Atvinnuleysi og staða atvinnuleitenda - Ræða Ólafs Ísleifssonar

Eftirfarandi er ræða Ólafs Ísleifssonar í sérstakri umræðu um atvinnuleysi og stöðu atvinnuleitenda á Alþingi:

Herra forseti. Ég þakka umræðuna. Nú þegar birtir eftir veiruna þarf stefnu um endurreisn þjóðarbúsins til að uppræta atvinnuleysi og efla hagsæld landsmanna. Til að efla atvinnulífið og eyða böli atvinnuleysis blasir við að ráðast í fjárfestingarátak til að bæta innviði í landinu. Hér ræðir um vegakerfið, flugvelli, hafnir, brýr og fleiri slík vinnuaflsfrek verkefni. Hér eru uppi háar fjárhæðir til arðsamra verkefna.

Fjölmörg verkefni hafa setið á hakanum of lengi. Vegakerfið stenst ekki kröfur um burðargetu og öryggi. Treysta þarf flugvelli, vegi og hafnir. Fráveitu- og sorpmál eru víða í ólestri og ógna umhverfi og lýðheilsu. Stór verkefni bíða í orkuvinnslu og orkuflutningum. Hitaveitur og vatnsveitur þarfnast víða endurbóta. Það sama á við um skóla og sjúkrahús, dvalar- og hjúkrunarheimili fyrir aldraða. Á höfuðborgarsvæðinu þarf að styrkja stofnbrautir, koma upp mislægum gatnamótum, beita ljósastýringu og leggja Sundabraut.

Með fjárfestingum í innviðum er stuðlað að auknum lífsgæðum þjóðarinnar, samkeppnishæfni atvinnulífsins og hagvexti framtíðar. Nær 400 milljarða þarf að dómi þeirra sem best þekkja í atvinnulífinu til að koma hlutunum í viðunandi ástand í þessum efnum. Nú gefst tækifæri til að eyða atvinnuleysi, bæta innviði landsins og bæta lífskjör. Bein störf munu kalla á fjölda afleiddra starfa í margvíslegum greinum. Framkvæmdirnar munu leggja grunn að hagvexti á komandi tímum.

Til að fjármagna framkvæmdir má sjá fyrir sér að ríkið stofni félag sem nýtir þekkingu og hugvit. Slíkt félag gæti leitað til almennings og boðið lífeyrissjóðum vænlega kosti til að ávaxta ráðstöfunarfé til langs tíma. Verkefnin eru arðsöm og borga sig upp á tiltölulega skömmum tíma. Landinu yrði lyft í margvíslegu tilliti.

Ólafur Ísleifsson, þingmaður Miðflokksins

Upptöku af ræðu Ólafs í þingsal má sjá hér