Opnum Ísland - með varúð

Eft­ir fræki­lega frammistöðu heil­brigðis­starfs­fólks og annarra viðbragðsaðila sem lengi verður í minn­um höfð hill­ir nú und­ir að unnt sé að opna Ísland að nýju. Þetta til­kynnti rík­is­stjórn­in ný­lega á hefðbund­inn hátt án sam­ráðs og án nokk­urr­ar áætl­un­ar. Ákvörðunin kom nokkr­um lækn­um sem rætt var við greini­lega á óvart en að vanda eru all­ir boðnir og bún­ir að leggj­ast á árar og gera það besta úr ástand­inu. Ekki þarf að fjöl­yrða um nauðsyn þess að færa ástandið til fyrra horfs. Rekstr­araðilar í ferðaþjón­ustu og utan henn­ar hafa beðið og bíða enn milli von­ar og ótta eft­ir betri tíð.
 

Í þeirri stöðu sem nú er uppi fel­ast ákveðin tæki­færi fyr­ir Ísland. Íslend­ing­ar hafa fengið mjög vin­sam­lega og mikla um­fjöll­un í þekkt­um fjöl­miðlum víða um heim vegna þess hve vel hef­ur gengið hér að ná stjórn á út­breiðslu COVID-19-veirunn­ar. Það er því næsta víst að fólk sem ótt­ast veiruna og er jafn­vel að flýja hana mun sjá Ísland sem ör­ugg­an ákvörðun­arstað. Við þurf­um að viðhalda þessu ör­ugga ástandi okk­ar sjálfra vegna fyrst og fremst og einnig vegna gesta okk­ar. Í þeim hópi sem get­ur valið sér ákvörðun­arstað án til­lits til kostnaðar er fólk sem er vel stætt og vel upp­lýst. Kost­um því kapps um að horfa til þeirra tekna sem hver og einn ferðamaður skil­ar en ekki til fjölda þeirra. Von­andi er að sá breski sam­starfsaðili sem rík­is­stjórn­in valdi nú ný­lega til að byggja Ísland upp að nýju leggi áherslu á slík mark­mið en taki ekki und­ir þá framtíðar­sýn sem gat að líta á net­inu í vik­unni að Ísland ætti að stefna að því að eft­ir 2-3 ár kæmu hér jafn­marg­ir ferðamenn og þegar best lét. Mark­miðið hlýt­ur að vera að eft­ir 2-3 ár verði tekj­ur af ferðamönn­um jafn mikl­ar eða meiri en þegar mest var.

Nú gefst okk­ur tæki­færi til að sækja fram í mót­töku ráðstefnu­gesta í auknu alþjóðlegu fund­ar­haldi og skipu­lagn­ingu viðburða stórra og smárra. Þar eig­um við margt að bjóða auk ör­ygg­is sem áður er nefnt. Nátt­úr­an er söm og áður, unnt er að leggja meiri áherslu á menn­ingu og sögu, ör­ugg heima­feng­in mat­væli og svo mætti lengi telja. Til skamms tíma þarf fyrst og fremst að tryggja að nýju flug­sam­göng­ur við landið. Einnig þarf að leggja áherslu á að sem flest fyr­ir­tæki í ferðaþjón­ustu vakni af dval­an­um líf­væn­leg og al­bú­in til að tak­ast á við ný tæki­færi. Áhersla okk­ar til skamms tíma verður fyrst og fremst að snú­ast um að sem flest­ir sem nú búa við at­vinnu­leysi eða skert starfs­hlut­fall geti snúið til starfa að nýju eða fengið nýtt starf við hæfi. Til lengri tíma þurf­um við að gera mark­vissa áætl­un um frek­ari at­vinnu­upp­bygg­ingu í ferðaþjón­ustu, með auk­inni græn­met­is­fram­leiðslu, auknu land­eldi, aukn­ingu í tækni- og tölvuiðnaði og auk­inni úr­vinnslu í sjáv­ar­út­vegi og land­búnaði. Við höf­um allt að vinna!

 

Höf­und­ur: Þor­steinn Sæ­munds­son, alþingismaður Miðflokksins í Reykjavíkurkjördæmi suður.

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu 27. maí, 2020