Bætur vegna riðu í sauðfé

Bergþór Ólason beindi fyrirspurn um bætur vegna riðu í sauðfé til landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í vikunni.

"Virðulegur forseti. Ég vil við þetta tækifæri beina fyrirspurn til hæstv. landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra er snýr að þeim málum sem komið hafa upp undanfarin misseri og varða riðu á nokkrum fjölda sauðfjárbúa. Í október síðastliðinn, árið 2020, kom upp riða á nokkrum bæjum í Skagafirði, nánar tiltekið í Akrahreppi, og var skorið niður þar á mánuði síðan í nóvember. Nú er staðan enn sú að samningar við þessa bændur eru ófrágengnir. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann eigi fyrir mig fréttir af því hvernig sá undirbúningur gengur, því að nú í byrjun mars kom upp riða í Vatnsneshólfi í Húnaþingi vestra og skal engan undra að þeim bónda, sem sér fram á niðurskurð á fé sínu, hugnist ekki hversu mikill dráttur hefur orðið á samningagerð við bændur í Skagafirðinum. Nú er liðið á sjötta mánuð síðan sú staða var uppi þar.

Mig langar í þessu samhengi að spyrja hæstv. ráðherra um fjárhagsleg áhrif þeirra samninga sem hér um ræðir.

Í fyrsta lagi: Kemur til greina að mati ráðherra að framlengja tímabil afurða tjónsbóta? En tímabil tekjufalls heldur áfram lengur en sá tími sem afurðatjónsbætur ná yfir samkvæmt núgildandi reglum og er þar vísað í takmarkaða framleiðslugetu fyrst eftir að fé er tekið aftur.

Í öðru lagi: Kemur til greina að endurskoða það verð sem miðað er við til bóta þegar skorið er niður? Það liggur fyrir að þær bætur sem nú er miðað við duga ekki fyrir bændur til að koma upp nýjum bústofni."

Upptöku af fyrirspurn Bergþórs og svar ráðherra má sjá hér