Málefnaályktanir Landsþings Miðflokksins 2018

Skynsemisstefnan er enn mikilvægari í dag en áður

Við stöndum á tímamótum mikilla samfélagsbreytinga. Stjórnmál, bæði hér á Íslandi og í löndunum í kringum okkur,  hafa ekki farið varhluta af breyttum aðstæðum eins og sést hefur á fréttum undanfarin ár. Á slíkum umrótatímum er enn mikilvægara en áður að stjórnmálamenn tali skýrt um málefni og stefnu.

Til að lýðræðið virki þurfa kjósendur að hafa skýrar upplýsingar og valkosti þegar kemur að kjörborðinu. Þeir þurfa að geta valið um stefnu, varið atkvæði sínu til flokks sem þeir vita hvert stefnir og fyrir hvað stendur.

Stjórnmálamenn eru fulltrúar almennings, ábyrgir fyrir að leiða samfélagið eftir þeirri stefnu sem þeir hafa boðað. Á undanförnum árum hafa stjórnmálamenn hins vegar fært völd í allt of ríkum mæli yfir á hendur embættismannakerfisins, nefnda, hagsmunaafla og fleiri aðila. Þegar stjórnmálamenn gefa frá sér ákvörðunarvaldið og ábyrgðina á þann hátt skerðist vald almennings um leið og lýðræðið virkar þá ekki eins og skyldi.

Kosningar snúast alltaf um það að kjósendur velji þá stefnu sem þeir vilja að leiði framþróun í samfélaginu næstu fjögur ár. Þess vegna verða stjórnmálamenn að leggja höfuðáherslu á að kjósendur viti hvað þeir standa fyrir og taka ábyrgð á stjórn landsins í samræmi við það eftir kosningar í stað þess að fela embættismönnum að stjórna og verja tíma sínum í karp um persónur og það upphlaup sem er til umræðu á samfélagsmiðlum þann daginn.

Á tímum sem ólga af samfélagsbreytingum er skynsemistefnan sérstaklega mikilvæg. Stefna sem byggir á að greina úrlausnarefni samfélagsins, leita bestu og skynsamlegustu lausnanna með því að hlusta á öll sjónarmið og vera opin fyrir tillögum frá öllum hliðum og taka ákvörðun byggða á rökum. Mikilvægt er svo að standa með þeirri ákvörðun, með bestu lausnunum, þó það geti verið erfitt.

Þetta er stefna Miðflokksins. Stjórnmálaöfl til hægri og vinstri  hafa í gegnum áratugina lagt margt gott til stjórnmálanna hvor um sig en engin ein hugmyndafræði hefur svör við öllum úrlausnarmálum samfélagsins. Skynsemisstefnan býður að hlusta á hugmyndir að lausnum frá öllum hliðum og velja þá bestu, eða blanda þeim saman til að ná enn betri árangri.

Fram undan bíða fjölmörg flókin úrlausnarefni sem krefjast skynsamlegra lausna og stjórnmálamanna sem eru tilbúnir að berjast fyrir bestu og skynsamlegustu lausninni. Endurskipulagning fjármálakerfisins, bygging nýs þjóðarsjúkrahúss á betri stað, lausn á húsnæðisvanda ungs fólks, og að staðið verði við loforðið sem gefið var öldruðum eru meðal þeirra úrlausnarefna.

Miðflokkurinn ætlar að takast á við þessi verkefni, og öll hin, af skynsemi og staðfestu.

Ísland allt

Við ætlum að hugsa um landið sem eina heild, eitt samfélag. Í því felst að gera þarf heildaráætlun sem tekur á öllum þáttum samfélagsins og þeirri framtíðarsýn sem við höfum fyrir landið. Við ætlum að samstilla ólíkar aðgerðir svo eitt styðji á sem bestan hátt við annað. Samhæfing aðgerða þarf að eiga sér stað frá einum stað. Mikilvægt er að þannig sé á málum haldið og tækifærin nýtt um allt land. Þannig verður komast hjá því að hver vinni í sínu horni án yfirsýnar. Við ætlum að fjárfesta í landinu öllu, snúa vörn í sókn.

Við ætlum að kalla til sveitarfélög, landshlutasamtök, stofnanir, atvinnurekendur, ráðgjafafyrirtæki, fjármálafyrirtæki, verkfræðistofur og menntastofnanir o.fl. Kalla til þá aðila sem tilbúnir verða til þess að fara í þessa heildaráætlun með okkur þannig að í stað tvíverknaðar og samkeppni um fjármagn vinni allir að sama stóra markmiðinu, Ísland allt, en í því felst heildarnálgun og sterk liðsheild.

Við ætlum að treysta samgöngur, tengja byggðalög, setja fram rétt viðbrögð við fjölgun ferðamanna sem meðal annars kallar á aukinn öryggisviðbúnað og innviðauppbyggingu.

Við ætlum að tryggja góð fjarskipti um landið allt, breyta samkeppnislögum svo samnýting og samkeppni fari saman. Eins þarf að samræma skipulagsmál og styðja við menningarstarf og -arf. Samofið þessum áætlunum þarf að styðja við þróun ferðaþjónustu á svokölluðum kaldari svæðum.

Við ætlum að halda áfram áætlun um nýrra fluggátta á landsbyggðinni, og tryggja uppbyggingu innviða í innanlandsflugi þar sem Isavia gegni lykilhlutverki. Við ætlum að beina fjárfestingum með viðeigandi hvötum að efnahagslega kaldari svæðum og létta álagi af þenslusvæðum.

Við ætlum menntastofnunum að verða leiðandi í að nýta nýjustu tækni á sviði menntamála og þróunar náms. Nám framtíðarinnar er án staðsetningar. Rannsóknar- og þróunarsjóðir verði að hluta merktir sókn í ákveðnum landshlutum þannig að tryggt sé að þeir gagnist landinu öllu. Opinberum störfum utan höfuðborgarsvæðisins fjölgi, m.a. með flutningi opinberra stofnana, útibúum og bakvinnslu ásamt því að starfsöryggi undirstöðuatvinnugreina verði tryggt og heildarframlag þeirra metið að verðleikum. Störf verði einnig í auknari mæli án staðsetningar í hvikum heimi.

Við ætlum að endurgreiða virðisaukaskatt af byggingu íbúðarhúsnæðis á kaldari svæðum (sbr. „Allir vinna“), nýta okkur fyrirmynd Norðmanna með skattalega hvata, jafna flutningskostnað ásamt því að tryggja raforkuflutning.

Við ætlum að tryggja heilbrigðisþjónustu um allt land og viljum að ríkinu verði gert að uppfylla tiltekið þjónustustig alls staðar á landinu. Hefja verður byggingu hjúkrunarheimila af fullum krafti til að taka á viðvarandi og fyrirsjáanlegri þörf, en einnig skal gera fólki kleift að búa lengur á heimilum sínum og draga úr þörf fyrir ný hjúkrunarrými.

Við ætlum að styrkja sjúkrahúsið á Akureyri til þess að veita sérfræðiþjónustu sem hefur glatast á mörgum stöðum enda er það annað af tveimur hátæknisjúkrahúsum landsins, það dregur úr álagi og kostnaði, t.d. með minni ferðakostnaði sjúklinga og fjölskyldna þeirra.

Löggæsla og dómsmál

Stórefla skal fjárframlög til lögreglu til að hægt sé að halda uppi öflugri löggæslu um allt land og tryggja öryggi borgaranna. Fjölga skal lögreglumönnum um land allt og starfsumhverfi þeirra á að endurspegla nútíma kröfur um þjálfun, búnað og þekkingu. Tryggja skal lögreglunámi fé til að geta uppfyllt kröfur um fjölda lögreglumanna.

