Kunnátta í norrænum tungumálum er lykill að samstarfi

Fjölmargir Íslendingar stunda nám á háskólastigi á Norðurlöndunum. Íslendingar hafa einnig lengi sótt vinnu til Noregs og fleiri norrænna landa. Nærri því öll félagasamtök, stofnanir og sveitarfélög eiga í norrænu samstarfi. Íslenskir ráðherrar funda reglulega og vinna með starfssystkinum sínum á Norðurlöndum á vettvangi Norrænu ráðherranefndarinnar. Norrænir þingmenn vinna saman í Norðurlandaráði. Þegar á reynir og þörfin er mest leitum við aðstoðar Norðurlanda. Ekkert alþjóðlegt samstarf er eins mikilvægt og samstarfið við Norðurlönd og ekkert annað samstarf nýtur eins mikils stuðnings og það norræna.

Einn mikilvægasti lykillinn að því að nýta þau tækifæri sem okkur bjóðast á Norðurlöndum til vinnu og náms og til að viðhalda öflugu samstarfi er tungumálakunnátta. Það er áhyggjuefni að kunnáttu Íslendinga í skandinavískum málum hefur hrakað mjög á síðustu áratugum. Einn þáttur í því að efla kunnáttu landsmanna í norrænum tungumálum er aðgangur að góðu norrænu sjónvarpsefni. Nefna má norsku sjónvarpsþættina Skam, sem nutu mikilla vinsælda hjá íslenskum ungmennum fyrir örfáum árum, en einnig hafa Íslendingar haft mikla gleði af dönskum sjónvarpsþáttum sem sýndir hafa verið á RÚV í gegnum tíðina. En það er margt fleira í boði frá Norðurlöndum sem gæti vakið áhuga Íslendinga og eflt kunnáttu þeirra í skandinavískum málum, meðal annars mikið og gott barnaefni, heimildarþættir og fleira. Aðgangur að skandinavísku sjónvarpsefni í skólum landsins skiptir einnig máli. Danskar bíómyndir og sjónvarpsefni eru mikilvægur þáttur í dönskukennslu, jafnvel líka í norsku- og sænskukennslu. Það er oft mjög erfitt að útvega efnið, aðeins lítill hluti þess er aðgengilegur fyrir íslenskar IP-tölur.

Miðflokkurinn tilheyrir flokkahópi miðjumanna í Norðurlandaráði. Sama gildir um flokk hæstvirts menntamálaráðherra. Þessi flokkahópur lagði árið 2017 fram tillögu í Norðurlandaráði um að afnema lokun höfundarvarins efnis eftir svæðum þannig að Norðurlandabúar hefðu betri aðgang að sjónvarpsefni frá nágrannalöndunum. Sigurður Ingi Jóhannsson, núverandi samstarfsráðherra, var einn tillöguflytjenda. Tillagan var samþykkt í Norðurlandaráði með nokkrum breytingum og hvatningu beint til Norrænu ráðherranefndarinnar um að kanna til hvaða ráða þyrfti að grípa til að afnema þessa lokun .

Í kjölfarið létu ráðherrar menntamála á Norðurlöndum taka saman skýrslu um leiðir til að draga úr lokun sjónvarpsefnis frá almannaþjónustufjölmiðlunum, það er að segja RÚV, DR í Danmörku, NRK í Noregi og svo framvegis. Skýrslan kom út í maí 2019 og sýndi meðal annars að enn er lokað á aðgang að stórum hluta sjónvarpsefnis milli norrænu landanna. Í skýrslunni voru fimm tillögur til úrbóta.

Tillaga 1: Almannaþjónustumiðlarnir ættu aðeins að loka fyrir höfundarvarið efni eftir svæðum þar sem nauðsyn krefur.

Tillaga 2: Hægt er að auka og þróa samstarfið í Nordvision um samframleiðslu og miðlun þátta, þar með talið Nordic 12.

Tillaga 3: Áframhaldandi þróun á framboði sjónvarpsdreifingaraðila á sjónvarpsefni frá nágrannalöndunum.

Tillaga 4: Norrænu ríkin geta tryggt ramma um höfundarrétt sem myndar grunn að endurdreifingu gegnum streymisþjónustu.

Tillaga 5: Norrænu löndin ættu að innleiða væntanlega breytingu á gervihnatta- og kapaltilskipun ESB eins fljótt og hægt er.

Nú í febrúar sl. lagði flokkahópur miðjumanna á ný fram tillögu um þetta efni. Ástæðan er sú að lítið virðist hafa gerst síðan skýrslan kom út. Miðflokkahópurinn hvetur því til þess að dregið verði úr lokun höfundarréttarvarins efnis í stafrænum sjónvarpssendingum milli Norðurlandanna, líkt og lagt er til í skýrslunni „Nordisk tv på tværs af grænser“ sem menntamálaráðherrarnir létu gera. Menntamálaráðherra Íslands hlýtur að vera því sammála að mikilvægt er að Íslendingar hafi góða kunnáttu í norrænum tungumálum og hún hlýtur að hafa beitt sér fyrir því á fundum með norrænum starfssystkinum sínum og með öðrum hætti að tillögunum úr skýrslunni „Nordisk tv på tværs af grænser“ verði fylgt eftir.

Það má að lokum velta því fyrir sér hvernig menntamálaráðherra ætli að beita sér fyrir því að efla kunnáttu Íslendinga í norrænum tungumálum og hvort hún hafi hugmyndir um hvernig snúa megi við þeirri þróun sem orðið hefur á undanförnum áratugum. 

 

Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður Miðflokksins í Norðausturkjördæmi og fulltrúi flokksins í Þekkingar- og menningarnefnd Norðurlandaráðs

annakolbrun@althingi.is

Greinin birtist í Morgunblaðinu þann 22. maí, 2021