Efnahagslegar ráðstafanir vegna Covid-19

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson tók til máls í skýrslu fjármála- og efnahagsráðherra um efnahagslegar ráðstafanir vegna Covid-19.

Andsvar Sigmundar Davíðs við ráðherra má sjá hér 

Frú forseti. Eins og ég nefndi hér aðeins í andsvari áðan er það töluvert áhyggjuefni að í þessum faraldri skuli enn hafa aukist ójafnvægið milli lítilla fyrirtækja og þeirra stærri. Samkeppnisstaða minni fyrirtæki á Íslandi og raunar víðar skekkist stöðugt meira og faraldurinn hefur enn aukið á það. Stór alþjóðafyrirtæki sem sérhæfa sig til að mynda í netviðskiptum og póstsendingum hafa stækkað, verðmæti þeirra aukist, stórar skyndibitakeðjur hafa hagnast á ástandinu á meðan þeir sem eru að reyna að reka litla fjölskylduveitingastaði hafa tapað. Þetta kemur í framhaldi af stefnu þessarar ríkisstjórnar, eða þeirrar samsetningar sem var á henni á síðasta kjörtímabili, sem var öll meira og minna til þess fallin að skekkja samkeppnisstöðuna, að veikja stöðu þeirra minni með sífellt nýjum reglum, íþyngjandi reglum, sem stóru fyrirtækin geta hæglega tekist á við, jafnvel með heilar deildir til að gera það, en litlu fyrirtækin mun síður. Staðan er þá orðin sú að það er varla hægt að hefja rekstur á Íslandi, láta góða hugmynd verða að veruleika, nema að ráða til sín sérfræðinga bara til að fást við kerfið.
Það sem við sjáum nú í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar er framhald á þessu sama; áframhaldandi íþyngjandi reglur og reglugerðir sem munu enn skekkja samkeppnisstöðu hinna minni. Þetta er mikið áhyggjuefni vegna þess að ný verðmætasköpun og ný störf verða fyrst og fremst til hjá minni fyrirtækjum. Þegar þetta er sett í samhengi við þá stöðu sem við stöndum frammi fyrir nú, þar sem þarf að auka verðmætasköpun á Íslandi og þarf að spara peninga, greiða niður ríkisskuldir, eins og hæstv. fjármálaráðherra nefndi áðan, þá vinnur þessi þróun mjög gegn því, þ.e. tækifærum okkar til að fjölga störfum, auka verðmætasköpun. Það er því áhyggjuefni að á þeim tveimur árum sem liðin eru frá því að faraldurinn fór að setja verulega mark sitt á stjórnmálin hér og starfshætti ríkisstjórnarinnar skuli hún ekki hafa sýnt neina framtíðarsýn um það hvernig hún hyggst efla verðmætasköpun í landinu og styrkja stöðu minni fyrirtækja. Það er eiginlega þvert á móti, eins og ég nefndi áðan, bara verið að bæta í þessa skekkingu. Það er mikið áhyggjuefni.
Ég ræddi það líka stuttlega í andsvari hér áðan að um leið hafa stjórnvöld þanið út báknið, stækkað það. Hæstv. fjármálaráðherra nefndi reyndar á sínum tíma áður en faraldurinn hófst að sú þróun væri ekki áhyggjuefni vegna þess að landsframleiðsla hefði aukist þeim mun meira. Fyrir vikið hefði báknið ekki stækkað í hlutfalli við landsframleiðslu. En þegar skyndilega dró úr henni varð báknið stærra en nokkru sinni fyrr, sama til hvaða mælikvarða er litið. Nú höfum við séð það í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu ára að jafnvel þótt gert sé ráð fyrir hagvaxtarkippi eftir faraldurinn og auknum umsvifum í atvinnulífinu er engu að síður gert ráð fyrir viðvarandi hallarekstri ríkissjóðs. Þessi tvö ár hafa því ekki nýst ríkisstjórninni á nokkurn hátt til að undirbúa þær ráðstafanir sem stjórnvöldum ber við þessar aðstæður að grípa til til að vinna upp fyrri halla ríkissjóðs, greiða upp skuldir og auka verðmætasköpun.
Hæstv. ráðherra hefur gagnrýnt eigin ríkisstjórn fyrir skort á framtíðarsýn varðandi það hvernig skuli fengist við þennan faraldur, skort á einhverjum sviðsmyndum sem gætu gefið fyrirtækjunum, sérstaklega minni fyrirtækjunum, einhverja hugmynd um það hvers væri að vænta. Þetta er mjög eðlileg gagnrýni hæstv. ráðherra á eigin ríkisstjórn, enda kemur það á daginn að breytingar á sóttvörnum og það hvernig menn nálgast fyrirtækin varðandi stuðning og annað virðist vera mjög tilviljanakennt og markast kannski meira af almennri umræðu í samfélaginu en þeim tölum sem liggja fyrir hverju sinni.
Nú heyrðum við í dag, þann dag sem met var slegið í fjölda smita, að farið yrði í ákveðnar afléttingar, þó ekki varðandi tíu manna fjöldatakmarkanir. Og ég ítreka, frú forseti, fyrirspurn sem hæstv. ráðherra svaraði ekki hér áðan: Hversu margir sitja ríkisstjórnarfundi þegar er fullmannað á þeim fundum?

Umræðuna má sjá í heild sinni hér