Efla skal landamæravörslu og greiningarstarf löggæslustofnana. Og getu innanlands til rannsókna m.a. á sviði erfðafræði. Meta þarf ávinninginn af Schengen samstarfinu með hagsmuni Íslands í öndvegi og taka upp virkt vegabréfaeftirlit. Stofna skal erfðamengisstofnun á Íslandi.

Auka skal eftirlit við komustaði til landsins. Öryggiseftirlit og tollgæsla þarf að vera virk um allt land svo hægt sé að ná árangri.

Netöryggi og persónuvernd þarf að tryggja og regluverk þar að lútandi þarf að vera skýrt.

Stytta skal biðtíma fanga eftir afplánun Auka þarf úrræði eins og samfélagsþjónustu og rafrænt eftirlit til að auka möguleika fangelsisstofnana til að styðja fanga til betrunar. Leggja þarf aukna áherslu á eftirfylgni við fanga og fjölskyldur þeirra, fyrir, á meðan og eftir að afplánun er lokið. Dómarar skulu ákvarða um reynslulausn , ekki fangelsismálastofnum.

Sami ráðherra skal ekki skipa bæði lögreglustjóra og dómara.

Ferðamál, iðnaður og nýsköpun

Skapa þarf undirstöðuatvinnugreinum landsins stöðugt rekstrarumhverfi þannig að greinarnar geti fjárfest og skipulagt sig til lengri framtíðar. Við ætlum að einfalda regluverk atvinnulífsins.

Aukin samkeppnishæfni Íslands leiðir til meiri verðmætasköpunar og þar með aukinna lífsgæða landsmanna. Iðnaður og ferðaþjónusta skapa saman stóran hluta gjaldeyristekna þjóðarbúsins auk þess að skapa fjölmörg störf og önnur verðmæti. Með nýsköpun, sem á sér stað jafnt hjá frumkvöðlum og í rótgrónum fyrirtækjum, stendur Ísland betur að vígi í samkeppni ríkja og því þarf að hvetja til rannsókna og þróunar hér á landi.

Hið opinbera stendur fyrir um 45% af útgjöldum í hagkerfinu og hefur því mikil áhrif á atvinnulíf hér á landi. Miðflokkurinn ályktar að hið opinbera leitist við að kaupa innlenda framleiðslu eins og hægt er.

Ferðaþjónustan er einn af burðarásum í efnahagslífi Íslands og mikilvægt er að styrkja alla innviði sem hún grundvallast á og nýtir. Tryggja þarf í samvinnu við hagsmunaaðila að greinin skili eðlilegu framlagi til samfélagsins til uppbyggingar sem nýtist jafnt ferðamönnum og landsmönnum öllum.

Stuðla þarf að dreifingu ferðamanna um landið með markvissum aðgerðum og fjárframlögum til uppbyggingar, þróunar og kynningarstarfs á fáfarnari svæðum. Efla skal markaðsstofur landshlutanna sérstaklega.

Miðflokkurinn styður við uppbyggingu flugvalla þannig að áætlunarferðir í millilandaflugi megi verða einnig til Akureyrar og Egilsstaða. Í því skyni verði ráðist í nauðsynlegar endurbætur á tækjabúnaði og aðstöðu á þeim flugvöllum. Þannig megi auka við þjónustu við innlenda og erlenda ferðamenn.

Komur skemmtiferðaskipa til landsins hafa aukist mjög sem árangur af markvissri markaðssetningu hafna landsins. Miðflokkurinn telur að ríkið eigi að aðstoða fjárhagslega við uppbyggingu á landtengingum skipa við rafmagn. Hugmyndir um að laða að smærri skemmtiferðaskip falla vel að stefnu Miðflokksins og gerir ferðaþjónustuaðilum um land allt mögulegt að byggja upp starfsemi sína.

Hraða skal uppbyggingu flutningskerfis raforku og tryggja næga orku þannig að búseta og atvinnulíf geti þróast með eðlilegum hætti í öllum landshlutum. Hraða skal uppbyggingu jarðstrengja í dreifikerfi raforku til sveita og þar með tryggja 3ja fasa rafmagn en skortur á því stendur í dag í vegi fyrir framþróun og nýsköpun í dreifbýli. Þannig má stuðla að umhverfisvænni atvinnu- og verðmætasköpun um allt land og draga úr olíubrennslu. Miðflokkurinn vill að ríkið setji eigendastefnu fyrir Landsvirkjun. Líta þarf á arð af orkuauðlindinni í samhengi við þau verðmæti sem iðnaður skapar. Það er ekki sjálfgefið að hámörkun arðs af orkuauðlindinni einni og sér hámarki þjóðarhag.

Mikilvægt er að vinna að nýtingu líklegra olíu- og gaslinda í íslenskri lögsögu. Haft verði að leiðarljósi að olía og gas verði framleidd í ríkjum þar sem strangar reglur gilda um umhverfisvernd og ávinningurinn sé nýttur í þágu samfélagsins og náttúrunnar.

Uppbygging sem byggir á hugviti er forsenda þess að lífgæði á Íslandi aukist enn frekar. Þess vegna styður Miðflokkurinn skattalega hvata til að auka nýsköpun. Þök á endurgreiðslur vegna rannsókna og þróunar verði afnumin nú þegar og hlutfall endurgreiðslu verði aukið. Nú þegar veitir ríkissjóður umtalsverðu fé til nýsköpunar en beina þarf því fjármagni að hluta til í að fjármagna vaxtasprota. Slíkt verði gert í samstarfi við einkaaðila.

Sérstöku fjármagni verði veitt til grunn- og framhaldsskóla til að auka þekkingu á vísindum, tækni og nýsköpun.

Félags-, húsnæðis- og jafnréttismál

Miðflokkurinn vinnur að jöfnum réttindum allra þegna samfélagsins óháð kyni, stöðu eða öðrum þáttum. Við viljum að samfélagið grundvallist á gildum lýðræðis, jafnréttis og mannréttinda og höfnum hvers konar mismunun. Ísland á að vera fyrirmynd í mannréttindamálum. Ísland er land fjölbreytni þar sem ólíkur bakgrunnur, reynsla og þekking styrkir samfélagið.

Miðflokkurinn lítur á jafnrétti  sem mannréttindamál og hafnar því hvers konar mismunun. . Flokkurinn telur að launamun kynjanna beri að leiðrétta án tafar. Endurskoða þarf Jafnréttislög þannig að þau endurspegli hið víða hugtak jafnréttis.   Leggja þarf sérstaka áherslu á að aðgerðir í jafnréttismálum gagnist fólki í tekjulægri störfum.

Miðflokkurinn vill auka fræðslu til ungmenna um jafnrétti og mikilvægi þess. Miðflokkurinn leggur sérstaka áherslu á að virkja drengi jafnt sem eldri karlmenn í baráttu fyrir jafnrétti kynjanna.

Miðflokkurinn fagnar fjölbreytni og vill beita sér fyrir réttindum hinsegin fólks á Íslandi og á heimsvísu. Aukin fræðsla um málefni hinsegin fólks mun bæta skilning á málefnum þeirra og stuðla að jöfnum réttindum.

Ísland virði og fari eftir samningi sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Sterk sjálfsmynd einstaklings hefur áhrif á breytni hans. Það er því mikilvægt að leggja grunninn snemma á lífsleiðinni með því að styðja við börn og ungmenni til að skapa sem jöfnust tækifæri til þroska, færni og sjálfs bjargar. Miðflokkurinn leggur áherslu á að leita leiða til að vinna gegn námsleiða, lakari námsárangri og auknu brottfalli hjá drengjum og ungum karlmönnum.

Hækka þarf bótagreiðslur þeirra sem eru á endurhæfingar- eða örorkulífeyri. Tafarlaust skal afnema skerðingar lífeyris krónu á móti krónu. Grunnbætur öryrkja verði hækkaðar og um leið settir inn hvatar svo fólk með skerta starfsgetu geti unnið án þess að bætur skerðist. Um leið þarf að efla og styðja við virk úrræði til endurhæfingar. Þannig ætti t.d. einstaklingur sem er metinn 55% öryrki að geta unnið 45% starfshlutfall án þess að það skerði örorkubætur. Tryggja skal möguleika allra til þátttöku á vinnumarkaði í samræmi við getu.

