Snjókorn rísa

Árið 2020 olli vonbrigðum. En hver verða áhrif ársins þegar fram líða stundir? Hátt í tvær milljónir manna hafa dáið af völdum faraldursins og margfalt fleiri gengið í gegnum erfið veikindi. Efnahagslegt tjón er slíkt að niðursveiflan er sums staðar sú mesta um árhundruð. Fjöldi fólks hefur misst vinnuna og orðið fyrir miklu eignatjóni. Þó er mikilvægt að huga að heildarsamhengi hlutanna, fortíðinni og framtíðinni. Á flesta mælikvarða voru flest ár mannkynssögunnar verri en árið 2020. Framfarir liðinna ára og alda hafa gert okkur kleift að takast á við sjúkdóma og efnahagsþrengingar betur en áður. Þær framfarir komu ekki af sjálfu sér. Þær byggðust á grundvallargildum sem munu reynast mikilvæg í því uppbyggingarstarfi sem í hönd fer. Á liðnu ári hefur þó orðið bakslag í virðingu fyrir þessum gildum, ný, órökrétt og eyðileggjandi hugmyndafræði ruddi sér til rúms hraðar en áður. Umræða um þessi mál er skammt á veg komin á Íslandi en þó birtast áhrifin víða.

Hinn nýi rétttrúnaður

Víða á Vesturlöndum hefur samhengið við söguna slitnað. Sú tilfinning var orðin ríkjandi að allt kæmi af sjálfu sér. Jafnvel að því marki að þau gildi sem hafa skilað okkur mestum árangri væru gamaldags og óþörf. Hlutir eins og fullveldi þjóða, vinnusemi, fórnfýsi, þrautseigja, rökræða, samstaða, fyrirgefning og þannig mætti lengi telja. Í staðinn hefur nýr rétttrúnaður rutt sér til rúms, byggður á yfirborðsmennsku, marklausum frösum og umbúðum frekar en innihaldi. Vonir margra um að heimsfaraldurinn og áhrif hans myndu reynast áminning um það sem raunverulega skiptir máli stóðust ekki. Þvert á móti, með faraldrinum breiddist rétttrúnaðurinn út sem aldrei fyrr og vald hans og óbilgirni jókst. Heilbrigð skynsemi og jafnvel vísindalegar staðreyndir og gamalreyndar rannsóknaraðferðir eru látnar víkja fyrir því sem telst rétt að mati hugmyndafræðinnar. Hugmyndafræði sem í auknum mæli minnir á ýmsa þá öfgahyggju sem náði tökum á mörgum samfélögum á liðinni öld. Gerð er krafa um fortakslausa fylgispekt við rétttrúnaðinn og þeir sem láta ekki undan eiga ekki von á góðu. Nornaveiðar og útskúfun mæta mörgum þeirra sem leitast við að efna til rökræðu, segja eitthvað vanhugsað eða bara eitthvað sem hægt er að snúa út úr.

Snjókornin

Rétttrúnaðarreglan er að miklu leyti sprottin úr háskólum, ekki hvað síst í enskumælandi löndum, en á rætur í hugmyndafræði þeirra sem kölluðu sig póstmódernista upp úr miðri síðustu öld. Sá hópur var þá mjög á jaðrinum og fannst helst innan vinstrisinnaðrar mennta- og menningarelítu þess tíma. Unga fólkið sem aðhyllist nú þessa hugmyndafræði er stundum kallað snjókornin. Með því er vísað til þeirrar möntru að hver einstaklingur sé einstakur og viðkvæmur. Vissulega er hver manneskja einstök en gallinn er sá að kenningin gengur út á að fyrir vikið þurfi heimurinn að laga sig að hverjum og einum. Allt gengur út á réttindi en skyldur koma hvergi við sögu. Frægum orðum John F. Kennedy „ekki spyrja hvað landið þitt getur gert fyrir þig heldur hvað þú getur gert fyrir landið“ hefur nú verið snúið á haus. Snjókornin þola ekkert áreiti og ekkert sem fellur illa að fyrirfram mótuðum hugmyndum þeirra. Fyrir vikið hafa háskólar sem áður töldust leiðandi í því að innleiða gagnrýna hugsun og stuðla þannig að framförum nú lagt áherslu á að vernda stúdenta fyrir öllu því sem þeim gæti þótt ögrandi. Útbúin eru sérstök „örugg rými“ þar sem menn geta verið lausir við allt sem truflar sjálfhverfuna. Sums staðar er slíkum svæðum skipt upp eftir kynþáttum í samræmi við hina nýju kynþáttahyggju. „Vafasamar“ bækur (og þeim fjölgar jafnt og þétt) eru ýmist bannaðar (jafnvel brenndar) eða merktar með sérstakri aðvörun um að innihaldið geti reynst ögrandi fyrir einhverja. Fyrirlesurum sem merktir hafa verið útskúfunarstimpli er meinað að halda erindi, jafnvel með valdi. Nemendur hafa tekið að segja kennurum sínum hvað þeir megi segja og hvað ekki. Í virtustu háskólum Bandaríkjanna haga stúdentar sér stundum eins og byltingarráð og senda skólastjórnendum langa lista af furðulegum kröfum um hvernig starfseminni skuli háttað.

