Atvinnumöguleikar eldra fólks

Í síðustu viku stóð ég fyr­ir sér­stakri umræðu á Alþingi um at­vinnu­mögu­leika fólks eldra en 50 ára með þátt­töku fé­lags­málaráðherra.
 

Lang­tíma­at­vinnu­leysi al­geng­ara meðal þeirra eldri

Þeir þing­menn sem tóku þátt í umræðunni voru sam­mála um að hér væri um brýnt mál­efni að ræða. Þrátt fyr­ir að at­vinnu­leysi hafi ekki mælst hátt hér­lend­is á und­an­förn­um árum má finna sterk­ar vís­bend­ing­ar um lang­tíma­at­vinnu­leysi. Eldri ald­urs­hóp­ar meðal at­vinnu­lausra eru leng­ur at­vinnu­laus­ir en þeir yngri, eins og sést á heimasíðu Vinnu­mála­stofn­un­ar. Nýj­ustu töl­ur frá síðasta ári staðfesta þessa brota­löm gagn­vart eldra fólki á vinnu­markaði. Þetta á bæði við um kon­ur og karla og hið sama er upp á ten­ingn­um hvort sem horft er til höfuðborg­ar­svæðis­ins eða lands­byggðar­inn­ar, þannig að vanda­mál lang­tíma­at­vinnu­leys­is meðal eldra fólks er til staðar óháð báðum þess­um þátt­um.

Verðmæta­sóun

Hvað seg­ir þetta um vinnu­markaðinn? Rík­ir hér ald­ursmis­rétti á vinnu­markaði? Eru ís­lensk­ir at­vinnu­rek­end­ur haldn­ir ald­urs­for­dóm­um þegar kem­ur að því að ráða fólk í vinnu? Fólk sem miss­ir vinn­una um eða eft­ir fimm­tugt virðist eiga erfitt með að fá vinnu að nýju. Er þetta fólk úr leik hvað at­vinnuþátt­töku varðar? Erum við með fólk í gildru síðustu ár starfsævi þess? Margt fólk á þess­um aldri er vel menntað og það sem meira er, það hef­ur unnið sér inn dýr­mæta reynslu sem er eft­ir­sókn­ar­verð og ætti að nýt­ast vel. Þá hafa marg­ir vinnu­veit­end­ur þá reynslu af eldri starfs­mönn­um að þeir eru gjarn­an ábyggi­leg­asta starfs­fólk hvers vinnustaðar ef horft er til mæt­ing­ar og stund­vísi. Að vinnu­fúst fólk á þess­um aldri fái ekki at­vinnu er merki um mikla sóun í sam­fé­lag­inu. Hér er verið að kasta verðmæt­um á glæ og dýr­mæt reynsla nýt­ist ekki sem skyldi.
 

Lengri ævi og betri heilsa

Meðal­ald­ur hér á landi hef­ur hækkað um heil fimm ár frá því um miðjan ní­unda ára­tug síðustu ald­ar, um fjög­ur ár hjá kon­um og sex ár hjá körl­um. Þetta hef­ur leitt til þess að nú um stund­ir ræða menn af kappi um nauðsyn þess að hækka eft­ir­launa­ald­ur. Einnig er rætt um að gera eigi fólki kleift að vinna leng­ur en til sjö­tugs. Ríkið hef­ur í hendi sér að taka upp slíka reglu gagn­vart starfs­mönn­um hins op­in­bera.

Hverj­ar gætu lausn­irn­ar verið?

Hvað er til ráða? Ég tel að þeim sem aug­lýsa eft­ir starfs­fólki beri skylda til þess að svara öll­um þeim um­sókn­um sem ber­ast. Allt of marg­ir þeirra sem ég hef rætt þetta mál við kvarta yfir því að þeir séu ekki virt­ir viðlits. Einnig þyrftu at­vinnu­rek­end­ur að veita miðaldra fólki oft­ar mögu­leika á að sanna sig með því að boða það í viðtal. Þá fær eldra fólk tæki­færi til að sýna að það hef­ur ým­is­legt til brunns að bera, ekki síður en yngra fólkið. Gæti verið lausn að leggja ákveðnar skyld­ur á ríkið í þess­um efn­um, leggja á ald­urskvóta í anda kynja­kvóta eða ætt­um við að fella út kenni­töl­una í um­sókn­um til að hindra að þeim sé kastað í ruslið strax í upp­hafi? Væri lausn að nýta at­vinnu­leys­is­bæt­ur til greiðslu hluta launa við nýráðning­ar fólks á þess­um aldri til að hliðra til í þess­um efn­um?

Starfsþjálf­un, mennt­un og fræðsla

Auk­in fræðsla er auðvitað sjálfsagt mál, að auka hæfni þessa fólks og auðvelda því að bæta við sig mennt­un, en ekki síður þarf að auka þekk­ingu al­mennt í sam­fé­lag­inu á vinnu­færni eldri starfs­manna.

Á hverj­um brenn­ur?

Þátt­ur rík­is­ins hef­ur hér verið nefnd­ur í sam­bandi við op­in­bera vinnu­markaðinn og skyld­ur gagn­vart um­sækj­end­um um störf hjá því. En á verk­efna­sviði verka­lýðsfé­lag­anna ætti mál­efnið einnig að vera of­ar­lega til að bæta hag um­bjóðenda sinna í þess­um efn­um. Hér má einnig nefna að það mætti hugsa sér að at­vinnu­leys­is­bæt­ur yrðu í aukn­um mæli tengd­ar tíma­lengd greiðslu trygg­inga­gjalds vegna viðkom­andi starfs­manns.

Fyr­ir­spurn

Ég hef lagt fram fyr­ir­spurn til skrif­legs svars til fjár­málaráðherra um ald­ur þess fólks sem ráðið hef­ur verið til rík­is­ins á sein­ustu árum. Svar við þeirri fyr­ir­spurn gæti leitt í ljós hvernig ríkið stend­ur sig gagn­vart þeim hópi sem hér er til um­fjöll­un­ar.

Hug­ar­fars­breyt­ing nauðsyn­leg

Þing­menn voru sam­mála um að hér þyrfti hug­ar­fars­breyt­ingu til og svo sann­ar­lega þarf að taka umræðuna lengra um þetta þarfa mál­efni, sem ég veit að brenn­ur á mjög mörg­um úti í sam­fé­lag­inu. Að vera at­vinnu­laus um lengri tíma veld­ur viðkom­andi höfn­un­ar­til­finn­ingu, kvíða, þung­lyndi og end­ar á stund­um með ör­orku. Hér blas­ir við óæski­leg staða þessa hóps á vinnu­markaði sem sporna þarf við. Op­in­ber­ir aðilar sem oft eru stór­ir vinnu­veit­end­ur gætu tekið að sér að vera til fyr­ir­mynd­ar í þessu efni. Þeim ber að sýna gott for­dæmi enda fel­ast í því mikl­ir þjóðfé­lags­leg­ir hags­mun­ir að nýta starfs­krafta og reynslu eldra fólks.

 

Höf­und­ur:  Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokks­ins í Suður­kjör­dæmi.  kgauti@alt­hingi.is

Greinin birtist í Morgunblaðinu þann 3. október, 2019