Forgangsröðun í ríkis (heimilis) bókhaldinu

Ég hef lengi velt því fyrir mér hvernig forgangsröðun ríkisstjórnarinnar virkar, hvernig þau sem stjórna landinu hverju sinni ráðstafa þeim krónum og aurum sem til skiptanna eru. Það er auðvitað þannig með ríkisfjármálin eins og heimilisbókhaldið að það eru ákveðnar krónur til skiptanna og þegar þær krónur duga ekki fyrir fullum útgjöldum þá er tvennt í stöðunni.

Annarsvegar er það tekjuaukning, það er að auka álögur á heimilin og fyrirtækin með aukinni skattheimtu svo fjölga megi krónunum sem til skiptanna eru og hinsvegar að beita niðurskurðarhnífnum. Ég vil trúa því að allir séu að gera sitt allra besta við að setja fjármagnið á rétta staði í réttum stærðum og að forgangsröðunin sé skynsamleg en því miður virðist kerfið leka þar sem þessar krónur skreppa svo mikið saman á leið sinni í gegnum það.

Aukin framlög til heilbrigðismála – fara þau á rétta staði?

Árum eða áratugum saman hefur umræðan um heilbrigðiskerfið verið á eina leið, það sé fjársvelt svo um munar. Þrengt sé að á öllum sviðum svo sem geðheilbrigðisþjónustu og þjónustu við eldri borgara. Ríkisstjórninni er tíðrætt um að framlög séu að hækka milli ára en það er eins og hún átti sig ekki á því að þörfin eykst meira en framlögin og þannig heldur þjónustan áfram að skerðast og álagið á stéttina að aukast.

Fjárþörfin er langt umfram fjárframlögin þrátt fyrir „ríkulega“ hækkun milli ára. Eins er mikilvægt að átta sig á því að þegar málaflokkur sem þessi hefur verið fjársveltur svo árum og áratugum skiptir þá eru alltaf skerðingar á skerðingar ofan. Í skerðingum sem þessum er það helst mannauður og þekking sem tapast.

Dýrkeypt mistök við Hringbraut

Ákveðið var að halda uppbyggingu spítalans áfram á einum dýrarasta byggingarreit landsins með þar til gerðum óþægindum fyrir sjúklinga, starfsfólk og íbúa í kring. Í stað þess að fara með spítalann á svæði sem hefði verið hægt að byggja upp á hagkvæmari og betri hátt en ella. Hér virðist vanta mikið upp á framtíðarsýn þar sem þjóðin er að eldast og þörfin á þjónustu spítalanna eykst ár frá ári.

Fjárframlög til sjúkrahúsanna á Selfossi og Akranesi eru um og yfir 5 milljarðar á hvorn. Framlag ríkisins til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja (HSS) er innan við 3 milljarðar þar sem skurðstofunni var lokað fyrir hartnær 10 árum. Því er ekki sama þjónusta í boði fyrir íbúa í sveitarfélögunum í nágrenni höfuðborgarinnar, vestan og sunnan megin við borgina. Suðurnesjamenn hafa lengi barist fyrir því að fá aukið fjármagn inn á stofnunina þar sem framlögin hafa ekki verið í takt við fólksfjölgun og þjónustuþörf á svæðinu. Skoðaðir hafa verið möguleikarnir á því að opna skurðstofuna á ný í þeim tilgangi að létta á LSH en því verið hafnað. Ástæðan er sögð óhagkvæmni en þá spyrjum við Suðurnesjamenn óhagkvæmni hverra?

RÚV og almannavarnahlutverkið

Á öðrum stað í fjárlögunum er minnst á ríkisstofnunina RÚV og verður henni úthlutað um 5 milljörðum á árinu. RÚV verður á pari við spítalana á Akranesi og á Selfossi en langt umfram framlag til HSS, hvers vegna? Jú, því að RÚV hefur menningarlegt gildi og hefur líka almannavarnaskyldum að gegna þegar það á við. Svona svipuðum aðstæðum og gengu yfir okkur á dögunum þegar hvorki náðist sjónvarp né útvarp á sumum svæðum landsins. Þegar fólk beið frétta en ekki var hægt að flytja þeim fréttirnar því rafmagn og sendar lágu niðri, eina sem virkaði var gamla góða langbylgjan sem fyrirhugað er að leggja niður á árinu.

Í einni svipan var hugmyndafræði RÚV varpað fyrir borð þar sem einn af grundvallarþáttum þess virkaði ekki þegar mest á reyndi. Hvað er þá eftir, menningarlegi þátturinn? Ætli við getum ekki treyst því að einkareknir fjölmiðlar geti með jafngóðum hætti sinnt honum fái þeir fjármagn og tækifæri til.

Eins og dæmin sýna okkur þá eru til peningar, bara spurning í hvað þeir eru nýttir, hver forgangsröðunin er. Það er alltof víða sem illa er farið með almannafé.

 

Höfundur:   Hallfríður G. Hólmgrímsdóttir, bæjarfulltrúi Miðflokksins í Grindavík.

Greinin birtist í Morgunblaðinu þann 9. janúar, 2020