Fréttabréf Miðflokksins 20. mars, 2020

FRÉTTABRÉF MIÐFLOKKSINS  20. mars, 2020

 

SKRIFSTOFA MIÐFLOKKSINS
Hafnarstræti 20 (2. hæð), 101 Reykjavík
Sími 555-4007
OPNUNARTÍMAR
Vinsamlegast athugið að hefðbundinn opnunartími skrifstofu flokksins mun raskast næstu 4 vikur.
Við hvetjum flokksmenn til að vera í sambandi við skrifstofu Miðflokksins í gegnum netfangið midflokkurinn@midflokkurinn.is og/eða í síma 555-4007.  
Ef erindið krefst viðveru er öruggast að hringja á undan sér þar sem starfsmenn munu að hluta til vinna að heiman næstu 4 vikur.

 

 

Kæru félagar.

Fréttabréfið verður nú um sinn með örlítið öðru yfirbragði en vanalega þar sem öll fundarhöld liggja nú niðri vegna samkomubannsins.  Fréttir af þinginu eru þó enn á sínum stað og sama á við um greinar og pistla flokksmanna auk annara tilfallandi upplýsinga hverju sinni. 

Þessa dagana er enn mikilvægara en áður að halda í jákvæðnina, þakka fyrir það sem maður hefur og umfram allt að hlúa vel að okkur og okkar nánustu og sýna hvort öðru virðingu og kærleik.   Þetta eru erfiðir tímar en í sameiningu munum við komast í gegnum þetta og sjá bjartari tíma.

Við viljum minna á að ekki er viðvera starfsmanna á skrifstofu Miðflokksins þessa dagana en flokksmenn geta enn sem áður verið í sambandi við skrifstofuna í gengum netfangið midflokkurinn@midflokkurinn.is eða í síma 555-4007.  Við hvetjum flokksmenn einnig til að nota tæknina til að halda áframhaldandi góðu sambandi sín á milli og styðja við hvort annað.

Eins og fram hefur komið hefur Landsþingi Miðflokksins verið frestað fram á haustið en nákvæm dagsetning verður tilkynnt um leið og hún liggur fyrir.

 


FRÉTTIR AF ÞINGINU:


Í vikunni voru tveir þingfundardagar; á þriðjudaginn og í dag, föstudag.

Í vikunni voru óundirbúnar fyrirspurnir á báðum þingfundum og störf þingsins voru í dag.

Í óundirbúnum fyrirspurnartíma tóku Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Birgir Þórarinsson þátt.

Sigmundur Davíð spurði fjármála- og efnahagsráðherra um aðgerðir í efnahagsmálum.

Birgir Þórarinsson spurði dómsmálaráðherra um gjaldþrotalög og greiðslustöðvun. 

 

Í störfum þingsins tóku Karl Gauti Hjaltason, Gunnar Bragi Sveinsson og Þorsteinn Sæmundsson þátt.

Karl Gauti ræddi um félagslegar afleiðingar Covid-19, einmanaleikann og einangrunina sem margir finna til þessa dagana.

Gunnar Bragi ræddi um þær aðgerðir sem nú þarf að gera vegna Covid-19.

Þorsteinn ræddi um stöðuna í samfélaginu og þær ákvarðanir sem þarf að taka. 

 

Í vikunni var til 3. umræðu frumvarp til laga um breytingu á lögum um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, nr. 581998 (leyfisveitinga, málsmeðferð, endurupptaka o.fl.).

Anna Kolbrún Árnadóttir var með sérálit um frumvarpið.

Álitið má lesa hér. 

Þingmenn Miðflokksins tóku þátt í 3. umræðu, hér má sjá umræðuna í heild sinni. 

 

Á þingfundum bæði á þriðjudag og í dag voru mál á dagskrá sem eru til þess að bregðast við því ástandi sem uppi er núna.

Í vikunni voru til umræðu og samþykkt þrjú frumvörp:

Frumvarp til laga um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að sýna merki þess að vera sýktir.

Frumvarpið var samþykkt á Alþingi í dag.

