Lög Miðflokksins

Lög Miðflokksins

1.      Heiti og markmið

1.1         Heiti stjórnmálasamtakanna er Miðflokkurinn. Miðflokkurinn starfar um Ísland allt en aðsetur og varnarþing er í Reykjavík.

1.2         Miðflokkurinn er flokkur með djúpar rætur á miðju stjórnmálanna. Flokkur fyrir skynsamt fólk með skýra sýn á grundvallarmál samfélagsins. Miðflokkurinn er flokkur sem vill veita og varðveita stöðugleika og standa vörð um hefðbundin grunngildi, en um leið vera flokkur hugmyndaauðgi og framfara samfélaginu öllu til heilla. Flokkur sem leitar til þeirra sem best þekkja til á hverju sviði og styður góðar hugmyndir sama hvaðan þær koma. Miðflokkurinn leitar ætíð að skynsamlegustu lausninni á hverju viðfangsefni á grundvelli rökhyggju og rökræðu.

2.      Félagar

2.1         Félagar í Miðflokknum geta allir orðið sem náð hafa 16 ára aldri. Félagar sem náð hafa 18 ára aldri geta valist til trúnaðarstarfa fyrir Miðflokkinn og tekið sæti á framboðslistum á vegum flokksins. Þó geta félagsmenn valist sem fulltrúar kjördæmafélaga Miðflokksins á landsþingi frá 16 ára aldri.

2.2         Inntökubeiðnir skulu tilkynntar rafrænt til skrifstofu flokksins á þar til gerðu skráningarformi á vef Miðflokksins. Úrsagnir skulu tilkynntar skriflega eða með rafrænum hætti til skrifstofu Miðflokksins.

2.3         Aðeins skráðir félagar í Miðflokknum geta tekið sæti í stjórn, ráðum, nefndum og á framboðslistum, eða tekið við öðrum trúnaðarstörfum á vegum flokksins.

2.4         Taki félagsmaður sæti á framboðslista annars stjórnmálaflokks eða skrái sig sem félaga í öðrum stjórnmálasamtökum jafngildir það úrsögn úr Miðflokknum.

2.5         Félagsmenn í Miðflokknum skulu gæta virðingar í orðum og framkomu í flokksstörfum sínum gagnvart samflokksmönnum og öðrum. Sama gildir gagnvart þriðja aðila þegar flokksmenn koma fram í nafni Miðflokksins eða eru taldir gera það.

3.      Skipulag

3.1      Stjórn

3.1.1      Stjórn Miðflokksins er skipuð formanni, varaformanni, 2. varaformanni og þingflokksformanni. Atkvæði formanns hefur tvöfalt vægi. Stjórn Miðflokksins ber ábyrgð á starfi og fjárhag flokksins og umsjón félagatals.

3.1.2      Formaður Miðflokksins er opinber talsmaður flokksins og hefur yfirumsjón með flokksstarfinu í heild. Varaformaður Miðflokksins stýrir almennu innra starfi hans og er tengiliður stjórnar við flokksfélög og sveitarstjórnarfulltrúa. 2. varaformaður Miðflokksins stýrir málefnastarfi flokksins á landsvísu og er tengiliður stjórnar við landssambönd.

3.1.3      Stjórn ræður framkvæmdastjóra Miðflokksins. Hann situr stjórnarfundi með málfrelsi og tillögurétt og stýrir skrifstofu og fjárreiðum flokksins í samráði við stjórn og fjármálaráð. Framkvæmdastjóri setur á fót og stýrir fjáröflunarráði sem hefur það hlutverk að afla flokknum fjár með framlögum frá einstaklingum og fyrirtækjum. Framkvæmdastjóri lýtur boðvaldi stjórnar.

3.1.4      Stjórn skal funda með formönnum kjördæmafélaga og landssambanda Miðflokksins tvisvar á ári hið minnsta auk flokksráðsfunda.

3.1.5      Stjórn boðar flokksráð til funda eigi sjaldnar en tvisvar sinnum á ári.

3.1.6      Hætti formaður störfum eða forfallast tekur varaformaður við starfi hans fram að næsta landsþingi. Hætti varaformaður eða 2. varaformaður störfum eða forfallast getur flokksráð kosið varaformann eða 2. varaformann í hans stað fram að næsta landsþingi.

