Sáttamiðlun er leið út úr vandanum

Ákall eftir sáttamiðlun sem virku úrræði á Íslandi hefur aukist jafnt og þétt síðustu ár en svo virðist sem löggjafinn hafi lítinn sem engan áhuga á því að bæta þetta umhverfi og marka skýran lagaramma í kringum sáttamiðlanir. Sáttamiðlun er virkt úrræði í öllum hinum Norðurlandaríkjunum og hefur verið notuð þar til jafns á við dómstólaleiðina í áratugi en fyrstu lögin um sáttamiðlun í Noregi voru lögfest fyrir tæpum 30 árum. Á Englandi, í Bandaríkjunum og Kanada hefur löggjafinn einnig styrkt markvisst þessa leið.

Það sem helst hefur vantað hér á landi er vilji hjá ríkistjórninni til að setja markvissa og skýra stefnu í sáttamiðlun og setja upp sáttamiðlunarstofnun samhliða dómstólum en það er nauðsynlegt til að létta á dómskerfinu. Um leið opnar það á að fólk geti leyst úr ágreiningsmálum sínum án aðkomu dómstóla þar sem fólk hefur sjálft forræði á máli sínu og tekur virkan þátt í að finna lausn sem allir aðilar eru sáttir við. Sáttamiðlarinn sér til þess að hlustað sé á báða aðila og að þeir fái tíma til að koma fram með sín sjónarmið og tillögur að lausn. Þau mál sem skekja þjóðfélagsumræðuna núna sýna glögglega vankanta dómstólaleiðarinnar sem er tímafrek og langvinn. Sáttamiðlun getur þar gefið fólki færi á að takast með skjótum hætti á við ágreiningsmál án aðkomu dómstóla.

En því miður er það svo að löggjöf hér á landi varðandi sáttamiðlun er ruglingsleg og hætta er á neikvæðum áhrifum vegna ósamræmis í henni. Á Íslandi er takmörkuð þekking á þessu sviði við háskólana ólíkt flestum hinna Norðurlandaþjóðanna. Umgjörð sáttamiðlunar á Íslandi er takmörkuð, þá virðist þeirri rýru lagasetningu sem þó er til um þetta úrræði hér á landi ekki hafa verið fylgt eftir með markvissum hætti af stjórnvöldum. Algjört áhugaleysi hefur ríkt hjá ríkisstjórninni til að gefa þessu úrræði þann stað sem löndin sem við miðum okkur við hafa gert. Margoft hefur stjórnvöldum verið bent á þetta úrræði en ekki hefur verið hlustað.

Marka þarf skýra lagaumgjörð

Það er nauðsynlegt að hefjast handa nú þegar við að marka skýra lagaumgjörð þegar kemur að sáttamiðlunum. Löndin í kringum okkur eru að styrkja þetta úrræði til muna og gera þegnum sínum auðveldara að nýta sáttamiðlunarúrræðið. Á Íslandi er ákall í samfélaginu eftir úrræði sem þessu þegar kemur að vægum brotum. Því þarf að finna sáttamiðlun farveg við hlið réttarkefisins þar sem þolandi og gerandi geta fundið sameiginlegan flöt á máli sínu án þess að réttarkerfið komi þar við sögu.

Það er sorglegt að sjá að þrátt fyrir að þetta úrræði hafi skilað mjög góðum árangri í tilraunaverkefnum þá hefur lítið verið gert til að halda þeirri góðu vinnu áfram. Í þessu samhengi er gott að rifja upp að fyrir rúmum tíu árum síðan lauk tveggja ára tilraunaverkefni um sáttamiðlun í sakamálum með frábærum árangri en þrátt fyrir það hefur ekki náðst að halda þessu góða starfi áfram og festa sáttamiðlun í sessi í minni brotum.

Þegar kemur að sáttamiðlun í íslenskum lögum má helst nefna 33. gr. a. barnalaga nr. 76/2003, með síðari breytingum. Það verður þó að telja að mistekist hafi verið að fylgja þessari lagasetningu eftir. Þær reglur sem settar voru til að skýra ákvæðið eru frá 2013 en þá voru þær settar til bráðabirgða og nú átta árum síðar eru þær enn í gildi óendurskoðaðar.

Það hefur ríkt áhugaleysi þegar kemur að sáttamiðlunar úrræðinu hjá löggjafavaldinu og er mjög mikilvægt að um sáttamiðlun verði sett skýr löggjöf til þess fallin að auðvelda notkun úrræðisins ásamt því að á fót verði sett sáttamiðlunarstofnun samhliða dómstólunum. Er þetta eitt af brýnum verkefnunum næsta kjörtímabilis enda myndi allt samfélagið njóta ávinningsins.

Ég mun beita mér fyrir innleiðingu sáttamiðlunar í íslenskt réttakerfi og gera það að virku úrræði samhliða dómstólum.

Miðflokkurinn mun leggja áherslu á að þetta úrræði verði valkostur sem stendur landsmönnum til boða.

 

Vilborg Þóranna Bergmann Kristjánsdóttir er lögfræðingur og sáttamiðlari og skipar 1. sæti á lista Miðflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður í komandi alþingiskosningum.

Greinin birtist í Morgunblaðinu þann 6. september, 2021