Hamfarir á Seyðisfirði - Hver eru áform ríkisstjórnarninnar um aðstoð?

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins tók til máls í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag og beindi fyrirspurn sinni að efnahags- og fjármálaráðherra.  Sigmundur spurði hvort ríkisstjórnin hafi áform um að bregðast við með aðstoð við íbúa Seyðisfjarðar vegna náttúruhafmaranna sem dundu á byggðalaginu í vikunni og nefndi hann sérstaklega aðstoð við hreinsun og áform um varnaraðgerðir til að koma í veg fyrir sams konar skriður á þessum slóðum. 

Upptöku af fyrirspurn Sigmundar Davíðs í þingsal og svar ráðherra má sjá hér.

Forseti. Ég spyr hæstvirtan fjármálaráðherra hvort ríkisstjórnin hafi áform um að bregðast við vegna skriðufalla á Seyðisfirði með aðstoð við íbúa byggðarlagsins, aðstoð við hreinsun eða ekki hvað síst áformum um varnaraðgerðir til að koma í veg fyrir sams konar skriður á sömu slóðum. Ég vek athygli hæstv. ráðherra á því að í fyrrasumar birti Veðurstofan uppfært hættumat fyrir akkúrat þetta svæði, Botnahlíðina, þar sem skriðurnar féllu, og varaði við því að þarna væru þykkari laus jarðlög en gert hefði verið ráð fyrir og þau gætu losnað og hvatti til að farið yrði í varnarframkvæmdir. Menn hafa nefnt þá leið að drena grunnvatn, draga það niður til að draga úr líkum á skriðuhættu. Auk þess er auðvitað saga rannsókna vegna ofanflóðavarna á Seyðisfirði mjög löng og sama má svo sem segja um fleiri byggðarlög. Það má þá fylgja með spurningunni hvort hæstv. ráðherra telji ekki tímabært að hraða framkvæmdum, láta þessa atburði verða okkur áminningu um að hraða framkvæmdum við slíkar varnir og jafnvel að þess sjáist þá einhver merki núna í lok fjárlagaumræðunnar því að ofanflóðasjóður hefur fjármagn til að ráðast í framkvæmdir og á þessum tímum er, eins og við höfum mikið rætt hér, tími til að ráðast í framkvæmdir.  Ég spyr hæstvirtan ráðherra: Hefur ríkisstjórnin uppi áform um að bregðast við vegna þessara náttúruhamfara og með hvaða hætti hyggst hún gera það?

Fjármálaráðherra sagðist líta á fyrirspurn formanns Miðflokksins sem hvatningu til að taka með ákveðnum hætti á þessu máli. 

Hér má sjá umfjöllun á Vísi um fyrirspurnina.