Aðgangshindranir að vinnumarkaði verði felldar niður. Það á t.d. ekki að skipta máli hvenær almanaksársins einstaklingur sem vegna tímabundinna aðstæðna hefur fengið greiddar örorkubætur kemur út á vinnumarkað.

Miðflokkurinn telur nauðsynlegt að ríki sveitarfélög og samtök atvinnurekenda geri sérstakt átak í ráðningu fólks með skerta starfsorku.  Aðgangshindranir að vinnumarkaði verði felldar niður. Það á t.d. ekki að skipta máli hvenær almanaksársins einstaklingur sem vegna tímabundinna aðstæðna hefur fengið greiddar örorkubætur kemur út á vinnumarkað.

Miðflokkurinn hefur þegar lagt til að atvinnutekjur skerði ekki lífeyrisgreiðslur og lífeyrir á að tryggja lágmarkslaun. Starfslok séu sveigjanlegri og átak gert í byggingu þjónustuíbúða og hjúkrunarheimila. Sérstakt átak skal gert til að efla heimahjúkrun og aðra þjónustu sem eykur möguleika fólks til að búa lengur heima.

Húsnæði er hluti af grunnþörfum hverrar fjölskyldu. Of lítið hefur verið byggt á undanförnum árum og mikið bil á milli framboðs og eftirspurnar hefur leitt til síhækkandi húsnæðisverðs. Það ástand stafar ekki síst af skorti á lóðum, óþarflega miklum kröfum hins opinbera sem endurspeglast m.a. í byggingareglugerð, óskilvirkni í afgreiðslu leyfa og skorts á yfirsýn og samhæfingu. Við þessu þarf að bregðast tafarlaust þannig að allir geti eignast þak yfir höfuðið.

Ríki, sveitarfélög og aðilar vinnumarkaðarins þurfa m.a. að vinna saman að uppbyggingu íbúða sem hentað geta fólki á leigumarkaði eða til eignar.

Miðflokkurinn styður uppbyggingu leigufélaga sem eru rekin  án hagnaðarsjónarmiða.  Miðflokkurinn vill að Byggingarsamvinnufélagaformið verði hafið til vegs og virðingar að nýju. Stemma þarf stigu við óhóflegum uppkaupum aðila  sem nýta íbúðir í útleigu til ferðamanna í atvinnuskyni.

Fjármál og efnahagsmál

Ljúka skal endurskipulagningu fjármálakerfisins með það að markmiði að lækka vexti og laga kerfið að þörfum fólks og fyrirtækja. Bankarnir verði minnkaðir með því að greiða úr þeim umfram eigið fé í ríkissjóð. Landsbankinn verði látinn leiða þá vinnu þar sem m.a. verði stofnaður nýr hagkvæmur netbanki sem láni til einstaklinga og fyrirtækja á bestu kjörum.

Kosningastefna Miðflokksins frá 2017 lýsir skýrri framtíðarsýn sem skilað getur heilbrigðara fjármálakerfi og eðlilegu vaxtastigi.

Það er forgangsmál að auka traust og tiltrú almennings á fjármálakerfinu.  Í því skyni þurfa fjármálastofnanir og eigendur þeirra að sýna að þær séu traustsins verðar. Einnig þarf ríkið að tryggja að eftirlit sé í samræmi við lög og að gripið sé inn í ef hætta steðjar að. Í því skyni að treysta umgjörð fjármálamarkaðarins leggur Miðflokkurinn til að Fjármálaeftirlitið verði sameinað Seðlabankanum og er það að breskri fyrirmynd. Miðflokkurinn vill að almenningi verði færður hlutur í banka í eigu ríkisins og er þannig fylgt eftir stefnu flokksins fyrir kosningarnar 2017.

Við endurskoðun peningastefnu verði horft til raunvaxtamunar við útlönd í stað þess að horfa einungis til vísitölu verðlags. Núverandi vaxtastig er of hátt og leiðir m.a. til hættulegs innflæðis fjármagns.

Þak verði sett á vexti af nýjum verðtryggðum lánum þar til verðtrygging verður aflögð á neytendalánum. Húsnæðisliður skal tekinn út úr neysluvísitölu. Áfram verði heimilt að nýta séreignarsparnað til greiðslu inná húsnæðislán.

Skatthlutfall á Íslandi er með því hæsta sem þekkist á meðal OECD ríkja, þegar tekið hefur verið tillit til þess hvernig lífeyriskerfi þjóðanna eru byggð upp.  Endurskoðun skattkerfisins, með það fyrir augum að einfalda það, minnka áhrif jaðarskatta og lækka heildarskatthlutfall, er nauðsynleg og mun ná fram heilbrigðara jafnvægi hvað útgjöld heimila, ríkis og sveitarfélaga varðar. Lækka skal tryggingagjald enda er skattlagning fyrirtækja á Íslandi mikil í alþjóðlegum samanburði. Tryggingagjald fyrir fyrstu 10 starfsmenn fyrirtækja skal lækkað sérstaklega.

Afnema skal erfðafjárskatt til að koma í veg fyrir tvísköttun.

Stofna skal öryggis- og sveiflujöfnunarsjóð sem hluti af auðlindaarði þjóðarinnar renni í. Sjóðurinn skal nýttur til að jafna sveiflur í efnahagslífinu og tryggja stöðugleika til lengri tíma.

Einfalda þarf lífeyrissjóðskerfið á Íslandi með fækkun lífeyrissjóða og breyta þarf lagaumhverfi á þann hátt að lífeyrissjóðirnir geti fjárfest enn frekar erlendis. Skattleggja skal lífeyrissparnað við inngreiðslu í lífeyrissjóði og er þannig fylgt eftir stefnu flokksins fyrir kosningarnar 2017.

Heilbrigðismál, lýðheilsa og forvarnir

Heilbrigðiskerfið á að vera aðgengilegt öllum um allt land á sömu forsendum óháð búsetu og efnahag.

Forvarnir eru lykilatriði bættrar lýðheilsu og um leið bætts reksturs í heilbrigðiskerfinu. Huga skal að forvörnum strax í bernsku Forvarnir á að hugsa sem samfellu frá vöggu til grafar.  Ráðgjöf og hvatning til bættrar lýðheilsu verði hluti skóla- og tómstundastarfs. Foreldrar hafi greiðan aðgang að námskeiðum um  uppeldisaðferðir sem byggi á gagnreyndri þekkingu.

Sálfræði og geðheilbrigðisþjónusta á að vera aðgengileg um allt land því þarf að bæta aðgengi Skortir þar allt í senn opinbera stefnumörkun, fjármagn, mannskap og húsnæði.

Öruggir sjúkraflutningar verði tryggðir um land allt.

Nýtt þjóðasjúkrahús verði reist frá grunni á nýjum stað, hannað fyrir nútíma þarfir og nýjustu tækni. Þar verði skapað gott og öruggt umhverfi þar sem hugað er jafnt að andlegri og líkamlegri heilsu þeirra sem nýta þjónustuna, aðstandenda þeirra og starfsfólks. Mannvirki sem þetta þarf að virka sem ein heild þar sem tekið er tillit til aðgengis. Miðflokkurinn leggur áherslur á að þjóðarsjúkrahús verði að geta bætt líðan skjólstæðinga, aðstöðu alls starfsfólks þar sem stuðlað er að fræðslu og rannsóknum til framtíðar.

Vel skipulögð utan spítalaþjónusta er einn af lykilþáttum heilbrigðisþjónustunnar. Horft verði til heildarnálgunar þeirrar þjónustu sem veitt er um allt land.  Efla þarf heimahjúkrun og félagsþjónustu og tengja betur heilsugæslunni.

