Alexandersflugvöllur sem varaflugvöllur fyrir Keflavíkur-, Reykjavíkur-, og Egilsstaðaflugvelli

Sigurður Páll Jónsson, þingmaður Miðflokksins, mælti í dag fyrir þingsályktunartillögu sinni um Alexandersflugvöll sem varaflugvöll fyrir Keflavíkur-, Reykjavíkur-, Akureyrar- og Egilsstaðaflugvelli.

Í tillögunni er samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra falið að láta gera ítarlega athugun á kostum þess að gera Alexandersflugvöll á Sauðárkróki að varaflugvelli fyrir Keflavíkurflugvöll, Reykjavíkurflugvöll, Akureyrarflugvöll og Egilsstaðaflugvöll.

Ráðherra kynni Alþingi niðurstöður könnunarinnar eigi síðar en í maí 2021.

Alexandersflugvöllur er vel staðsettur þar sem aðflug er gott, fjörðurinn víður og lítið um hindranir. 

Flutningsmenn telja að verulegur ávinningur gæti verið að því að byggja Alexandersflugvöll upp sem varaflugvöll fyrir Reykjavík og Keflavík. Þá er augljóst að slíkur flugvöllur muni þjóna Akureyri og Egilsstöðum vel sem varaflugvöllur og tryggja og treysta þá mikilvægu starfsemi sem þar er rekin í sambandi við ferðaþjónustu og flug almennt.

Í ljósi þessa er því beint til ráðherra að ráðast í nauðsynlega undirbúningsvinnu og rannsóknir til að hægt sé að hrinda þessum hugmyndum í framkvæmd og er lagt til að ráðherra láti kanna kosti þess að gera Alexandersflugvöll á Sauðárkróki að varaflugvelli fyrir Keflavíkurflugvöll, Reykjavíkurflugvöll, Akureyrarflugvöll og Egilsstaðaflugvöll.  

Öryggi samgangna þarf að tryggja með sem bestum hætti, hvort sem um er að ræða samgöngur á jörðu, sjó eða í lofti. 

Þingsályktunartillöguna má lesa í heild sinni hér.

Flutningsræðu Sigurðar Páls og umræðuna um málið á Alþingi má sjá hér

Fyrri umræðu er nú lokið og gengur málið til síðari umræðu og umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis.

Flutningsmaður:  Sigurður Páll Jónsson

Meðflutningsmenn þingsályktunartillögunnar eru:  Anna Kolbrún Árnadóttir, Bergþór Ólason, Birgir Þórarinsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Karl Gauti Hjaltason, Ólafur Ísleifsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Þorsteinn Sæmundsson.