3.2.     Félög

3.2.1      Innan Miðflokksins skulu starfa kjördæmafélög, eitt í hverju kjördæmi skv. kjördæmaskiptingu landsins. Þó skal eitt kjördæmafélag starfa fyrir bæði Reykjavíkurkjördæmin. Kjördæmafélög Miðflokksins eru eftirfarandi:

 • Miðflokksfélag Norðausturkjördæmis
 • Miðflokksfélag Norðvesturkjördæmis
 • Miðflokksfélag Suðurkjördæmis
 • Miðflokksfélag Suðvesturkjördæmis
 • Miðflokksfélag Reykjavíkur

3.2.2      Innan hvers kjördæmafélags er heimilt að stofna deildir sem halda utan um félagsstarf í sveitarfélögum eða á svæðum. Deildir halda úti sjálfstæðu starfi og skulu velja sér stjórnir, en eru formlega hluti kjördæmafélaga og eru ekki fjárhagslega sjálfstæðar. Aðeins getur starfað ein deild Miðflokksins í hverju sveitarfélagi eða svæði á hverjum tíma. Þó er heimilt að deild ungra starfi í sama sveitarfélagi eða svæði og almenn deild Miðflokksins.

3.2.3      Kjördæmafélög eru fjárhagslega ábyrg fyrir starfi deilda í sínu kjördæmi. Kjördæmafélög skulu koma upplýsingum um starf félagsins og deilda þess til skrifstofu með reglulegum hætti. Ef ágreiningur rís um fjárhag kjördæmafélaga og deilda skal honum vísað til stjórnar Miðflokksins sem sker úr eða leitar til fagaðila um úrskurð.

3.2.4      Kjördæmafélög skulu halda aðalfundi fyrir 15. maí ár hvert. Á aðalfundi skal kjósa kjördæmafélaginu 5 manna stjórn og fjalla um lagabreytingatillögur.

3.2.5      Skráðir félagar í Miðflokknum eru einnig skráðir félagar í kjördæmafélagi í sínu kjördæmi og deild samkvæmt skráðri búsetu. Félagar geta óskað eftir því að vera skráðir í aðrar deildir og kjördæmafélög óski þeir þess.

3.3      Flokksráð

3.3.1      Flokksráð fer með æðsta vald í málefnum Miðflokksins á milli landsþinga.

3.3.2      Flokksráð boðar landsþing annað hvert ár hið minnsta.

3.3.3      Flokksráð skal funda tvisvar sinnum á ári hið minnsta. Stjórn boðar fundi flokksráðs með að lágmarki tveggja vikna fyrirvara.  Heimilt er að boða flokksráð til fundar með skemmri fyrirvara ef sérstakar aðstæður krefja, m.a. sbr . gr. 3.3.5

3.3.4      Flokksráð tekur lokaákvörðun um framboð á vegum flokksins til Alþingis. Flokksráð setur reglur um aðferðir og framkvæmd við val frambjóðenda og uppstillingu á framboðslista til alþingiskosninga.

3.3.5      Flokksráð fjallar um málefnasamning um ríkisstjórnarsamstarf og tekur ákvörðun um þátttöku Miðflokksins í ríkisstjórn.

3.3.6      Á fyrsta flokksráðsfundi ár hvert skal stjórn leggja fram skýrslu stjórnar og reikninga nýliðins starfsárs.

3.3.7      Í flokksráði eiga sæti:

 • Stjórn Miðflokksins.
 • Stjórnir kjördæmafélaga og formenn deilda.
 • Þingmenn Miðflokksins.
 • Efstu fimm frambjóðendur á listum flokksins til síðustu alþingiskosninga.
 • Kjörnir sveitarstjórnarmenn Miðflokksins.
 • Efstu tveir frambjóðendur á listum flokksins til síðustu sveitarstjórnakosninga.
 • Formenn landssambanda
 • Tíu félagsmenn tilnefndir af stjórn.
 • Þrír félagsmenn tilnefndir af stjórn hvers kjördæmafélags.
 • Formenn fastanefnda.

3.3.8      Flokksráð kýs formenn og nefndarmenn fastanefnda og skoðunarmenn reikninga.

3.3.9      Flokksráð samþykkir siðareglur fyrir Miðflokkinn.

3.4      Landssambönd

3.4.1      Heimilt er með samþykki stjórnar að stofna landssambönd innan Miðflokksins til að starfa á landsvísu að málefnum ákveðinna hagsmunahópa. Aðeins eitt slíkt landssamband hverrar tegundar getur starfað á hverjum tíma.

3.4.2      Landssambönd skulu halda aðalfundi fyrir 15. maí ár hvert og hafa 5 stjórnarmenn. Landssambönd setja sér lög og hafa sjálfstæðan fjárhag. Landssambönd skulu í öllu haga störfum sínum og stefnu í samræmi við lög og stefnu Miðflokksins.

