkur. Við bjóðum upp á lausnir og gefum fyrirheit sem við stöndum við eftir því sem kjósendur gefa okkur tækifæri til.

 

Við bjóðum nú fram öfluga lista hugsjónafólks um allt land sem gefur kost á sér vegna þess að það vill starfa fyrir landsmenn á þessum forsendum.

Þótt ekki verði allir þeir sem setið hafa á þingi fyrir flokkinn á kjörtímabilinu í framboði í komandi kosningum hefur það fólk allt sýnt, svo ekki verður um villst, hvers það er megnugt. Við erum þeim þakklát og munum áfram njóta krafta þeirra og reynslu þótt það verði með öðrum hætti.

Flokkur þarf að vera meira en bara þingmenn og sveitarstjórnafulltrúar. Flokkur þarf að vera hópur ósérhlífins fólks sem er tilbúið til að leggja á sig vinnu, oft mikla vinnu, vegna þess að það trúir því að það skipti raunverulega máli hvaða stefn ræður för við stjórn landsins.

Ég get óhikað sagt ykkur það… að fyrr en á reyndi hefði ég ekki trúað því að hægt yrði að mynda eins öflugan og heilsteyptan flokk fólks og ykkur sem myndið Miðflokkinn.

Nú snúum við okkur að því að móta stefnu fyrir framtíð Íslands, stefnu sem ég hlakka til að berjast fyrir með ykkur og framkvæma svo í samræmi við það.

Því vitum það -og vonandi fá landsmenn allir að komast að því- að það sem við segjumst ætla að gera, það gerum við.

Og þegar við gerum það sem við segjumst ætla að gera þá munum við leysa vandamál, við munum nýta tækifærin, við munum bæta lífskjör allra landsmanna og gera Ísland betra en nokkru sinni fyrr.

Allir munu sjá svo ekki verður um villst að það munar öllu um Miðflokkinn.

 

Ræða Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins á Landsþingi 14. ágúst, 2021

Hilton Reykjavík Nordica