Útgöngubann - er það í takt við viðhorf í samfélaginu?

Karl Gauti Hjaltason, þingmaður, tók til máls á Alþingi í dag undir liðnum Störf þingsins og ræddi þar um útgöngubann og breytingar á sóttvarnarlögum. 

Karl Gauti:  "Ég tel rétt að taka hér til umræðu það sem ber nýjast til hér á landi. Fyrirbæri þetta kemur oft í fréttum og þá yfirleitt í fregnum frá mestu óróa- og átakasvæðum heimsins. Ætla má að hugtakið hafi neikvæða merkingu í hugum nánast flestra eða allra Íslendinga. Ég ætla örlítið að velta fyrir mér því sem nefnt hefur verið útgöngubann. Ég ætla að forðast að tala um sjálft frumvarpið, um breytingu á sóttvarnalögum sem hæstv. heilbrigðisráðherra mælir fyrir og er á dagskránni síðar í dag. Hérna er um nýtt úrræði og alger nýjung hér á landi að ræða.

Útgöngubann er samkvæmt skilgreiningu bann við því að vera á ferð utan dyra eða utan heimilis eða fara ekki lengra frá heimili en tiltekna fjarlægð, svo sem á tilteknum tímum sólarhrings. Slíkt úrræði hefur aldrei verið notað hér á landi og ekki á neinu hinna Norðurlandanna. Hver er þörfin og hvað er að? Hvernig hefur okkur gengið með þau úrræði sem hefur verið beitt; samkomubann, grímuskylda, fjarlægðarmörk, lokun atvinnurekstrar sem felur í sér smithættu, hámarksfjöldi sem má hittast og ýmis tilmæli sem hafa verið virt að langsamlega mestu leyti? Þetta hefur bara gengið dável. Smitum hefur verið náð niður ítrekað með hjálp þessara úrræða og vinsamlegra og rökstuddra tilmæla þríeykisins. Af hverju þetta? Til að hafa þetta úrræði til taks?

Ef nauðsynlegt væri að beita slíku úrræði væri það væntanlega vegna þess að fólk hunsaði öll tilmæli. Hvernig erum við í stakk búin til að framfylgja þeim með svo fámennt löggæslulið sem raun ber vitni? Við erum fámenn þjóð, 350.000 manns. Við höfum ekki þurft úrræði sem þetta, slík úrræði hafa e.t.v. átt við í stórum milljónaborgum. Af hverju erum við að taka þetta upp hérna? Ég verð að segja að það er mér hreinlega ráðgáta. Að mínu mati þarf, ef lögleiða á svona úrræði í íslensk lög þarf miklu meiri umræðu í samfélaginu en hefur verið um þetta. Er þetta í takt við viðhorf í samfélaginu?"

 

Ræðu Karls Gauta á upptöku úr þingsal má sjá hér