3.5      Fastanefndir

3.5.1      Innan Miðflokksins skulu starfa tvær fastanefndir, málefnanefnd og laganefnd, hvor um sig skipuð 3-5 félagsmönnum. Kosning formanna og nefndarmanna í fastanefndir fer fram á fyrsta fundi flokksráðs eftir landsþing, sbr. gr. 3.3.8.

3.5.2      Málefnanefnd hefur umsjón með undirbúningi og framkvæmd málefnastarfs flokksins á landsvísu í samráði við 2. varaformann Miðflokksins sem stýrir málefnastarfi. Málefnanefnd tekur saman niðurstöður málefnastarfs og leggur drög að málefnaályktunum fyrir landsþing Miðflokksins.

3.5.3      Laganefnd hefur umsjón með endurskoðun laga Miðflokksins eftir því sem þörf krefur. Laganefnd tekur við tillögum til breytinga á lögum Miðflokksins frá félagsmönnum og vinnur úr þeim í samráði við formann. Laganefnd leggur tillögur til breytinga á lögum Miðflokksins fyrir landsþing. Tillögur til lagabreytinga skulu berast laganefnd eigi síðar en sjö dögum fyrir upphaf landsþings.

3.5.4      Rísi ágreiningur um hvernig túlka beri lög Miðflokksins, kjördæmafélaga, landssambanda eða annarra félaga innan Miðflokksins skal stjórn Miðflokksins vísa ágreiningnum til laganefndar sem skal kveða upp úrskurð svo fljótt sem verða má.

4.      Landsþing

4.1         Landsþing hefur æðsta vald í málefnum Miðflokksins.

4.2         Landsþing mótar stefnu flokksins, kýs formann, varaformann og 2. varaformann til tveggja ára í senn, setur lög flokksins og ákvarðar fastanefndir.

4.3         Landsþing skal halda annað hvert ár að jafnaði, sbr. gr. 3.3.2. Flokksráð getur boðað til aukalandsþings ef brýna nauðsyn ber til og er þá heimilt, en ekki skylt, að hafa sömu mál á dagskrá og á reglulegu landsþingi. sbr. gr. 4.2. Boðað skal til landsþings með tölvupósti til skráðra félaga og á vef Miðflokksins með a.m.k. 30 daga fyrirvara. Til aukalandsþings má boða með skemmri fyrirvara en til reglulegs landsþings.

4.4         Landsþing er opið öllum félagsmönnum í Miðflokknum með málfrelsi og tillögurétt.

4.5         Stjórn í umboði flokksráðs setur dagskrá fyrir reglulegt landsþing. Stjórn er heimilt að skipuleggja dagskrá í samræmi við tilefni og umfang landsþings hverju sinni, með tilliti til fastra liða. Á aukalandsþingi er óheimilt að kjósa nýja stjórnarmenn nema stjórnarmenn hafi hætt eða forfallast. Fastir liðir í dagskrá reglulegs landsþings skulu vera:

 1. Þingsetning.
 2. Tilnefning þingforseta og þingritara.
 3. Tillögur til lagabreytinga ef fyrir liggja.
 4. Almennar umræður.
 5. Kosningar, sjá gr. 4.9-4.14.
 6. Afgreiðsla málefnaályktana.
 7. Þingslit.

4.6         Fulltrúar sem atkvæðisrétt hafa á landsþingi eru eftirfarandi:

 • Stjórn Miðflokksins.
 • Fulltrúar í flokksráði.
 • Stjórnir kjördæmafélaga, deilda og landssambanda.
 • Formenn og fulltrúar í málefnanefnd og laganefnd.
 • Fulltrúar kjördæmafélaga sem tilnefndir eru skv. eftirfarandi reglu:
  Þrisvar sinnum fjöldi kjördæmakjörinna alþingismanna í viðkomandi kjördæmi:
  • Reykjavíkurkjördæmin alls 66 fulltrúar
  • Suðvesturkjördæmi alls 39 fulltrúar
  • Norðausturkjördæmi alls 30 fulltrúar
  • Suðurkjördæmi alls 30 fulltrúar
  • Norðvesturkjördæmi alls 24 fulltrúar

4.7         Stjórnir kjördæmafélaga tilnefna fulltrúa á landsþing skv. reglum sem flokksráð setur. Ætíð ber að gæta þess að val fulltrúa endurspegli búsetu í kjördæminu og að félagsmenn í viðkomandi kjördæmi hafi jöfn tækifæri til að óska setu á landsþingi.

4.8         Á landsþingi starfa málefnanefndir skv. tillögu þingforseta og ákvörðun þingsins.

