Auðlindir og auðlindagjöld - Tillaga til þingsályktunar

Sigurður Páll Jónsson, þingmaður Miðflokksins, mælti í dag fyrir þingsályktunartillögu sinni um auðlindir og auðlindagjöld.

Með tillögunni ályktar Alþingi að fela fjármála- og efnahagsráðherra að skipa starfshóp sem:

     1.      Skili tillögum um hvort innheimta eigi afnotagjald fyrir nýtingu auðlinda og þá hvaða auðlinda
     2.      Leggi fram tillögu um aðferð við álagningu auðlindagjalds sem gæti gengið fyrir allar auðlindir og geri grein fyrir kostum og göllum mismunandi aðferða
     3.      Taki saman upplýsingar um hvernig gjaldtöku af auðlindanýtingu er háttað í nágrannaríkjum.

Starfshópurinn skili ráðherra tillögum eigi síðar en 1. maí 2021.

Auðlindir sem almennt er talað um sem auðlindir „þjóðarinnar“ geta verið af ýmsum toga, þ.e. auðlindir í sjó, í lofti eða á landi. Þekkt er að innheimt er veiðigjald í sjávarútvegi samkvæmt lögum um veiðigjald, nr. 145/2018, áður nr. 74/2012, og ríkir nokkur samstaða um álagningu þess þó að deilt sé um hversu hátt það eigi að vera.

Flutningsmenn telja ekki eðlilegt að auðlindagjald sé aðeins lagt á eina atvinnugrein. Mikilvægt er því að mótuð verði heildstæðari stefna enda hefur nýting auðlinda áhrif á umhverfið og brýnt er að tryggt verði að auðlindir séu nýttar á skynsamlegan og arðbæran hátt. Flutningsmenn vilja jafnframt minna á að fram hafa komið hugmyndir um stofnun stöðugleikasjóðs að fyrirmynd norska olíusjóðsins þar sem arður af auðlindum í ríkiseigu mundi renna allur eða að hluta í slíkan sjóð.

Lengi hafa verið uppi væntingar um að auðlindir landsins skili þjóðinni fjárhagslegum arði með einum eða öðrum hætti. Í gegnum tíðina hafa fyrirtæki í eigu ríkisins greitt arð í ríkissjóð og nægir þar að nefna Landsvirkjun.

Í álitsgerð Auðlindanefndar sem kom út árið 2000 kom fram að hún teldi gjaldtöku af nýtingu náttúruauðlinda styðjast við eftirfarandi rök: Í fyrsta lagi að standa undir þeim kostnaði sem hið opinbera hefði af rannsóknum á og eftirliti með nýtingu auðlindanna, í öðru lagi að tryggja þjóðinni sýnilega hlutdeild í þeim umframarði (auðlindarentu) sem nýting auðlinda í þjóðareign skapaði og í þriðja lagi væri um að ræða svokallaða leiðréttandi skatta og uppbætur (svokallaða græna skatta) til að tryggja hagkvæma nýtingu auðlindanna. Þær auðlindir sem nefndin tilgreindi í álitsgerð sinni voru nytjastofnar á Íslandsmiðum og auðlindir á eða undir sjávarbotni, vatnsafl, jarðhiti og námur, rafsegulbylgjur til fjarskipta og önnur umhverfisgæði.

Þingsályktunartillöguna má lesa í heild sinni hér. 

Tillagan gengur nú til síðari umræðu og til efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.

Flutningsræðu Sigurðar Páls á Alþingi í dag má sjá hér

Flutningsmaður: Sigurður Páll Jónsson

Meðflutningsmenn: Anna Kolbrún Árnadóttir, Bergþór Ólason, Birgir Þórarinsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Karl Gauti Hjaltason, Ólafur Ísleifsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Þorsteinn Sæmundsson.