Sérfræðilækningar verði efldar á landsbyggðinni. Hvatar verði settir á til þess að tryggja aðgang að sérfræðilæknum um land allt. Sjúkrahúsið á Akureyri verði sérstaklega eflt sem annað af tveimur öflugustu sjúkrahúsum landsins. Nýta þarf tækifæri sem felast í auknum rannsóknum, samskipta- og tæknilausnum.

Sett verði stefna um Sjúkratryggingar Íslands. Greiðsluþáttaka sjúklinga með lífsógnandi sjúkdóma verði felld niður. Ráðast þarf í heildarendurskoðun vegna þeirra sem þurfa á þjónustu heilbrigðiskerfisins að halda vegna lyfja- og ferðakostnaðar. Einnig þarf að horfa til þess að færa þjónustuna til þeirra sem þurfa á henni að halda. Miðflokkurinn leggur áherslu á að sjúklingum verði ávallt ávísað virkustu lyfjum sem fyrirfinnast á markaðnum hverju sinni og læknar, eftir atvikum sjúklingar, hafi greiðan aðgang að frumlyfjum til ávísunar á viðráðanlegu verði. Þess skal gætt að strangt eftirlit sé til staðar með ávísun ávanabindandi lyfja

Framlög til forvarna og lýðheilsu verði aukin. Verkefnið „Heilsueflandi samfélag“, sem víða er komið af stað, fái aukinn stuðning og stefnt að því að það nái til landsins alls.

Stórefla þarf forvarnir, meðferðarúrræði og fjárframlög vegna áfengis og vímuefnanotkunar með markvissri stefnu.

Miðflokkurinn vill efla hreyfingu og fræðslu til eldri aldurshópa þannig að hægt verði að fjölga góðum æviárum og vinna að farsælli efri árum. Efla þarf samstarf ríkis og sveitarfélaga um bætta lýðheilsu, enda hlutverk stjórnvalda að skapa aðstæður og hvatningu til betra lífs.

Mikilvægi íþrótta og tómstunda í lýðheilsu verður ekki ofmetið. Þátttaka í íþróttum og tómstundum er ein öflugasta forvörnin sem þekkt er. Miðflokkurinn vill ná til allra aldurshópa þegar kemur að hreyfingu. Miðflokkurinn vill með þessu ná fram betri heilsu og þar með líðan fólks og þannig minnka kostnað innan heilbrigðiskerfisins. Miðflokkurinn vill tryggja að þeir sem fá takmarkaða hreyfingu og félagstengsl hafi tök á leiðum út úr slíkum vítahring.

Mennta- og menningarmál

Mikilvægur liður í því að tryggja framkvæmd núgildandi menntastefnu um nám án aðgreiningar, einstaklingsmiðað nám, fjölbreytt námstækifæri, skapandi skólastarf og vellíðan nemenda er að hlusta á og styðja við fagfólk skólanna við innleiðingu og framkvæmd á menntastefnunni. Ríki og sveitarfélög skulu tryggja aðgang nemenda í grunn- og framhaldsskólum að náms- og starfsráðgjöf.

Ríki og sveitarfélög þurfa að vinna saman og með skólafólki að því að bæta starfsumhverfi og skapa svigrúm fyrir þróun skólastarfs. Mikilvægt er að endurmeta samninga ríkis og sveitarfélaga um fjármögnun skólastarfs. Efla skal þverfaglegt samstarf stofnana á sviði skólamála, heilbrigðis- og félagsþjónustu, sem og samstarf mismunandi skólastiga og atvinnulífs.

Skapa þarf meiri sveigjanleika milli leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Nemendum sem hyggja á iðn- og tækninám skal gert kleift að sækja fagáfanga á framhaldsskólastigi. Auka þarf veg starfsnáms á grunnskólastigi. Grunnskólum skal   heimilað að taka á móti 5 ára börnum til náms. Mikilvægt er að viðurkenna með lögum stöðu leikskólanna sem fyrsta skólastigsins.

Allir þegnar samfélagsins eiga að hafa jafnan aðgang að menntun óháð efnahag og leitast skal við að kostnaður einstaklinga og fjölskyldu vegna menntunar sé ekki íþyngjandi. Sveitarfélög skulu sjá nemendum fyrir námsgögnum, ritföngum og skólamáltíðum þeim að kostnaðarlausu.

Móta skal framtíðarstefnu um framboð á náms- og kennsluefni. Sérstök áhersla skal lögð á að auka framboð á rafrænu námsefni fyrir leik-, grunn, og framhaldsskóla á íslensku. Ráðgjöf og hvatning til bættrar lýðheilsu verði  hluti skólastarfsins og samstarf heimilis og skóla verði leiðarstef í skólagöngu barna. Markvissa stefnu skal móta fyrir nemendur með annað móðurmál en íslensku. Litið verður að foreldra sem virka þátttakendur í skólastarfi með beinni aðkomu þeirra, aðeins þannig er hægt að tala um samvinnu heimilis og skóla.

Miðflokkurinn ætlar að fara í sérstakt átak og gera samfélagssáttmála um aukna verk- og tæknimenntun.

Til að mæta kröfum nýrra starfa í framtíðinni ætlar Miðflokkurinn að auka kennslu í skapandi greinum og verkmenntun á sem flestum sviðum og auka áherslu á tölvutengt nám (t.d. grafíska hönnun, forritun og fleira) með tilheyrandi aðgengi að atvinnulífinu, bættum tækjabúnaði í skóla og hæfum leiðbeinendum.

Miðflokkurinn ætlar að stórefla iðn- og tæknimenntun til framtíðar, m.a. með sérstökum fjárframlögum og virkara samstarfi við atvinnulífið.  Skapa skal sérstaka hvata fyrir nemendur til að sækja slíkt nám og auka sérstaklega framlög ríkissjóðs til rannsókna og vísindastarfs. Mikilvægt er að ráða tæknimenntað fólk inn í skólana með markvissum hætti.

Auka skal sveigjanleika til náms með það að markmiði að ná til allra þeirra er hafa hug á því að snúa aftur í skóla óháð efnahag, aldri og búsetu. Horft skal sérstaklega til náms án staðsetningar. Kostnaður verði sá sami og við dagskóla í hefðbundnu námi.  Styrkja skal háskólastofnanir utan höfuðborgarsvæðisins sérstaklega til að verða miðstöðvar náms án staðsetningar um allt land.

Miðflokkurinn ætlar að auka tækifæri nemenda á grunnskólastigi, sem eiga erfitt með hefðbundið bóklegt nám, til að komast í starfstengt nám fyrr á skólastiginu og auka þannig líkurnar á áframhaldandi námi að grunnskóla loknum.

Miðflokkurinn ætlar að efla verulega Vinnuskóla með fjölbreyttu og auknu starfsvali unglinga á aldrinum 13 – 18 ára í samstarfi við fyrirtæki í viðkomandi sveitarfélagi svo nemendur eigi þess kost að kynnast sem flestum starfsgreinum.

Miðflokkurinn styður við öfluga verkmenntaskóla í höfuðborginni sem og á landsbyggðinni.

Miðflokkurinn fagnar góðum árangri Keilis á Ásbrú varðandi tækni- og flugmenntun og telur tímabært að ganga varanlega frá eignarhaldi skólans á því húsnæði sem skólinn hefur til afnota.

Endurskoða þarf námslánakerfið með hliðsjón af því sem best hefur reynst á Norðurlöndum, þar á meðal styrkjakerfi.

Miðflokkurinn stendur með öflugu menningarstarfi sem auðgar samfélagið. Þá hyggst Miðflokkurinn styðja sérstaklega við uppbyggingu í menningarmálum utan höfuðborgarsvæðisins, til að styrkja samfélögin um allt land. Auka þarf framlög ríkisins til lista- og menningarstarfs og skapandi greina.

