Endurskoðun regluverks um starfsemi fjár­hagsupplýsingastofa

Ólafur Ísleifsson, þingmaður Miðflokksins, mælti í dag fyrir þingsályktunartillögu sinni um endurskoðun regluverks um starfsemi fjárhagsupplýsingastofa.

Með tillögunni er dómsmálaráðherra falið að skipa starfshóp sem taki til endurskoðunar lög og reglur sem gilda um starfrækslu fjárhagsupplýsingastofa og vinnslu upplýsinga sem varða fjárhagsmálefni og lánstraust einstaklinga og lögaðila í því skyni að miðla þeim til annarra. Starfshópurinn leggi sérstaka áherslu á réttarstöðu neytenda á fjármálamarkaði hvað varðar vinnslu slíkra upplýsinga og geri tillögur um úrbætur til að bæta stöðu neytenda á þessu sviði.

Dómsmálaráðherra skipi formann starfshópsins án tilnefningar en fjármála- og efnahagsráðherra, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, Hagsmunasamtök heimilanna og Neytendasamtökin tilnefni hvert sinn fulltrúa í starfshópinn. Starfshópurinn hafi samráð við Persónuvernd, Neytendastofu, Fjármálaeftirlitið, Samkeppniseftirlitið, önnur félagasamtök og stofnanir sem málefnið kann að snerta.  Starfshópurinn skili skýrslu með tillögum til ráðherra eigi síðar en 1. júní 2021. Ráðherra kynni Alþingi niðurstöður starfshópsins.

Þingsályktunartillaga þessi var lögð fram á 150. löggjafarþingi (599. mál) en hlaut ekki afgreiðslu. Tillagan er nú endurflutt með lítils háttar breytingum.  Tillagan gengur til síðari umræðu og til viðskipta- og efnahagsnefndar Alþingis.

Hér má lesa þingsályktunartillöguna í heild sinni

Flutningsmaður:  Ólafur Ísleifsson

Meðflutingsmenn:  Anna Kolbrún Árnadóttir, Bergþór Ólason, Birgir Þórarinsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Karl Gauti Hjaltason, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Sigurður Páll Jónsson, Þorsteinn Sæmundsson, Helgi Hrafn Gunnarsson.

Flutningsræðu Ólafs í þingsal má sjá hér