Varnir í þágu heimilanna

Enn er verið að selja ofan af fjöl­skyld­um, reka for­eldra og börn út af heim­il­um sín­um og krefjast áfram­hald­andi greiðslna. Svo­kölluð lykla­frum­vörp hafa verið lögð fram á Alþingi a.m.k. fimm sinn­um. Höf­und­ur hef­ur að til­stuðlan Hags­muna­sam­taka heim­il­anna lagt fram nýtt lykla­frum­varp til varn­ar neyt­end­um. Far­in er að nokkru leyti ný leið við út­færslu með hliðsjón af ný­legri lagaþróun. Brýnt er að lög­festa úrræði sem tryggi eig­end­um fast­eigna sem lenda í greiðslu­vanda nýja lausn, til að fyr­ir­byggja að aldrei aft­ur verði gerð önn­ur eins aðför að fjöl­skyld­um og átt hef­ur sér stað frá hruni.
 

Nýtt lykla­frum­varp

Baksvið lykla­frum­varps­ins er öll­um ljóst. Tíu árum frá hruni ligg­ur fyr­ir að tíu þúsund fjöl­skyld­ur voru rekn­ar út á götu. For­eldr­ar með börn hrak­in af heim­il­um sín­um tugþúsund­um sam­an, rétt eins og hér hefði átt sér stað styrj­öld eða stór­felld­ar nátt­úru­ham­far­ir. Þrjú þúsund manns hafa verið gerð gjaldþrota frá hruni. Fólk mátti þola mis­kunn­ar­laus­ar aðfar­ir í inn­heimtu. Þrátt fyr­ir þetta hafa eng­ar varn­ir verið reist­ar í þágu heim­il­anna.

Með frum­varp­inu er gerð til­laga um að eft­ir­stand­andi veðskuld­ir falli niður í kjöl­far nauðung­ar­sölu á fast­eign lán­tak­anda. Gert er ráð fyr­ir að öll önn­ur úrræði séu full­reynd og fyr­ir liggi að lán­taki hafi ekki getu til að standa und­ir lán­um sem á hús­næði hans hvíla.

Mark­mið frum­varps­ins er að stuðla að vandaðri lána­starf­semi með því að færa skuld­ur­um að fast­eignalán­um þann kost að láta af hendi veðið að baki láni og ganga skuld­laus­ir frá borði ef eng­in önn­ur úrræði finn­ast. Frum­varpið er þannig liður í því að dreifa áhættu í fast­eignalán­um. Hér á landi tíðkast helst að öll áhætta sé ein­hliða á herðum lán­taka, veik­ari aðilans í samn­ingn­um.

All­ir skert­ir sem til næst

Fé­lags­málaráðherra hef­ur svarað skrif­legri fyr­ir­spurn frá mér um hinar ill­ræmdu skerðing­ar sem aldraðir, ör­yrkj­ar og aðrir líf­eyr­isþegar mega þola. Svarið ber með sér að nán­ast all­ir sem til næst eru skert­ir og hafðar af þeim bæt­ur. Tal­an er vel yfir 90%. Rík­is­sjóður nær­ist á þess­um skerðing­um og væri mun verr stadd­ur ef hann ekki nyti aðstoðar aldraðra og ör­yrkja. Góð staða rík­is­sjóðs, glans­mynd­in, er í boði þessa fólks svo nem­ur tug­um millj­arða.

Miðflokk­ur­inn vill bæta hag líf­eyr­isþega og hverfa frá hinum hams­lausu skerðing­um sem þeir búa við. Lagði flokk­ur­inn fram raun­hæf­ar og full­fjár­magnaðar til­lög­ur í þessu efni við af­greiðslu fjár­laga. Þær hefði þess vegna mátt fram­kvæma þegar í stað. Flokk­ur­inn legg­ur hins veg­ar ekki nafn sitt við ófjár­magnaðar til­lög­ur born­ar fram af sýnd­ar­mennsku, leggst ekki gegn þeim en greiðir þeim ekki at­kvæði.

 

Höf­und­ur:  Ólafur Ísleifsson, þingmaður Miðflokks­ins í Reykja­vík­ur­kjör­dæmi norður. 

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu þann 24. janúar, 2020