Málefni SÁÁ

Sigurður Páll Jónsson, þingmaður Miðflokksins, tók í dag til máls í óundibúnum fyrirspurnum.  Sigurður ræddi um að fjármuni vanti til að reka sjúkrahúsið Vog og SÁÁ og spurði heilbrigðisráðherra hvort ekki sé kominn tími til að ná samningum með SÁÁ þannig að hægt sé að reka þessa mikilvægu heilbrigðisþjónustu með stolti.

Það er alltaf afar ánægjulegt og gleðilegt að sjá og finna þegar þjóðin stendur saman í góðum málefnum. Hægt væri að nefna mörg tilefni í því sambandi, tengt íþróttum og öðru slíku, þar sem þjóðarstoltið tekst á loft, hjá mér og mörgum öðrum. Slík tilfinning tók sig upp þegar ég horfði á sjónvarpið á laugardagskvöldið. Verið var að safna fé með símhringingum til fjáröflunar fyrir sjúkrahúsið Vog eða SÁÁ. Það söfnuðust um 42 milljónir og var það afar ánægjulegt. Tilefni þessarar söfnunar er í sjálfu sér ekki eins ánægjulegt. Hún var haldin vegna þess að það vantar pening til að reka þessa stofnun. Undanfarin ár hefur álfasalan svokallaða, afrakstur hennar, verið notuð til þess að reka þetta félag eins og það er rekið í dag þó að biðlistarnir hafi ekkert styst við það, þetta er bara svona til þess að geta rekið þetta á þeim grunni sem gert er í dag. En nú hefur álfasalan ekki verið í gangi vegna Covid og þá var gripið til þessa ráðs sem var afar ánægjulegt.
Sú spurning kemur upp í mínum huga, og ég beini henni til hæstvirts heilbrigðisráðherra, hvort ekki sé kominn tími til að stjórnvöld nái samningum og setjist niður með starfsfólki SÁÁ og jafnvel fleiri meðferðargeirum, vegna þess að SÁÁ er ekki eina stöðin þó að hún hafi fyrst og fremst verið undir í þessu tilfelli, og nái niðurstöðu þannig að hægt sé að reka þessa sjálfsögðu heilbrigðisþjónustu með stolti.

Sigurður Páll minnti ráðherran á þingsályktunartillögu sína þar sem í greinargerð kemur fram að 1997 var brugðist við vaxandi biðlista með áætlunargerð og þar náðist að stytta biðlista alveg niður í nánast núll árið 2000. Síðan hefur þetta gengið til baka þannig að svona vinna er nauðsynleg til að ná árangri.  Þingsályktunartillögu Sigurðar Páls um greiðara aðgengi að meðferðarúrræðum á Sjúkrahúsinu Vogi má sjá hér.

Upptöku úr þingsal og svar heilbrigðisráðherra má sjá hér