Við erum öll Seyðfirðingar!

Það fer um alla sem séð hafa myndir af eyðileggingunni sem orðið hefur á Seyðisfirði síðustu dægrin. Það setur einnig óhug að manni eins og greinarhöfundi sem búið hefur undir hlíðinni á Eskifirði rennblautri eftir stórfellda úrkomu. Rétt er að gleðjast og þakka fyrir að manntjón varð ekki þegar verstu hamfarirnar dundu yfir. Við atburði eins og þessa koma fram bestu eiginleikar Íslendinga. Allir vinna saman líkt og einn maður við að liðsinna þeim sem orðið hafa fyrir áfalli og þurft að yfirgefa heimili sín. Það var ánægjulegt að heyra að allir fengu húsaskjól og aðra aðstoð undrafljótt og allt virðist gert til að létta þeim lífið sem sárt eiga um að binda. En þegar veðrinu slotar og ástandið hefur verið metið þarf að hefja björgun húsa sem skemmst hafa og hefja uppbyggingu sem fyrst. Tjónið er ekki eingöngu Seyðfirðinga.

Á Seyðisfirði er ein heillegasta og fallegasta heildarmynd húsa frá fyrstu árum og áratugum síðustu aldar sem til er á Íslandi. Hana þarf að endurbyggja og varðveita. Það verkefni er ekki eingöngu Seyðfirðinga heldur okkar allra. Einnig þarf að hefjast þegar handa við að byggja upp varnir gegn ofanflóðum á þeim svæðum sem nú eru í mestri hættu. Það verður að tryggja að íbúar Seyðisfjarðar og Eskifjarðar auk annarra staða sem búa við ofanflóðahættu finni sig örugga og geti hugsað sér að búa áfram á þessum fögru stöðum. Góðu fréttirnar eru þær að á þessum stöðum býr dugmikið, hugrakkt og vandað fólk sem tekur áföllum af æðruleysi. Það mun enginn láta sitt eftir liggja við uppbyggingu að nýju.

Góðu fréttirnar eru líka þær að nýbúið er að breyta lögum um ofanflóðavarnir þannig að þær taka nú einnig til aurflóða. Góðu fréttirnar eru einnig þær að ofanflóðagjald, sem er markaður tekjustofn, innheimtist með skilum og eru tekjur af því rúmir tveir milljarðar á ári ef minnið svíkur ekki. Í ofanflóðasjóði er einnig töluvert fé þótt fjármálaráðuneytið hafi gert hann „upptækan“ nýlega. Ríkissjóður verður einfaldlega að skila fénu til baka þannig að hægt sé að hefjast handa og tryggja öryggi fólks og fyrirtækja á þeim stöðum sem búa við ógn af ofanflóðum. Undirbúningur og framkvæmdir þola ekki bið. Fjallshlíðarnar þarf að tryggja og búa þannig um hnúta að ekki verði hætta af gamla Oddskarðsveginum svo dæmi séu nefnd. Uppbyggingarverkefnin gera allt í senn: Veita öryggi, eru atvinnuskapandi og tryggja áframhaldandi búsetu, vöxt og viðgang staðanna.

Vinum mínum á Eskifirði og Seyðisfirði svo og öllum íbúum sendast hlýjar kveðjur með ósk um örugg, friðsæl og falleg jól og von um farsæla uppbyggingu á nýju ári. Munum að ljósið sem kviknaði hin fyrstu jól lýsir okkur öllum. Þið eruð ekki ein. Við erum öll Seyðfirðingar!

 

Höfundur:  Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins í Reykjavíkurkjördæmi Suður. 

Pistill sem birtist í Morgunblaðinu þann 21. desember, 2020