Og áfram heldur endaleysan

Þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar um ágalla fyrirhugaðra breytinga á deiliskipulagi svokallaðs Kringlureits, kýs meirihlutinn í borgarastjórn að virða þær að vettugi.

Eftirfarandi tilvitnun úr bókun meirihlutans á sama fundi, fundi dagsins í dag segir eiginlega allt sem segja þarf:

,,Enginn þeirra þéttingarreita sem hafa komið til uppbyggingar undanfarin ár gengur á græn svæði eða almenningssvæði.“

Nú veit ég ekki hvernig sjónin er hjá fulltrúum meirihlutans, en tel mína vera nokkuð góða.

Það að lita steypuklumpa græna/gula á glærumyndum breytir ekki þeirri staðreynd að um er að ræða steypu.

Mikla steypu.

Berið saman meðfylgjandi myndir og dæmi hver fyrir sig.

    

Bókun með ítarlegri umfjöllun undirritaðs vegna þessa ólíkindamáls er eftirfarandi:

Fulltrúi Miðflokksins gerir athugasemdir við framlagða deiliskipulagsbreytingu Kringlusvæðis.
Ríflega tíu þúsund fermetra gróðursælu grænu svæði við norðurenda svæðisins verður hér fórnað fyrir steypu.
Ríflega fjögur þúsund fermetra gróðursælu grænu svæði við suðurenda verður sömuleiðis fórnað fyrir steypu.

Ljóst er að sú deiliskipulagsbreyting sem hér liggur fyrir stenst engan veginn yfirlýst markmið meirihlutans um verndun grænna svæða innan borgarmarkanna, þvert á móti er þetta bein aðför að þeim.

Vera má að draumsýn starfandi meirihluta sé að nema ekki staðar fyrr en öllum grænum blettum borgarinnar hefur verið eytt.
Fulltrúi Miðflokksins leyfir sér að fullyrða að borgarbúar deili ekki þeirri sýn þeirra.

Fulltrúi Miðflokksins vill ítreka fyrri ábendingar sínar um að ekki er ásættanlegt að gengið sé á veghelgunarsvæði Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar, en ekki verður betur séð en að húsveggir væntanlegra bygginga séu að hluta í einungis sex metra fjarlægð frá þessum stærstu vegum borgarinnar.
Slík framsetning setur alla möguleika á úrbótum við þessi stærstu gatnamót borgarinnar í uppnám.

Hér þarf að nema staðar áður en skaðinn er skeður.

Fulltrúi Miðflokksins telur sjálfsagt að skoðaðir séu kostir uppbyggingar á svæðinu, en gæta þarf hófs í byggingamagni og ágengni á græna hluta svæðisins sem og möguleika á bestun samgöngumannvirkja.
Skilyrði er að ekki sé gengið á græn svæði og möguleiki til bestunar samgöngumannvirkja séu ekki eyðilagðir til frambúðar.

Ekki verður betur séð en að fyrirlögð og fyrirhuguð deiliskipulagsbreyting fari gegn hvoru tveggja.

 

Höfundur:  Baldur Borgþórsson, varaborgarfulltrúi Miðflokksins 

Greinin birtist í Fréttatímanum þann 27. maí, 2020