Íþróttir

Auka þarf styrki til íþrótta- og tómstundastarfs á landsbyggðinni, m.a. með það að markmiði að jafna ferðakostnað.

Miðflokkurinn mun leggja aukinn kraft og fjármuni í forvarnir í samstarfi við íþróttahreyfinguna og önnur frjáls félagasamtök.

Stofna þarf íþróttasjóð til að efla skipulagða íþróttaiðkun. Flestir foreldrar hafa áhyggjur af hreyfingarleysi barna sinna og ofþyngd. Ofþyngd er eitt stærsta heilsufarsvandamál þjóða heims. Rannsóknir sýna að virk þátttaka í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi skilar miklum árangri í forvörnum til að bæta andlega og líkamlega heilsu barna, unglinga og fullorðinna. Rekstur og skipulag faglegrar íþróttastarfsemi er íþróttafélögum kostnaðarsamur. Of margir foreldar eiga  erfitt með að bjóða börnum sínum að taka þátt í skipulögðu íþróttastarfi vegna kostnaðar, en miklu skiptir að börn efnaminni foreldra geti einnig stundað íþróttir. Auka þarf framlög til íþróttafélaga til að lækka þáttökugjöld.

Efla þarf ferðasjóð íþróttahreyfingarinnar. Ferðakostnaður innanlands dregur allt of mikið úr íþróttaiðkun barna og unglinga sérstaklega á landsbyggðinni. Við því þurfa stjórnvöld að bregðast.

Í febrúar 2017 var úthlutað 97 milljónum úr Ferðasjóði íþróttahreyfingarinnar sem var fjórðungur þeirrar upphæðar sen sótt var um. Efla þarf þennan ferðasjóð verulega.

Auka þarf framlög í afrekssjóð til að efla starfsemi unglingalandsliða. Afreksíþróttafólkið okkar skapar fyrirmyndir og er mikil hvatning fyrir börn og unglinga til að taka þátt í íþróttum og um leið góð kynning fyrir land og þjóð. Fagna ber ákvörðun ríkisstjórnar Íslands árið 2016 að stórauka framlög til afreksíþrótta í áföngum í 400 milljónir árlega. Auka þarf samt framlög til unglinga- landsliða okkar til að eiga áfram landslið í fremstu röð.

Íþróttafélög um allt land hafa með aðstoð sveitarfélaga, fyrirtækja og sjálfboðaliða kappkostað að byggja keppnisvelli og íþróttahús en samt þarf stórátak í þessum málum. Miðflokkurinn vill að sveitarfélög um land allt  standi við loforð sín um að hraða uppbyggingu betri aðstöðu íþróttafélaga í samstarfi við ríkið. Miðflokkurinn ætlar að breyta reglugerð um virðisaukaskatt þannig að íþróttafélög fái endurgreiddan virðisaukaskatt af vinnu iðnaðarmanna við nýbyggingu, endurbyggingu og viðhaldi íþróttatamannvirkja.

Miðflokkurinn styður hugmyndir ÍSÍ og sérsamband um að byggja yfirbyggðan fjölnota þjóðarleikvang í Laugardal og byggingu fjölnota íþróttahallar fyrir handbolta, körfubolta, fimleika, frjálsar, o.fl. íþróttagreinar. Einnig þarf að byggja veglegan frjálsíþróttavöll.  Leita þarf leiða til að fjármagna þessi nýju íþróttamannvirki í samstarfi Reykjavíkurborgar og annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu með stuðning ríkissjóðs, stórfyrirtækja og alþjóðlegra sérsambanda. Þá er lagt til að ÍSÍ ræði við Íslenska Getspá um að koma á fót nýjum alþjóðlegum Lottóleik til að fjármagna hluta þessara mannvirkja svo og rekstur þeirra.  Ljóst er að verulegar tekjur geta  skapast með þessum mannvirkjum vegna komu erlendra áhorfenda til landsins. Í þessu sambandi má einnig benda á aukna og ódýra landkynningu vegna alþjóðlegra sjónvarpssendinga frá kappleikjunum eins og eftir HM í handbolta á Íslandi 1995.

Miðflokkurinn styður við útbreiðslu glímu um land allt bæði í skólum og íþróttafélögum.

Miðflokkurinn vonar að aðrir stjórnmálaflokkar muni styðja það mikilvæga forvarna- og lýðheilsustarf sem íþróttir eru til að bæta heilsu barna okkar og unglinga, þeim og foreldrum þeirra til mikillar ánægju og lífsgleði.

 Samgöngur og fjarskipti, sveitarstjórna- og byggðamál, lýðræðisefling

Samgöngur, fjarskipti og orka eru undirstaða nútíma samfélags á landinu öllu. Séu þessar grunnstoðir í lagi, kemur annað að sjálfu sér. Of hæg uppbygging innviða á undanförnum árum hefur leitt til þess að vegakerfið hefur verulega látið á sjá og víða að hruni komið. Auka þarf varanlega fjárframlög til málaflokksins og tryggja nægjanlegt fjármagn hverju sinni. Fjárfesting í vegakerfinu, stuðningur við innanlandsflug og flugvelli, ásamt uppbyggingu í höfnum landsins mun styðja við áframhaldandi hagvöxt.

Mikilvægi fjarskiptamála hefur aukist jafnt og þétt á undanförnum árum og áratugum og er nú svo komið að góð fjarskipti og öflugar nettengingar eru forsenda þess að fólk geti valið sér búsetu hvar á landi sem er. Tryggja þarf hraða uppbyggingu góðs fjarskiptanets um allt land, til að auka gæði búsetu og möguleika allra landsmanna til atvinnusköpunar jafnt í dreifbýli sem þéttbýli.

Miðflokkurinn leggur áherslu á að tekjur af umferð og ökutækjum verði í stórauknum mæli eyrnamerkt til uppbyggingar og viðhalds vegakerfisins. Sértæk verkefnafjármögnun verði ekki til þess að hækka heildarálögur á ökutæki.

Miðflokkurinn gerir að tillögu sinni að horfið verði frá hugmyndum um gjaldtöku á vegakerfið en setur sig ekki á móti einkaframkvæmdum á vegasamgöngubótum þar sem aðrar leiðir verða einnig í boði.

Miðflokkurinn leggur til að ráðist verði strax í að auka öryggi á malarvegum, þar sem bundið slitlag verði lagt á vegi í núverandi veglínu þeirra, hugsanlega með lækkuðum hámarkshraða þar sem við á.  Hér er horft til fáfarnari safn- og tengivega, sem ólíklegt er að verði fjármagnaðir í fyrirsjáanlegri framtíð verði þeir byggðir upp samkvæmt ítrustu stöðlum.

Skipuleggja þarf stofnæðar sem tengja saman sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu með bestun á umferðarflæði og öryggi vegfarenda að leiðarljósi.

Miðflokkurinn vill hraða byggingu Sundabrautar til að bæta umferðarflæði og umferðaröryggi á Höfuðborgarsvæðinu.

Miðflokkurinn lýsir fullum stuðningi við sérlög um vegalagningu um Teigsskóg.

Miðflokkurinn telur að flug- og ferjuleiðir eigi að vera skilgreindar sem almenningssamgöngur og hluti af þjóðvegakerfinu. Mikilvægt er að samningum um þjónustu á ríkisstyrktum ferjuleiðum sé þannig fyrir komið að þjónustufall heyri til undantekninga og að rekstraraðilar hafi ekki hag af því að siglingar stöðvist um nokkurt skeið.

Fjölgun stórra skemmtiferðaskipa, um leið og fiskiskipaflotinn vex, ýtir undir þörf á því að hafnir landsins séu betur tækjum búnar til að þjónusta slík skip.