 

Frumvarp til laga um breytingu á lögum um atvinnuleysistryggingar og lögum um Ábyrgðasjóð launa (minnkað starfshlutfall).

Frumvarpið var samþykkt á Alþingi í dag.

 

Frumvarp til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 138/2011 (neyðarástand í sveitarfélagi).

Frumvarpið var samþykkt á Alþingi á þriðjudaginn.

 

 


 GREINAR OG PISTLAR:


Grein eftir Vigdísi Hauksdóttur borgarfulltrúa Miðflokksins í Reykjavík.  Greinin birtist á visir.is þann 13. mars, 2020

Strætó og Sorpa


Grein eftir Heiðbrá Ólafsdóttur sem birtist á vef Bændablaðsins þann 19. mars, 2020.  Heiðbrá er lögfræðingur, kúabóndi og situr í stjórn Miðflokksins í Rangárþingi. 

Bændur standa vaktina


Pistill eftir Gunnar Braga Sveinsson þingmann Miðflokksins, sem birtist í Morgunblaðinu þann 20. mars, 2020

Tökum stórar ákvarðanir strax


Miðflokkurinn sendi í gær frá sér eftirfarandi tillögur og spurningar vegna núverandi stöðu heilbrigðis- og efnahagsmála.

Tillögurnar voru fyrst kynntar fyrir flokksmönnum í tölvupósti og voru svo í framhaldi sendar á fjölmiðla.

 

TILLÖGUR OG SPURNINGAR MIÐFLOKKSINS
VEGNA NÚVERANDI STÖÐU HEILBRIGÐIS- OG EFNAHAGSMÁLA

Í neyðarástandi er mikilvægt að stjórnvöldum sé veitt svigrúm til að bregðast við án þess að þurfa að verjast óhóflegri gagnrýni. Við slíkar aðstæður er þó ekki síður mikilvægt að hægt sé að koma á framfæri ábendingum og spyrja spurninga.
Miðflokkurinn telur að vandinn sem þjóðir heims standa nú frammi fyrir og sú þróun sem virðist vera fram undan kalli á umfangsmeiri aðgerðir ríkisins en nokkur dæmi eru um í seinni tíma sögu.
Því fyrr sem gripið er til aðgerða þeim mun meiri áhrif hafa þær. Það á bæði við um heilbrigðismálin og efnahagsmálin.
Við kynnum því tillögur Miðflokksins að viðbrögðum sem við teljum aðkallandi og spyrjum spurninga um álitamál sem mikilvægt er að taka afstöðu til nú þegar.
Við munum styðja stjórnvöld í öllum þeim aðgerðum sem eru til þess fallnar að ná stjórn á ástandinu sem nú ríkir og bregðast við með það að markmiði að verja íslenskt samfélag, fyrirtæki og heimili.
 

AÐKALLANDI EFNAHAGSTILLÖGUR

1.  Þau fyrirtæki sem verða fyrir verulegum áhrifum af ástandinu  eigi kost á lánveitingum frá ríkinu á lágum vöxtum í hlutfalli við veltu síðasta árs. Með því fá fyrirtækin stuðning í samræmi við tekjur og þá skatta sem þau hafa greitt. Þannig eru aðgerðirnar almennar og stuðningur nýtist þeim best sem hafa verið að byggja sig upp og greiða til samfélagsins.

 

2.  Tryggingagjald verði fellt niður til áramóta.

 

 3.  Ríkið veiti beinan fjárhagslegan stuðning við fyrirtæki, í hlutfalli við þann fjölda starfsmanna sem halda vinnu. Tekið verði tillit til tekna þannig  að fólki með meðallaun og hærri  verði ekki sagt upp í meira mæli en öðrum.

 

4.   Einyrkjar eigi rétt á greiðslum úr ríkissjóði til samræmis við stuðning við starfsfólk fyrirtækja.

 

5.  Sérstaklega verði stutt við íslenska matvælaframleiðslu með greiðslum til bænda og starfsumhverfi greinarinnar endurskoðað, nú þegar ríkjum leyfist að gera ráðstafanir til að verja eigin framleiðslu.

