Samráð eða sýndarsamráð? - Það er spurningin

Skynsemi, sanngirni og samráð virðast ekki eiga upp á pallborðið hjá borgarstjóra og vinstri meirihluta borgarstjórnar.  Lítum á tvö dæmi, eitt úr miðborginni og annað úr hverfinu okkar.  Dæmi svo hver fyrir sig.

Haustið 2018 fór borgarstjóri mikinn á fundi borgarstjórnar og lýsti því yfir að nú skyldi Laugavegi varanlega lokað fyrir allri bílaumferð allt frá Hlemmi að Lækjargötu.  Ummæli borgarstjóra féllu undir umræðu við þriðja dagskrárlið, sem var tillaga vinstri flokkanna sem mynda meirihluta í borgarstjórn, Vg-S-P-C og hét:  "Borgartjórn samþykkir að fela umhverfis- og skipulagssviði að útfæra Laugaveg og Bankastræti sem göngugötur allt árið ásamt þeim götum í Kvosinni sem koma til greina sem göngugötur."

Þetta sló undirritaðan illa, enda alkunnugt að 200 bílastæða bílahús borgarinnar, Stjöruport, yrði þar með úr leik, enda staðsett á þeim hluta Laugavegs sem félli undir lokun og að auki ekkert samráð verið haft um málið við íbúa og hagsmunaaðila.  Því tók undirritaður málið upp á fundi Skipulags- og samgönguráðs næsta dag og lýsti yfir furðu sinni á yfirlýsingum borgarstjóra sem ekki stæðust nokkra skoðun og óskaði eftir svörum.  Engin svör fengust.

Síðar sama haust er tilkynnt að auglýsa eigi samráðsfund með íbúum og hagsmunaaðilum.  Þegar undirritaður spurði hvort ekki yrði fallið frá þessum fyrirætlunum ef niðurstaða samráðsfundarins yrði að allir íbúar og allir hagsmunaaðilar væru andvígir þeim stóð ekki á svari:  "Okkur er alveg sama hvað fólk vill, við ætlum að gera þetta."

Við þetta tækifæri fór undirritaður fram á að fundurinn yrði auglýstur sem sýndarsamráðsfundur, enda fyrirfram ákveðið að virða niðurstöður hans að vettugi.  Nýjustu fréttir af málinu er að nú dugir ekki að loka frá Hlemmi, nú skal lokað allt frá gömlu Mjólkursamsölunni.  Samráð eða sýndarsamráð?  Það er spurningin.

Sagan endalausa

Færum okkur úr miðborginni og drepum næst niður fæti í Úlfarsárdal og lítum á mál sem tengist húsi sem sumir þekkja undir nafninu sagan endalausa.  Hér eru málsatvik með þeim hætti að 2017 gerir Reykjavíkurborg þau mistök að gefa út byggingaleyfi sem ekki stenst deiliskipulag.  Langt í frá.

Í stað 2ja hæða húss eins og deiliskipulagið hljómar upp á er gefið út leyfi fyrir byggingu 3,5 hæða og margfalt fleirri íbúða en heimilidir deiliskipulagsins leyfa.  Eins og von er á var nágrönnum ekki skemmt.  En mistök eru mannleg og öllum getur okkur orðið á.  Hvernig við bregðumst við skiptir öllu máli.  Rétt viðbrögð hefðu verið að draga til baka áður útgefið byggingarleyfi, harma mistökin og láta gildandi deiliskipulag halda sér.  Þannig hefði mátt lágmarka skaða byggingaraðila og virða um leið athugasemdir íbúa.  Það var ekki gert og er það miður.  Nú lítur út fyrir að mál þetta fái þann leiða enda að íbúar sitji eftir með skert gæði og verðmæti og byggingaraðili með stórfelldan kostnað vegna tafa, kostnað sem borgin verður mögulega krafin um.

Undirritaður hefur nú í vel á annað ár talað fyrir því að þessi leið sé farin á fundum Skipulags- og samgönguráðs, þar sem valdið til að breyta rétt liggur.  Meirihluti Vg-S-P-C hefur allan þann tíma þráskallast við.  Í stað þess að virða niðurstöður Úrskurðanefndar umhverfis og auðlindamála, sem felldi úr gildi hið ólögmæta byggingaleyfi var haldið áfram.  Ráðist var í gerð nýs deiliskipulags, beinlínis til að komast undan dómi Úrskurðanefndarinnar.  Í kjölfar lögboðinnar auglýsingar um hið nýja deiliskipulag voru innsendar athugasemdir virtar að vettugi.  Sagan heldur því áfram og ný kæra liggur fyrir Úrskurðarnefnd.  Samráð eða sýndarsamráð?  Það er spurningin.

Það hlýtur að teljast eðlileg krafa að sanngirni, samráð og almenn skynsemi sé höfð að leiðarljósi hjá þeim sem borgarbúar kjósa til starfa fyrir sína hönd.  Því miður eru engar blikur á lofti um að svo verði á þessu kjörtímabili.  En allt tekur enda og boðað verður til kosninga að nýju eftir rétt liðlega tvö ár.  Þá gefst tækifæri til að opna lokaða skóla að nýju og margt margt fleirra.

Óska ykkur öllum gæfu á nýju ári.

Lifið heil.

 

Höfundur:  Baldur Borgþórsson, varabæjarfulltrúi Miðflokksins í Reykjavík

Greinin birtist í 1. tölublaði Grafarholtsblaðsins í janúar 2020