Miðflokkurinn leggur til að þegar verði ráðist í það verk að marka flug- og flugvallastefnu til framtíðar.  Heildstæð stefnumótun fyrir þennan mikilvæga málaflokk hefur ekki verið unnin.  Í slíkri stefnumótun þarf að tengja saman mikilvægi flugsins fyrir þjóðina alla, efnahagslífið og ferðaþjónustuna.

Millilanda- og varaflugvellir gegna mikilvægu hlutverki í efnahagskerfi þjóðarinnar, um leið og innanlandsflugvellir skipta miklu máli fyrir tengingar landsbyggðar við höfuðborgina. Sumir þeirra gegna að auki hlutverki varaflugvalla fyrir Keflavíkurflugvöll.

Gera þarf áætlun um viðhald og uppbyggingu á flugvöllum á Íslandi til að styrkja smærri byggðir og uppbyggingu ferðamannaiðnaðarins. Nauðsynlegt er að Fjárlaganefnd samþykki fjármagn til 5 ára í senn í stað eins árs. Tryggja skal fjármagn í samgönguáætlun.

Kostnaður við innanlandsflug er of hár, að hluta til vegna mikillar skattlagningar á flugstarfsemina.  Skattlagningu þessa þarf að taka til endurskoðunar. Jafna skal flutningskostnað flugvélaeldsneytis og tryggja að verð og aðgengi að eldsneyti eða önnur aðstaða sé ekki hamlandi þáttur í opnun flugleiða til staða á landsbyggðinni.

Tryggja skal að Isavia þjóni mikilvægu hlutverki sínu gagnvart uppbyggingu fluginnviða. Endurskoða þarf hlutverk Isavia og tryggja að tekjur af starfseminni nýtist einnig til uppbyggingar innanlandsflugvalla, nýrra fluggátta og aðstöðu um land allt.

Stækka þarf flughlöðin á Akureyri og Egilstöðum sem fyrst til að þeir flugvellir geti uppfyllt öryggishlutverk sitt sem varaflugvellir ásamt Reykjavíkurflugvelli. Þannig geta þeir sameiginlega tekið við öllum þeim þotum sem fljúga inn á Keflavíkurflugvöll þegar hann lokast snögglega.

Byggja þarf upp flugvelli eins og Vík í Mýrdal, Kirkjubæjarklaustur og Fagurhólsmýri svo að þeir séu hæfir til að taka við stærri flugvélum og sjúkraflugvélum. Það er nauðsynlegt gagnvart náttúruvá, stórslysum og aukningu ferðamanna. Með þessum hætti væri hægt að bregðast við fyrr og betur ef eldgos eiga sér stað og einnig til að létta á vegum landsins sem eru komnir að þolmörkum.

Hluti af uppbyggingu flugvalla er að bæta við European Geostationary Navigation Overlay Service (EGNOS) leiðréttingarstöðvum á Grænlandi, þannig er hægt sé að setja upp GPS nákvæmnisaðflug á öllum flugvöllum á Íslandi. Það er ódýrari og betri kostur en áframhaldandi rekstur núverandi aðflugskerfa.

Reykjavíkurflugvöllur skal vera áfram hjartað í Vatnsmýrinni sem aðal samgönguæð innanlandsflugs, sjúkraflugs og almannaflugs sem tenging landsbyggðar og höfuðborgar í samræmi við vilja yfirgnæfandi meirihluta landsmanna. Þar skal byggð upp samgöngumiðstöð sem tengir innanlandsflug við vegasamgöngur á höfuðborgarsvæðinu.

Opna þarf neyðarbrautina á ný til að tryggja aðgengi allra landsmanna að sjúkrahússþjónustu. Veturinn 2016-2017 komu upp veðurfarslegar aðstæður í 25 daga þar sem neyðarbrautin var eina nothæfa flugbrautin með tilliti til sjúkraflutninga samkvæmt Öryggisnefnd Félags Íslenskra Atvinnuflugmanna (ÖFÍA).

Bæta þarf aðstöðu flugskóla á Íslandi, efla þarf nám flugmanna, flugvirkja, þjónustuliða og flugumferðarstjóra. Á Reykjavíkurflugvelli þarf að efla samstarf við háskólana í nágrenni flugvallarins. Tryggja þarf jafnan aðgang þessara námsstétta að LÍN til jafns við annað framhaldsnám. Þetta er nauðsynlegt til að styðja við uppbyggingu íslenskra flugfélaga.

Styrkja þarf rekstur flugdeildar Landhelgisgæslunnar og dreifa starfsstöðvum um landið, bæði á Norður- og Austurland auk Reykjavíkur.

Hefja skal arðbæra sókn í byggðamálum þar sem landið allt er undir og framlag atvinnugreina til samfélagsins verður metið og virt. Framlag þeirra til byggðamála er mikið og þarf að skoða í samhengi við rekstrar- og samkeppnisumhverfi viðkomandi greina.

Ríkisvaldinu skal gert skylt að uppfylla ákveðið þjónustustig um allt land. Tryggja skal að verkefnum sem færð eru frá ríkinu til sveitarfélaga fylgi nægt fé, svo að þau dragi ekki fjármagn frá þeim verkefnum sveitarfélaga sem fyrir eru.

Fjárfestingum verði beint með viðeigandi hvötum að efnahagslega kaldari svæðum og álagi létt á þenslusvæðum. Rannsóknar- og þróunarsjóðir verði einnig að hluta merktir nýsköpun á landsbyggðinni.

Styðja skal við atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni með fjölgun opinberra starfa og verkefna, t.d. með að þeim nýju störf verði beint út á land.

Stuðningur verði veittur við sameiningu sveitarfélaga ef það hefur augljósa kosti meðal annars með tilliti til rekstrar og skipulags svæða.

Miðflokkurinn styður aukna þátttöku íbúanna í ákvarðanatöku með beinu lýðræði í sveitarstjórnarmálum og á landsvísu. Einfalda þarf ákvæði um íbúalýðræði í sveitarfélögum og nauðsynlegt er að setja skýr ákvæði um framkvæmd og gildi þjóðaratkvæðagreiðslna í stjórnarskrá. Miðflokkurinn vill að ákvæði um þjóðarfrumkvæði verði sett í stjórnarskrá.

Sjávarútvegur, landbúnaður og matvælaframleiðsla

Innlend landbúnaðar- og matvælaframleiðsla ásamt sjávarútvegi  eru meðal grunnstoða samfélagsins sem ber að tryggja til framtíðar. Án þess verður hvorki fæðuöryggi þjóðarinnar né matvælaöryggi tryggt. Starfsöryggi þessara grunnstoða verði tryggt og heildarframlag þeirra til samfélagsins metið.

Stuðningur við íslenskan landbúnað er ekki síður stuðningur við neytendur sem þannig er tryggður aðgangur að ódýrum heilnæmum matvælum. Allar nágrannaþjóðir okkar og flestar þjóðir heims styðja sinn landbúnað og vernda, meðal annars með innflutningstollum. Íslendingar verða því að standa vörð um eigin framleiðslu með sama hætti eigi hún að standast samkeppni.

Miðflokkurinn telur að til að verja heildarhagsmuni samfélagsins og leiðrétta kjör bænda þurfi að auka stuðning við landbúnaðinn frá því sem nú er.

Stuðningur við landbúnaðinn skilar sér margfalt til baka í verðmæta- og atvinnusköpun bæði í dreifbýli og þéttbýli og er um leið ódýrasta leiðin til að halda landinu öllu í byggð. Hlutverk landbúnaðarins í byggðamálum er stórlega vanmetið.

Miðflokkurinn mun standa vörð um sérákvæði búvörulaga sem heimila mjólkuriðnaðinum samvinnu og verkaskiptingu sem skilað hefur gríðarlegri hagræðingu í greininni og lækkun verðs til neytenda.

Miðflokkurinn mun beita sér fyrir því að aðrar greinar landbúnaðarins fái sambærilegar undanþágur frá samkeppnislögum og mjólkuriðnaðurinn þannig að stuðla megi að frekari hagræðingu og þróun.

