Borgar-lína-sig?

Nokkuð harðar umræður urðu um sam­göngusátt­mála höfuðborg­ar­svæðis­ins á Alþingi í vik­unni, það var helst hin svo­kallaða Borg­ar­lína og áætlan­ir um hana sem þing­menn voru ósam­mála um. Kol­beinn Ótt­ars­son Proppé, þingmaður Vinstri grænna, fór fremst­ur í vörn­inni og Bryn­dís Har­alds­dótt­ir fylgdi með.

Auðvitað eru full­trú­ar sveit­ar­fé­laga eins og Mos­fells­bæj­ar, Garðabæj­ar, Hafn­ar­fjarðar og Kópa­vogs áhuga­sam­ir um fram­gang verk­efn­is­ins.  Kostnaður þeirra er hverf­andi og í staðinn fá þessi ná­granna­sveit­ar­fé­lög Reykja­vík­ur prýðileg­ar al­menn­ings­sam­göng­ur að Hlemmi.  Reikn­ing­ur­inn á rík­is­sjóð verður að lík­ind­um um 44 millj­arðar vegna Borg­ar­lín­unn­ar, en 105 millj­arðar vegna allra þátta sam­göngusátt­mál­ans.  Að því gefnu að kostnaðaráætlan­ir haldi.  Eins lík­legt og það er.

Hvað er Borg­ar­lína? Eru 200 þúsund manna sam­fé­lög, dreifð yfir jafn stórt svæði og Reykja­vík og ná­granna­sveit­ar­fé­lög­in, með borg­ar­línu?  Er skyn­sam­legt að verja fimm­tíu millj­örðum af al­manna­fé (fram­lag rík­is og sveit­ar­fé­laga) í þetta verk­efni á sama tíma og samn­ing­ur sem gerður var árið 2012 um stór­fram­kvæmda­stopp á höfuðborg­ar­svæðinu, og aukamillj­arð á ári í strætó virðist skila litlu sem engu? Er rétt­læt­an­legt að þvinga fram mark­mið Borg­ar­línu með því að þrengja að fjöl­skyldu­bíln­um, sem er þrátt fyr­ir allt sá sam­göngu­máti sem meiri­hluti íbúa höfuðborg­ar­svæðis­ins hef­ur valið?

Hluti vand­ans er hvernig Reykja­vík­ur­borg hef­ur með ákvörðunum sín­um í skipu­lags­mál­um haldið upp­bygg­ingu stofn­brauta­kerf­is höfuðborg­ar­svæðis­ins í gísl­ingu und­an­far­in kjör­tíma­bil. Í því sam­hengi skipta ákv­arðanir ná­granna­sveit­ar­fé­lag­anna sára­litlu.  Eng­in Sunda­braut, eng­in mis­læg gatna­mót, um­ferðargöt­ur þrengd­ar og dregið að inn­leiða nú­tíma ljós­a­stýr­ing­ar á gatna­kerf­inu (sem gæti minnkað þann tíma sem bíl­ar eru stopp á gatna­mót­um um 30-40%!!).  Allt með það að mark­miði að hægja á um­ferð fjöl­skyldu­bíls­ins, skapa um­ferðar­hnúta og valda pirr­ingi.  Reykja­vík­ur­borg hef­ur nýtt skipu­lags­valdið til að þrengja að um­ferð í stað þess að liðka fyr­ir henni.

Í fyrra, árið 2019, varð í fyrsta skipti síðan 2012 hækk­un á hlut­falli far­inna ferða með al­menn­ings­sam­göng­um úr 4% í 5%, ef það er raun­in nú, eft­ir óbreytt hlut­fall árum sam­an, að aukn­ing sé að verða á notk­un Strætó, er þá ekki rétt að hinkra aðeins við og sjá hvort sú þróun held­ur áfram? Ef mark­miðið er að 8% ferða verði far­in með al­menn­ings­sam­göng­um, eins og Bryn­dís Har­alds­dótt­ir hélt fram í vik­unni, þá verður því marki náð 2023 ef þróun síðasta árs held­ur áfram.  Ég er hrædd­ur um að svo verði ekki, en af hverju eru hörðustu stuðnings­menn svo­kallaðrar Borg­ar­línu svona mót­falln­ir því að láta á það reyna?

Það eru fáir vin­ir skatt­greiðenda í Borg­ar­línu­hópn­um.

 

Höf­und­ur: Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins

Pistillinn birtist í Morgunblaðinu þann 8. maí, 2020