Aðgerðir til stuðnings landbúnaði

Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins, tók til máls í óundirúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag og spurði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hvaða aðgerðir hann hyggst ráðast í til að bregðast við þeirri alvarlegu stöðu sem upp er komin í íslenskum landbúnaði.

"Staðan í landbúnaði er ekki góð og rekstrarforsendur í raun brostnar. Ástæðurnar eru nokkrar. Alvarlegar afleiðingar veirufaraldursins eru augljósar og hrun er í komu erlendra ferðamanna sem hefur haft mikil áhrif á neyslu á landbúnaðarvörum. Sóttvarnaaðgerðir stjórnvalda hafa einnig haft mikil áhrif. Aukinn innflutningur er á erlendum búvörum, tollframkvæmdir í ólestri og uppboð á tollkvótum er fyrirhugað. Aukinn innflutningur á búvörum hefur þrengt að íslenska markaðnum. Sala á kjöti alifugla, hrossa, svína, nautgripa og lamba hefur dregist saman um u.þ.b. 10% síðastliðna þrjá mánuði, frá því á sama tíma í fyrra, og miklar birgðir hafa safnast upp, t.d. í mjólkurpróteini.

Kjötbirgðir hrannast upp, bæði í búfé, á fæti hjá bændum, og í birgðageymslum sláturleyfishafa. Auk þess er fyrirséð að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti muni að öllu óbreyttu auglýsa tollkvóta vegna innflutnings á landbúnaðarvörum frá ríkjum Evrópusambandsins. Frumvarp um að eldra fyrirkomulag verði tekið upp tímabundið til eins árs dugir ekki til, það þyrfti að fresta útboði á tollkvótum í kjöt- og mjólkurvörum vegna ástandsins. Verði ekki gripið til ráðstafana til að koma í veg fyrir að meira kjöt komi inn á yfirfullan markað mun það leiða til hruns í verði á kjöti til framleiðenda og fjöldagjaldþrot blasir við.

Það er því mjög brýnt að stjórnvöld bregðist strax við vandanum ef ekki á illa að fara. Ég vil því spyrja hæstvirtan ráðherra: Hvaða aðgerðir hyggst hann ráðast í til að bregðast við þeirri alvarlegu stöðu sem upp er komin í íslenskum landbúnaði sem ég rakti hér?"

Upptöku úr þingsal og svar ráðherra má sjá hér