Miðflokkurinn telur mikilvægt að viðhalda framleiðslustýringu í mjólkurframleiðslunni sem gefist hefur vel og tryggt starfsöryggi og afkomu í þeirri grein.

Miðflokkurinn telur að heimila þurfi stóraukið samstarf á sviði framleiðslu og sölu á sauðfjárafurðum og vill beita sér fyrir lagabreytingum þar um. Auka þarf svæðisbundinn stuðning, tryggja bændum fyrirsjáanleika t.d. með því að verð til þeirra liggi fyrir mun fyrr.

Miðflokkurinn telur nauðsynlegt að taka rekstrarumhverfi svína- og alifuglaræktar til sérstakrar skoðunar þar sem mikil óvissa er um framtíð þessara greina í kjölfar afléttingar tolla á innfluttar vörur.

Tryggja þarf að hægt sé að stunda landbúnað-og matvælaframleiðslu í sem bestri sátt við náttúruna og að hollusta og álag á umhverfi séu ráðandi þættir. Þannig leggst Miðflokkurinn gegn innflutningi á hráu kjöti til landsins og mun beita sér fyrir meiri rekjanleika matvæla og því að merkingar um uppruna verði skýrar þannig að neytendur hafi öruggar upplýsingar á hverjum tíma um heilnæmi vörunnar.

Gerðar verði sömu kröfur um hreinleika og heilnæmi matvara sem fluttar eru til landsins eins og gerðar eru til íslenskra landbúnaðarvara. Stórauka þarf eftirlit með uppruna og heilnæmi innfluttra matvara. Sjávarútvegur þjóðarinnar er ein af undirstöðugreinum landsins og því mikilvægt að skapa greininni stöðugleika og fyrirsjáanleika í rekstrarumhverfi þannig að greinin geti þróast og áfram verið leiðandi á heimsvísu er kemur að nýsköpun og verðmætaaukningu. Auðlindagjöld skulu taka mið af afkomumöguleikum greinarinnar í heild og mismunandi útgerðarflokka innan hennar.

Áfram skal byggt á aflamarks- og aflahlutdeildarkerfi. Fiskveiðar í íslenskri lögsögu eru stundaðar með sjálfbærum hætti eftir ráðgjöf fiskifræðinga og vottaðar af þar til bærum viðurkenndum aðilum.

Miðflokkurinn styður markmið núverandi fiskveiðistjórnunarkerfis og hafnar tilraunum til umbyltinga á því sem haft geta alvarlegar afleiðingar fyrir byggðir landsins. Skoðaðir verði kostir þess að allar byggðir hafi rétt til tímabundinna veiðiheimilda til að verja eða skapa störf tengd sjávarútvegi.

Miðflokkurinn vill að stjórnarskrá kveði á um sameiginlega eign þjóðarinnar á auðlindum hennar.Hvers konar eldi mun vaxa á heimsvísu á komandi árum til að anna fæðuþörf heimsins. Á Íslandi hefur fiskeldi vaxið jafnt og þétt, treyst byggð, skapað störf og önnur verðmæti. Fiskeldi er sérstaklega verðmæt viðbót við atvinnusköpun á landsbyggðinni. Mikilvægt er að koma í veg fyrir að laxeldi valdi tjóni á villtum laxastofnum og öðru lífríki, m.a. með kröfum um bestu mögulegu tækni, með mótvægisaðgerðum og ströngu eftirliti. Fyrirtæki verði sérstaklega hvött til að stunda fiskeldi á landi og stuðningur við það verði skoðaður.

Umhverfis- og auðlindamál

Í umhverfismálum er nauðsynlegt að líta til heildaráhrifa á heimsvísu fremur en að skoða aðeins áhrif stefnu og aðgerða innan landamæra Íslands. Stefna Íslands í umhverfismálum þarf að taka tillit til heildaráhrifa og hvatar og stuðningur ríkisvaldsins að taka mið af því. Of algengt er að litið sé fram hjá heildaráhrifum og óskynsamlegar ákvarðanir teknar og fjármagn illa nýtt af þeim sökum.

Ísland verði áfram leiðandi á sviði endurnýjanlegrar hreinnar orku.

Setja verður stefnu til framtíðar um orkuskipti í samgöngum sem byggir á raunsæjum skrefum, m.a. varðandi uppbyggingu innviða, orkuverð og aðgang að umhverfisvænum orkugjöfum. Leggja skal áherslu á jákvæða hvata fremur en neikvæða í þessum tilgangi.

Stuðningur við vísindi og rannsóknir á sviði umhverfisvænnar tækni er vænlegasta leiðin til að ná raunverulegum árangri í loftslagsmálum og öðrum umhverfismálum.

Æskilegt er að leitast við að auka endurvinnslu á Íslandi í stað þess að flytja út pappír, ál, plast og annað sorp til brennslu eða annarrar úrvinnslu erlendis.

Miðflokkurinn leggur til að bann verði við innflutningi á tannkremsvörum og öðrum hreinsivörum sem innihalda plastkúlur sem menga hafið, en þessar plastkúlur virka sem fóður fyrir sjávardýr.

Áhrif áforma um endurheimt votlendis á losun gróðurhúsalofttegunda eru óljós og mikilvægt að ráðast í mun meiri rannsóknir áður en forsvaranlegt er að gera slík áform að meginstoð í áætlun Íslands um bindingu gróðurhúsalofttegunda.

Jákvæðar afleiðingar skógræktar og annarrar landgræðslu, meðal annars í loftslagsmálum, eru augljósar. Því er aðkallandi að hefja átak í landgræðslu og skógrækt á Íslandi og setja í málaflokkinn það fjármagn sem til þarf.

Þeir sem nýta sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar greiði eðlilegt gjald fyrir afnotin.

Utanríkismál

Fullveldi íslensku þjóðarinnar er grunnur þess að Ísland er frjálst ríki sem byggir efnahagslegt sjálfstæði sitt á frjálsum viðskiptum, sjálfbærri nýtingu auðlinda, friði og jafnrétti allra þegna landsins. Miðflokkurinn leggur áherslu á að alþjóðalög, reglur og sáttmálar sem tryggja íslenskri þjóð fullveldisrétt meðal þjóða heims séu virtir.

Varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna og aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu (NATO) tryggja öryggi og varnir landsins. Miðflokkurinn telur mikilvægt að fram fari reglulegar viðræður við Bandaríkin og aðrar vestrænar samstarfsþjóðir um þarfir og framkvæmd varna landsins.

Miðflokkurinn vill að stofnsett verði Öryggis- og varnarmálastofnun. Stofnunin verði sjálfstæð en heyri undir utanríkisráðuneytið og fari með öryggis- og varnarmál landsins.

Miðflokkurinn leggur mikla áherslu á öflugt alþjóðlegt samstarf við þjóðir og stofnanir sem aðhyllast hugmyndafræði friðar, lýðræðis, jafnréttis, mannréttinda og náttúruverndar.

Miðflokkurinn vill áframhaldandi öflugt starf Íslands innan Sameinuðu þjóðanna. UNWOMEN, UNICEF og Háskóli Sameinuðu þjóðanna eru meðal stofnana þar sem þekking og reynsla Íslendinga hefur nýst vel. Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna eiga að vera eitt af leiðarljósum utanríkisstefnu Íslands..

Miðflokkurinn vill að Ísland haldi áfram að auka framlög sín til þróunaraðstoðar í átt að markmiði Sameinuðu þjóðanna um að 0,7% af landsframleiðslu renni til málaflokksins. Mikilvægt er að tryggja að framlög Íslands nýtist þar sem þörfin er mest. Það á ekki hvað síst við um aðstoð við flóttamenn þar sem nauðsynlegt er að framlögin nýtist vel til að hjálpa sem flestum sem mest.

