Breyting á menntastefnu með tilliti til drengja

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, beindi fyrirspurn sinni um breytingu á menntastefnu með tilliti til drengja til mennta- og menningarmálaráðherra á Alþingi í dag.

Í ræðu sinni sagðist Þorsteinn hafa hlustað með athygli í gærkvöldi á viðtalið við menntamálaráðherra í sjónvarpi þar sem rætt var um vanda drengja í menntakerfinu og sú staðreynd að menntakerfið hentar ekki drengjum og að rúmlega 30% drengja lesa sér ekki til gagns eftir grunnskólaútskrift. 

"Það var á ráðherra að heyra að menntastefnan sem hún hefur lagt fram væri lykillinn að því að bæta þetta ástand. En í menntastefnunni er ekki minnst á að menntakerfið henti ekki drengjum. Það er ekki minnst á sérstakan vanda varðandi læsi drengja. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort hún hyggist breyta stefnunni í meðförum þingsins þannig að þessi atriði komist á dagskrá þar." 

Þorsteinn benti á að þeir sem hafa skilað inn umsögnum til allsherjar- og menntamálanefndar, þar sem hann á sæti, og gestir sem komið hafa á fund nefndarinnar hafa einmitt vakið máls á þessu sama vandamáli.

"Því hlýt ég að spyrja hvort það sé svo, ef lykillinn er í menntastefnunni, eins og ráðherra lét í skína í gærkvöldi, að hún ætli þá að breyta stefnunni þannig að það komi fram tillaga að breytingu í þessa átt. Eða var svar hennar í gærkvöldi einvörðungu til þess fallið að varpa ryki í augun á þeim sem spurði? Spyrjandinn var náttúrlega einn þarna og það var enginn þarna til andsvara, ef maður getur orðað það svo, þannig að umfjöllunin var nokkuð einhliða. Þess vegna held ég að það sé mjög brýnt að svar við þessu komi fram."

Upptöku af ræðu Þorsteins í þingsal og svar ráðherra má sjá hér