Öllu er snúið á hvolf

Áður var það hlutverk kennara að veita nemendum ögrandi fróðleik. Nú leggja námsmennirnir línurnar. Áður var það hlutverk fullorðins fólks að vernda börn og ala þau upp. Nú halda stjórnmálamenn um allan heim því fram að við eigum að láta börn leiða fullorðna, jafnvel í flóknum málum eins og loftslagsmálum og stjórnun hagkerfa. Þar, eins og alls staðar í hinni nýju ímyndarpólitík, leggur orðræðan línurnar en ekki raunveruleikinn. „Við þurfum að hlusta á börnin,“ endurtaka stjórnmálamenn hver um annan þveran. Setningin „við þurfum að hlusta á börnin“ hljómar vel en á hún við þegar börnin eru að krefjast þess að losun gróðurhúsalofttegunda verði hætt fyrir 2025? – Gera kröfur sem eru óframkvæmanlegar og bara það að reyna að ná markmiðinu myndi valda mestu manngerðu kreppu sögunnar og stórauka fátækt. Eru stjórnmálamennirnir þá raunverulega að hlusta á börnin eða skáka í skjóli þeirra og sveipa sig hljómgóðum en innihaldslausum frösum? Og er réttlætanlegt að valda börnum angist með því að telja þeim trú um að heimurinn sé við það að farast að því marki að „loftslagskvíði“ er nú orðinn þekkt vandamál, jafnvel í leikskólum?

Að flagga fölsku flaggi

Ybbar hafa ríka tilhneigingu til að eigna sér málstað annarra, eða réttara sagt pakka sér inn í umbúðir þeirra. Á árinu voru samtökin Black lives matter nýtt í þeim tilgangi. Harðlínusamtök sem berjast að eigin sögn m.a. fyrir marxisma, því að leysa upp lögregluna og gegn kjarnafjölskyldunni. En eins og jafnan á við um ímyndar- eða merkimiðastjórnmálin skipti innihaldið ekki máli. Aðeins nafnið. Fyrr en varði voru stjórnmálamenn, fótboltamenn, prestar og aðrir farnir að krjúpa á kné til að lýsa yfir stuðningi (eða undirgefni) við samtökin. Sjónvarpsmenn voru neyddir til að bera merki BLM og fræga fólkið kepptist við að lýsa yfir stuðningi við samtökin. Óeirðir brutust út í mörgum borgum Bandaríkjanna en þeim var jafnan lýst sem mótmælum. Hópar vopnaðs fólks (yfirleitt fyrst og fremst skipaðir hvítum stúdentum og „aðgerðasinnum“) fóru um og kröfðust þess að þeir sem urðu á vegi þeirra lýstu yfir stuðningi við BLM og réttu upp handlegginn með krepptum hnefa. Ef fólk lét ekki undan var því ógnað. Kona sem sat á veitingastað með vinafólki reyndi að útskýra að hún væri nýkomin úr kröfugöngum til að andmæla kynþáttamisrétti en vildi ekki láta skipa sér að rétta fram handlegginn. Þær skýringar voru ekki teknar gildar.

