Tillaga til þingsályktunar um skákkennslu í grunnskólum

Karl Gauti Hjaltason, þingmaður, mun í dag mæla fyrir þingsályktunartillögu sinni um skákkennslu í grunnskólum. 

Í tillögunni er mennta- og menningarmálaráðherra falið að kanna hvort tilefni sé til þess að skákkennsla verði hluti af aðalnámskrá grunnskólanna. Ráðherra hafi samráð við Kennarasamband Íslands, Skáksamband Íslands, Skákskóla Íslands, Skákakademíu Reykjavíkur og eftir atvikum aðra til að kanna hvort tilefni sé til sem og möguleiki á að innleiða reglulega skákkennslu í grunnskólum. Ráðherra upplýsi Alþingi um framvindu málsins á vorþingi 2021.

Jákvæð áhrif skákiðkunar á nemendur:  Því hefur löngum verið haldið fram að skákiðkun sé holl iðja og má segja að það hafi verið hinn almenni skilningur.  Flutningsmenn telja að til mikilla hagsbóta væri að setja skák á aðalnámskrá grunnskólanna, ekki síst með áherslu á yngsta skólastigið, í því skyni að efla góða eiginleika nemenda, nota hana sem tæki til að skapa góðan bekkjaranda og gefa nemendum færi á að blómstra án takmarkana.

Skák hefur verið innleidd í aðalnámskrá nokkurra ríkja og 15. mars 2012 samþykkti Evrópuþingið yfirlýsingu þess efnis að aðildarríki Evrópusambandsins skyldu innleiða skákkennslu í menntakerfi landanna. Í yfirlýsingunni kemur fram að skák sé aðgengilegur leikur fyrir börn óháð félagslegri stöðu sem geti aukið félagsfærni þeirra og dregið úr mismunun. Þá hafi skák góð áhrif á einbeitingu, þolinmæði, þrautseigju, sköpunargleði, innsæi, minni og rökhugsun óháð aldri barna.

Ljóst er að mikill einhugur ríkir meðal almennings og innan skólakerfisins um jákvæð áhrif skákiðkunar á nemendur og telja því flutningsmenn að kanna skuli hvort tilefni sé til að auka vægi skákkennslu með því að innleiða hana í aðalnámskrá grunnskólanna.

 

Þingsályktunartillöguna má lesa í heild sinni hér

Flutningsmaður þingsályktunartillögunnar er Karl Gauti Hjaltason.

Meðflutingsmenn eru:  Anna Kolbrún Árnadóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson, Bergþór Ólason, Birgir Þórarinsson, Brynjar Níelsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Ólafur Ísleifsson, Páll Magnússon, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Páll Jónsson, Smári McCarthy, Willum Þór Þórsson, Þorsteinn Sæmundsson.