Afkomubrestur blasir við í landbúnaði

Sigurður Páll Jónsson, þingmaður Miðflokksins, tók í dag þátt í störfum þingsins og ræddi þá alvarlegu stöðu sem blasir við hjá bændum í byrgðasöfnun o.fl. vegna aukins innflutnings á búvörum, Covid-19 faraldursins og samdráttar í sölu á kjöti.

"Undanfarin misseri hefur orðið ljóst að afkomubrestur blasir við í landbúnaði. Aukinn innflutningur búvara hefur þrengt að mörkuðum. Covid-19 faraldurinn hefur aukið enn á þann vanda sem fyrir var. Nánar tiltekið má rekja það til hruns í fjölda ferðamanna og sóttvarnaaðgerða stjórnvalda. Þannig hefur sala á kjöti dregist saman um rúm 9% síðastliðna þrjá mánuði. Til viðbótar því hrannast nú upp kjötbirgðir bæði í búfé á fæti hjá bændum og í birgðageymslum sláturleyfishafa. Verði ekki gripið til ráðstafana til að koma í veg fyrir að meira kjöt komi inn á yfirfullan markað mun það leiða til hruns í verði á kjöti til framleiðenda.

Á síðastliðnum tveimur árum hafa orðið breytingar á sölu mjólkur og mjólkurvara. Breytingin sést á ójafnvægi í sölu á mjólkurpróteini annars vegar og mjólkurfitu hins vegar. Stærsti áhrifaþáttur þessa ójafnvægis er innflutningur á ostum. Þegar staða íslenskra bænda er borin saman við stöðu bænda í nágrannalöndum Íslands, einkum í Noregi og aðildarríkjum Evrópusambandsins, er ljóst að mjög mikill munur er þar til staðar. Þannig hafa stjórnvöld í þessum löndum og framkvæmdastjórn ESB mun meiri heimildir til að grípa til aðgerða vegna tímabundins ójafnvægis á markaði, auk þess sem gripið hefur verið til viðamikilla stuðningsaðgerða vegna Covid-19 faraldursins. Í Noregi eru bændur og afurðasölufyrirtæki með undanþágur frá samkeppnislögum. Í aðildarríkjum ESB hefur framkvæmdastjórn TESS umfangsmiklar heimildir til að grípa til aðgerða sem gera bændum, sem falla undir sameiginlegu landbúnaðarstefnuna, kleift að auka samstarf sín á milli. Frumvarp landbúnaðarráðherra um búvörulög, sem er á dagskrá í dag, er skref í rétta átt, en dugir ekki til í þeirri alvarlegu stöðu sem blasir við hjá bændum í birgðasöfnun og fleira."

Upptöku af ræðu Sigurðar Páls má sjá hér