Áhrifin birtast víða

Áhrif hins nýja rétttrúnaðar birtast víða í stjórnmálum. Nú eru mál fyrst og fremst dæmd út frá heiti þeirra, eða yfirlýstum markmiðum, fremur en innihaldinu. Þeir sem reyna að ræða innihaldið og raunverulegar afleiðingar eiga ekki von á góðu. „Ætlar þú virkilega að vera á móti frumvarpi um jafnrétti og velferð fyrir alla? – Skammarlegt!“ Skiptir þá engu þótt frumvarpið hafi þveröfug áhrif við nafngiftina eða bent sé á aðrar leiðir sem séu líklegri til að skila meiri árangri. Umbúðirnar gilda og umræðan byggist á frösum og merkimiðum. Bóluefni við kórónuveirunni voru ekki fundin upp með því að setja vökva í glas og kalla hann bóluefni. Rannsóknirnar sem skiluðu bóluefni og framförum á sviði lækninga byggðust á staðreyndum og innihaldinu. Þær byggðust á því að nýta gamalreyndar rannsóknaraðferðir en ekki bara því að skilgreina vökvann sem bóluefni. Ef árið sem nú er liðið verður til þess að framsókn hins nýja rétttrúnaðar haldi áfram af meiri krafti en ella verður það mesti skaðinn af árinu 2020. Það mun hafa skaðleg áhrif á hagsæld, heilsu og ótal aðra þætti vestrænna samfélaga til framtíðar. Látum reynslu ársins okkur að kenningu verða, treystum á staðreyndir, vísindi, rökræðu og þau gildi sem hafa skilað okkur árangri um aldir.

Stór verkefni bíða

Efnahagur Íslands og annarra landa er verulega laskaður. Sem betur fer vorum við Íslendingar komnir í óvenju sterka stöðu til að takast á við mestu efnahagslegu niðursveiflu í 100 ár. En sú staða varð ekki til af sjálfu sér. Hún var afleiðing pólitískra ákvarðana sem ekkert ríki hafði ráðist í áður en byggðust á staðreyndum, gagnrýnni og lausnamiðaðri hugsun, framtakssemi, fullveldishugsjóninni og öðrum þeim gildum sem reynst hafa vel. Nú bíða mörg stór verkefni og þau þarf að nálgast á sama hátt. Það þarf að endurreisa efnahag landsins, greiða niður skuldir og aðstoða þá sem hafa orðið fyrir tjóni af völdum faraldursins. En það þarf líka að leysa þau fjölmörgu mál sem hafa verið vanrækt á meðan allt snerist um faraldurinn. Í mörgum tilvikum eru það mál sem þoldu enga bið. Lítil og meðalstór fyrirtæki voru þegar í miklum vanda áður en veiran barst til landsins, þjökuð af sívaxandi útgjöldum, nýjum kvöðum og sköttum. Landbúnaður stóð þegar frammi fyrir neyðarástandi. Þar þarf róttækar aðgerðir til að endurreisa eina af mikilvægustu stoðum samfélagsins. Miðflokkurinn hefur þegar lagt fram slíka áætlun. Það þarf að leysa húsnæðismálin, standa við fyrirheitin gagnvart eldri borgurum og þannig mætti lengi telja. Fullveldi landsins þarf að verja og laga okkur að breyttum alþjóðasamskiptum eftir útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Nú við áramót ættum við að sammælast um að standa með íbúum Seyðisfjarðar með því að útvega það fjármagn sem þarf til að verja samfélagið, aðstoða fólk sem varð fyrir tjóni og endurbyggja þau miklu menningarverðmæti sem hafa skemmst eða glatast. Stjórnmálin á árinu hafa markast mjög af faraldrinum og hefðbundin stjórnmál og viðfangsefni þeirra legið í dvala að miklu leyti. Í skjóli faraldursins hefur ríkisstjórnin þó hraðað í gegn málum af ætt ímyndarstjórnmálanna. Til að takast á við framtíðina þarf að ræða grundvallaratriði stjórnmálanna á nýjan leik. Leita lausna og framkvæma. Sú vinna má ekki byggjast á umbúðum og tómum frösum. Hún þarf að byggjast á staðreyndum, innihaldi og framtakssemi.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins

Hugleiðingar formanns Miðflokksins á áramótum 2020-2021

Morgunblaðið þann 31. desember, 2020