4.9         Framboð til embætta formanns, varaformanns og 2. varaformanns skulu send skriflega eða rafrænt til skrifstofu Miðflokksins, undirrituð með nafni, kennitölu og heimili. Framboðsfrestur til þessara embætta skal vera til kl. 12 á hádegi sjö dögum fyrir upphaf landsþings. Landsþingsfulltrúar kjósa milli framboða sem berast skrifstofu Miðflokksins sannanlega áður en framboðsfrestur er liðinn.

4.10       Kjörstjórn ber ábyrgð á framkvæmd kosninga á landsþingi, afhendingu kjörgagna og talningu atkvæða. Kosning formanns, varaformanns og 2. varaformanns skal vera bundin, leynileg og skrifleg. Nöfn allra sem í framboði eru sbr. gr. 4.9 skulu tilgreind með viðeigandi hætti á kjörseðli og skulu landsþingsfulltrúar merkja við eitt nafn til formanns, eitt nafn til varaformanns og eitt nafn til 2. varaformanns. Kosningu í embætti hlýtur sá frambjóðandi sem fær flest atkvæði í það embætti.

4.11       Hafi ekkert framboð borist til embættis innan framboðsfrests skal kosið í embættið með óhlutbundinni kosningu milli allra félagsmanna.

4.12       Tillögur til breytinga á lögum Miðflokksins skulu sendar skriflega eða rafrænt á skrifstofu Miðflokksins undirritaðar með nafni, kennitölu og heimilisfangi eigi síðar en sjö dögum fyrir upphaf landsþings, sbr. gr. 3.5.3.

4.13       Breytingar á lögum Miðflokksins skulu hljóta 2/3 greiddra atkvæða fulltrúa á landsþingi til að öðlast gildi. Auð atkvæði og ógild teljast til greiddra atkvæða.

4.14       Heimilt er að innheimta þinggjald af félagsmönnum sem sækja landsþing og skal upphæð gjaldsins þá auglýst á vef Miðflokksins með a.m.k. sjö daga fyrirvara.

5.      Framboð

5.1         Kjördæmafélög bera fram framboðslista Miðflokksins til alþingiskosninga í viðkomandi kjördæmi. Val á lista skal fara fram samkvæmt reglum sem flokksráð setur. Framboðslisti til Alþingis á vegum Miðflokksins verður að hljóta staðfestingu stjórnar Miðflokksins áður en hann er borinn fram.

5.2         Deildir kjördæmafélaga bera fram framboðslista Miðflokksins til sveitastjórnarkosninga í sveitarfélögum á sínu svæði í samráði við stjórn kjördæmafélags. Val á lista skal fara fram samkvæmt reglum sem flokksráð setur. Framboðslisti til sveitarstjórnar á vegum Miðflokksins verður að hljóta staðfestingu stjórnar viðkomandi kjördæmafélags áður en hann er borinn fram.

6.      Þingflokkur

6.1         Kjörnir þingmenn Miðflokksins mynda þingflokk Miðflokksins. Á fundum þingflokks eiga einnig seturétt með málfrelsi og tillögurétti ráðherrar Miðflokksins, formaður, varaformaður, 2. varaformaður og framkvæmdastjóri flokksins.

6.2         Þingflokkur kýs stjórn þingflokks, formann og tvo varaformenn. Þingflokksformaður á sæti í stjórn Miðflokksins sbr. gr. 3.1.1.

6.3         Þingflokkur kýs ráðherra flokksins eftir tilnefningu formanns Miðflokksins

6.4         Þingflokkur Miðflokksins setur sér starfsreglur. Starfsreglur þingflokks skulu endurskoðaðar við upphaf hvers þings.

6.5         Þingflokkur skal funda með stjórn og formönnum kjördæmafélaga og landssambanda a.m.k. einu sinni á ári, við upphaf þings að hausti. Stjórn er heimilt að kalla þingflokk og formenn kjördæmafélaga og landssambanda til funda oftar ef þörf krefur.

7.      Sveitarstjórnarráð

7.1         Í sveitarstjórnarráði eiga sæti aðal- og varafulltrúar í sveitarstjórnum sem eru félagar í Miðflokknum. Varaformaður Miðflokksins stýrir fundum sveitarstjórnarráðs.

7.2         Sveitarstjórnarráð er stjórn og málefnanefnd Miðflokksins til ráðgjafar um mótun stefnu flokksins í sveitarstjórnarmálum og er samstarfsvettvangur sveitarstjórnarfulltrúa Miðflokksins. Sveitarstjórnarráð skal funda a.m.k. einu sinni á ári með stjórn Miðflokksins.

