Skýrslubeiðni samþykkt á Alþingi

Anna Kolbrún Árnadóttir, þingmaður, mælti í dag fyrir beiðni um skýrslu um geðheilbrigðisþjónustu í landinu sem þingflokkur Miðflokksins lagði fram.  Skýrslubeiðnin var í dag samþykkt samhljóða á Alþingi.

Er þess óskað að ríkisendurskoðandi taki saman skýrsluna. Óskað er eftir því að í skýrslunni komi fram stefna, skipulag, kostnaður og árangur í geðheilbrigðismálum.

Í greinargerð skýrslubeiðninnar segir:   Með skýrslubeiðni þessari er óskað eftir því að ríkisendurskoðandi taki saman skýrslu um geðheilbrigðisþjónustu í landinu. Skýrsla um geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga kom síðast út árið 2016 og telja skýrslubeiðendur tilefni til að kalla eftir skýrslu ríkisendurskoðanda um geðheilbrigðisþjónustu almennt.
    Undanfarið hefur verið fjallað um geðheilbrigði í fjölmiðlum ásamt því að Geðhjálp hefur verið með herferð undir yfirskriftinni „39“ er táknar fjölda sjálfsvíga á síðasta ári og að meðaltali síðustu 10 ár. Með herferðinni hafa verið lagðar til níu aðgerðir til að setja geðheilsu í forgang. Fyrsta aðgerðin er að gerð verði heildarúttekt á umfangi og framkvæmd geðheilbrigðisþjónustu. Þar segir að úttektin sé nauðsynleg svo hægt sé að ná utan um málaflokkinn og auka samhæfingu þeirra þriggja stoða sem eru á hendi ríkisins (sjúkrahús, heilsugæsla og sérfræðiþjónusta). Úttektin taki einnig til búsetu- og félagsþjónustu sveitarfélaga þannig að styrking hennar og samhæfing við þjónustu ríkisins verði auðsóttari. Á Alþingi hefur einnig verið fjallað um málefnið, í sérstökum umræðum, fyrirspurnum og í störfum þingsins svo eitthvað sé nefnt.
    Í blaði Geðhjálpar sem kom út á þessu ári er leiðari eftir formann Geðhjálpar, Héðinn Unnsteinsson, sem segir að í kjölfar kórónuveirufaraldursins verði áhrifin á félags- og efnahagslega orsakaþætti geðheilsu mikil og að heildarúttekt löggjafans á kerfinu væri ágætis byrjun.
    Skýrslubeiðendur telja að skýrsla þessi sé nauðsynleg til þess að fá yfirsýn yfir geðheilbrigði landsmanna, sem og til að varpa ljósi á hvað betur mætti fara og hvað þarf að bæta.

 Anna Kolbrún mælir fyrir skýrslubeiðninni en að henni standa allir þingmenn Miðflokksins.

Hér má sjá skýrslubeiðnina í heild sinni

Upptöku af ræðu Önnu Kolbrúnar má sjá hér