Bændur standa vaktina

Samfélagið okkar er litað af COVID-19 og áskoranir þjóðfélagsins hrannast upp. Mikilvægi íslensks landbúnaðar sannar sig enn á ný, mikilvægi þess að þjóð lengst út í ballarhafi búi við fæðuöryggi. 

Íslenskur landbúnaður er allskonar og á bakvið landbúnaðinn standa allskonar bændur. Bændur sem eru í allskonar aðstæðum og í öllum veðrum allt árið í kring að sinna sínum búskap, að gera það sem þarf að gera. Íslenskur landbúnaður samanstendur af bændum um land allt sem eiga það sameiginlegt að takast á við hvern dag með því hugarfari og með það að leiðarljósi að gera sitt allra besta þann daginn, alveg sama hvað bjátar á.

Sterkur grunnur íslensks landbúnaðar er byggður fyrst og fremst á þrautseigju og dugnaði bænda í aldaraðir. Með einum eða öðrum hætti, þá munu bændur landsins, á morgun sem og ávallt áður, standa vaktina og tryggja matvælaframleiðslu landsins. Ljósin munu loga í sveitum landsins.

Njótum afrakstursins – veljum íslenskt

Ég vil hvetja bændur landsins að sýna ábyrgð og samstöðu í verki á þessum undarlegu tímum sem við stöndum frammi fyrir. Stöndum þétt saman er við mætum áskorunum morgundagsins.

 

Höfundur:  Heiðbrá Ólafsdóttir, lögfræðingur, kúabóndi og meðlimur í stjórn Miðflokksins í Rangárþingi

Greinin birtist í Bændablaðinu þann 19. mars, 2020

Email