8.      Fjárreiður

8.1         Reikningsár Miðflokksins er almanaksárið. Framkvæmdastjóri skal ár hvert leggja fram á fundi stjórnar ársreikninga fyrir liðið starfsár ásamt fjárhagsáætlun fyrir komandi starfsár. Stjórn staðfestir reikninga með áritun sinni.

8.2         Stjórn Miðflokksins skipar þrjá félagsmenn í fjármálaráð sem heyrir undir stjórn og stýrir fjárreiðum flokksins eftir ákvörðun stjórnar. Öll útgjöld umfram það sem telst til daglegs reksturs flokksins skulu sæta umfjöllun fjármálaráðs. Stjórn setur framkvæmdastjóra reglur um útgjöld eftir ráðgjöf fjármálaráðs. Fjármálaráð aðstoðar við gerð rekstrar- og kostnaðaráætlana og annast eftirfylgni þeirra í samráði við framkvæmdastjóra.

9.      Trúnaðarráð og samskipti

9.1         Flokksmenn Miðflokksins virða allar manneskjur að jöfnu og hafna hvers kyns mismunun. Flokksmenn hafna hvers kyns hegðun sem sem leiðir af sér vanlíðan annarra. Dæmi um slika hegðun er einelti, kynferðisleg áreitni, kynbundið áreiti eða annað ofbeldi skv. skilgreiningu reglugerðar 1009/2015 um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Komi slík mál upp skal tekið á þeim í samræmi við landslög, lög og reglur flokksins.

9.2         Flokksráð Miðflokksins skipar tvo trúnaðarmenn, ekki samkynja, í trúnaðarráð. Fulltrúar í trúnaðarráði geta verið úr sama kjördæmi en skulu ekki tengjast að öðru leyti. Trúnaðarráð skal setja sér verklagsreglur og leggja fyrir stjórn flokksins til samþykktar. Verklagsreglurnar skulu birtar á heimasíðu flokksins.

9.3         Trúnaðarráð tekur við ábendingum frá félagsmönnum vegna samskiptavanda innan Miðflokksins, s.s. einelti, áreitni, ofbeldi eða mismunun. Trúnaðarráði ber að gera stjórn flokksins viðvart þegar ábending berst frá félagsmanni og taka mál viðkomandi fyrir, leita lausna eða og koma því í réttan farveg til úrlausnar hjá viðeigandi sérfróðum aðilum eftir því sem við á. Trúnaðarráð, stjórn eða málsaðilar geta óskað eftir því að sérfróður aðili sé kallaður til sem oddamaður trúnaðarráðs gerist þess þörf.

9.4         Trúnaðarmenn skulu gæta fyllsta trúnaðar við störf sín. Þeir skulu upplýsa þann sem kvartað er yfir um eðli kvörtunarinnar og gefa við komandi færi til andmæla. Komist trúnaðarmenn að þeirri niðurstöðu að flokksmaður hafi brotið gegn reglum þessum skal honum umsvifalaust vikið úr flokknum.

 10.    Ýmis ákvæði

10.1       Framkvæmdastjóri fer með daglega geymslu og umsjón félagaskrár fyrir hönd stjórnar Miðflokksins. Stjórn setur almennar reglur um aðgang trúnaðarmanna að gögnum úr félagaskrá. Geymsla, umsýsla og aðgangur að gögnum í félagaskrá skal ætíð vera í samræmi við persónuverndarlög. Trúnaðarmenn Miðflokksins sem fá aðgang að gögnum úr félagaskrá skulu fara með þau í trúnaði og er óheimilt að dreifa þeim á nokkurn hátt.

10.2       Ákvæði til bráðabirgða:
Á 1. landsþingi Miðflokksins 2018 teljast eftirfarandi fulltrúar hafa atkvæðisrétt:
a. Fulltrúar sem skráðir eru á kjörbréf sem formenn kjördæmafélaga Miðflokksins hafa afhent skrifstofu Miðflokksins skv. fresti sem auglýstur hefur verið opinberlega á vef Miðflokksins og samþykkt eru af stjórn flokksins fyrir upphaf landsþingsins;
b. Fulltrúar sem eru sjálfkjörnir skv. lögum þessum sbr. gr. 4.5.
Hugsanlegt misræmi milli undirbúnings 1. landsþings Miðflokksins 2018 og laga þessara hefur ekki áhrif á framkvæmd 1. landsþings eða þær ákvarðanir sem þar eru teknar.

10.3       Lög þessi öðlast þegar gildi.


Lög þessi voru samþykkt á Landsþingi Miðflokksins 21. apríl 2018.