 

6.  Bankar undir forystu ríkisbankanna veiti fyrirtækjum og heimilum greiðsluskjól í að minnsta kosti 3 mánuði og það verði endurmetið ásamt vaxtastigi með tilliti til stöðunnar að tveimur mánuðum liðnum.

 

7.  Reglur um endurfjármögnun húsnæðislána verði einfaldaðar, m.a. varðandi greiðslumat, heimildir til að flytja lán og lánsform til að gefa fólki kost á að nýta sér lækkandi vexti og draga úr greiðslubyrði.

 

8.  Ríkið geri ráðstafanir til að geta tekið vísitölu neysluverðs úr sambandi reynist það nauðsynlegt vegna verðbólguskots.

 

9.  Ljóst er að ríkið mun þurfa að ráðast í umfangsmiklar framkvæmdir til að bregðast við ástandinu á næstu misserum m.a. með flýtingu samgönguverkefna, byggingu hjúkrunarheimila og uppbyggingu annarra innviða. Við höfum þegar lagt fram tillögur um það og munum kynna nýjar tillögur um næstu skref í þeim efnum.

 
ÚRRÆÐI OG SPURNINGAR VEGNA VIÐBRAGÐA VIÐ HEIMSFARALDRINUM
 

1.  Munu stjórnvöld líta í auknum mæli til þeirra aðgerða sem gripið hefur verið til í Asíu til að bregðast við smiti kórónaveirunnar í ljósi þess að til skamms tíma hafa þær reynst mun betur en í Evrópulöndum?

 

2.  Frá því um síðast liðna helgi hefur verið talið að um 1% landsmanna kunni að vera smitaðir af veirunni. Sé sú raunin er ljóst að nánast er öruggt að einhver sé smitaður í öllum stærri skólum og öðrum stórum vinnustöðum. Gera stjórnvöld ráð fyrir því að skólum verði lokað eins og í nágrannalöndunum? Hafa verið gerðar ráðstafanir til að gera fólki kleift að vera heima til að gæta barna sinna og til að gæta barna heilbrigðisstarfsfólks?

 

3.  Hefur verið gerð áætlun til að mæta stórauknu álagi á heilbrigðiskerfið hvað varðar mönnun og aðstöðu ef álagið eykst eins mikið og það hefur gert í Evrópulöndum þar sem smit eru orðin útbreiddari en á Íslandi?

 

4.  Kemur til greina að nýta hótel sem neyðarsjúkrahús á meðan faraldurinn gengur yfir og hafa verið gerðar og hafa slíkar neyðaraðgerðir verið undirbúnar?

 

5.  Hefur komið til skoðunar að bjóða framhalds- og háskólanemum að taka þátt í samfélagsverkefnum til að bregðast við þeirri stöðu sem nú er uppi á sviði heilbrigðis- og félagsþjónustu auk aðstoðar við eldri borgara. Mætti meta slíka vinnu til náms og eininga til að viðhalda námslánum og tekjum sem margir nemar sjá fram á að missa eins og staðan er núna?

 

6.  Hafa verið gerðar aðrar ráðstafanir en að ráðast í útboð til að kaupa fleiri öndunarvélar en það útboð sem nefnt hefur verið? Bresk stjórnvöld hafa tilkynnt að þau muni borga uppsett verð fyrir öndunarvélar, ekkert verð sé of hátt. Þau hafa jafnframt hvatt fyrirtæki með tækniþekkingu (m.a. JCB, Rolls Royce og Dyson) til að framleiða öndunarvélar.

 

Hér er linkur á tillögur Miðflokksins af heimasíðu flokksins sem hægt er að deila á facebook.

 


 

 

Netfang Miðflokksins er midflokkurinn@midflokkurinn.is
Fylgið okkur á samfélagsmiðlum og takið þátt í umræðunum:
Miðflokkurinn á facebook
Miðflokkurinn á Instagram
Miðflokkurinn á Twitter
Ritstjóri fréttabréfsins er Íris Kristína Óttarsdóttir
Vinsamlegast sendið ábendingar og/eða efni í fréttabréfið á netfangið iriso@althingi.is