Ísland á að vera virkt í hagsmunagæslu á norðurslóðum og horft verði til nýtingar nýrra tækifæra varðandi opnun siglingaleiða. Styðja á við rannsóknir og aðgerðir til að koma í veg fyrir óæskilega þróun á svæðinu. Virða skal rétt og vilja íbúa norðurslóða til búsetu, sjálfbærrar nýtingar auðlinda sinna og lífsviðurværis.

Miðflokkurinn telur mikilvægt að Ísland taki sér sterkari stöðu í samstarfi Norðurlanda og verði leiðandi þar sem styrkleikar landsins liggja s.s. á sviði endurnýjanlegrar orku og jafnréttismála.

Aðgangur að mörkuðum er ein af grundvallarstoðum efnahagslegs sjálfstæðis landsins. Heimurinn er allur undir og því er fátt mikilvægara en að tryggja viðskiptahagsmuni landsins með þátttöku í alþjóðaviðskiptunum með hagfelldum viðskiptasamningum.

24 ár eru síðan EES samningurinn tók gildi. Fram fari óháð mat á því hvort halda skuli áfram þátttöku í EES samstarfinu og sækjast eftir breytingum á samningnum eða segja sig frá honum.

Nú þegar ber að segja upp tollasamning frá 2015 við Evrópusambandið þar sem samningurinn var gerður án samráðs við hagsmunaaðila og vegna breyttra forsendna.

Bretar, ein helsta einstaka viðskipta- og samstarfsþjóð Íslendinga hafa sagt sig úr Evrópusambandinu. Miðflokkurinn leggur áherslu á að ná góðum samningum við Breta í kjölfar BREXIT.

Utanríkisþjónusta Íslands gætir hagsmuna lands og þjóðar á erlendri grundu. Mikilvægt er að auka fjárframlög til þeirra verkefna til að gera utanríkisþjónustunni kleift að standa sem best vörð um hagsmuni landsins, s.s. með kynningu á landi, þjónustu og íslenskri framleiðslu.

Miðflokkurinn hafnar alfarið inngöngu Íslands í Evrópusambandið.

Miðflokkurinn telur mikilvægt að rækta vel og styrkja samstarf Íslands við Evrópuríki, ekki síst Norðurlöndin sem og að taka virkan þátt í evrópsku samstarfi. Aðild að Evrópusambandinu er ekki forsenda virkra samskipta og þátttöku í samstarfi við þjóðir Evrópu.

Málefni fólks af erlendum uppruna

Á Íslandi er hátt hlutfall fólks af erlendum uppruna. Stjórnvöld þurfa að tryggja að aðlögun þeirra að samfélaginu gangi sem best og koma í veg fyrir einangrun þeirra.

Sérstaklega þarf að huga að námi barna af erlendum uppruna og veita þeim menntun sem gerir þeim kleift að ná árangri í íslensku samfélagi. Sérstakt átak þarf að gera í íslenskunámi barna innflytjenda en einnig að gefa börnunum kost á menntun í móðurmáli sínu þegar því verður við komið. Styðja þarf börnin í gegnum öll skólastig og gefa þeim tækifæri til þess að þroskast og dafna í íslensku samfélagi.

Stefna Íslands í innflytjendamálum þarf að taka tillit til þróunarinnar í nágrannalöndunum, t.d. í Noregi.

Dyflinarreglugerðin verður áfram mikilvæg stoð í málefnum útlendinga.

Mikilvægt er að hraða til muna afgreiðslu hælisumsókna og leita leiða til að koma í veg fyrir tilhæfulausar umsóknir.

Nauðsynlegt er að endurskoða og bæta lög um útlendinga svo þau nái tilgangi sínum.

Aðstoð Íslands við flóttamenn á að byggja á þremur stoðum, beint hjálparstarf á hrjáðum svæðum, móttöku hópa flóttamanna í samvinnu við alþjóðlegar stofnanir á sviði flóttamannahjálpar og hraðri og mannúðlegri afgreiðslu umsókna þeirra sem leita hælis á Íslandi á eigin vegum. Höfuðáherslu skal leggja á beint hjálparstarf og fjárhagsaðstoð í löndum sem liggja nálægt stríðshrjáðum svæðum enda er þörfin mest á þeim svæðum skv. áliti flóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna.

Erlent vinnuafl gegnir mikilvægu hlutverki á mörgum sviðum íslensks samfélags. Tryggja skal að starfsfólk af erlendum uppruna njóti sömu kjara og aðbúnaðar og Íslendingar. Með því móti stöndum við bæði vörð um kjör erlends og innlends vinnuafls.

Breyta þarf regluverki svo sérfræðiþekking fólks af erlendum uppruna nýtist í auknum mæli á íslenskum vinnumarkaði.

Málefni eldri borgara

Lífeyrir tryggi lágmarkslaun. Forgangsröðun hjá ríkinu verður að fela í sér að þeim sem hafa lokið starfsævinni séu tryggðar tekjur sem standa undir sæmandi lífskjörum.

Mikilvægt er að afnema strax skerðingar á lífeyri undir 350.000 kr.  Áfram verði síðan dregið úr skerðingum og þær að lokum afnumdar. Þannig munu atvinnutekjur ekki skerða lífeyrisgreiðslur. Samfélaginu er einnig hagur að því að fá notið reynslu, þekkingar, verðmætasköpunar og skattgreiðslna eldri borgara sem vilja vinna lengur.

Komið verði á sveigjanlegum starfslokum, sem eru mikilvæg réttindi þeirra sem eru að enda starfsævina.

Mikilvægt er að eldri borgarar geti unnið lengur en til 67 ára hafi menn heilsu og áhuga á slíku án skerðingar lífeyristekna.

Fjölga þarf þjónustuíbúðum og hjúkrunarheimilum um land allt en einnig að gera fleirum kleift að búa lengur á heimilum sínum.

Gert verði sérstakt átak til að einstaklingar geti búið lengur heima með því að efla  lýðheilsuþætti, s.s. hreyfingu, mataræði.  Einnig með því að auka aðstoð og þjálfun við heimilishald.

Lífeyrisgreiðslur eru í eðli sínu fjármagnstekjur og þær skal skattleggja samkvæmt því. Sama skal eiga við um frístundaeignir eldri borgara sem þeir selja.

Mikilvægt er að koma í veg fyrir tvísköttun þeirra sem eiga lífeyrisréttindi erlendis.

Mikilvægt er að fjallað sé um málefni öryrkja og ellilífeyrisþega sem sitt hvorn málaflokkinn.

Fjölmiðlar

Miðflokkurinn telur mikilvægt að tryggja sem best að óháðir íslenskir fjölmiðlar fái þrifist þannig að þeir geti stundað hlutlausa, uppbyggjandi og gagnrýna fjölmiðlun. Besta leiðin til þess er að rekstur fjölmiðla sé tryggður er með því að jafna samkeppnisgrundvöll þeirra.

Miðflokkurinn telur mikilvægt að styrkja innlendan fjölmiðlamarkað með því að afnema virðisaukaskatt af starfsemi fjölmiðla.

Rás 1 verði rekin sem öryggis og menningarstöð og tryggt verði að útsendingar nái til landsins alls og landhelgi. Stöðin verði rekin fyrir fé frá Mennta- og menningarmálaráðuneyti og á ábyrgð ráðherra.  RÚV ohf. verði tekið af fjárlögum ríkisins og rekstur þess fjármagnaður með áskriftarsölu og á auglýsingamarkaði.

Stofnaður verði sérstakur samkeppnissjóður er hafi það hlutverk að fjármagna innlenda framleiðslu fræðslu, menningar- og skemmtiefnis fyrir fjölmiðla (útvarp, sjónvarp og dagblöð) Sjóðurinn fái á ári að lágmarki sama fé og RUV ohf. hafði til framleiðslu og/eða kaupa á innlendu dagskrárefni árið 2018.

 

Samþykkt á Landsþingi Miðflokksins 2018