Breiðafjarðarferjan Baldur

Sigurður Páll Jónsson, þingmaður Miðflokksins, tók til máls í Stöfum þingsins á Alþingi í dag og ræddi um Breiðafjarðarferjuna Baldur.  Sigurður Páll benti á að búið sé að vera mikið ákall að fjölga ferðum með Breiðafjarðarferjunni Baldri og að undirbúa þurfi kaup á stærri ferju.

"Þann 19. nóvember í haust sendi ég fyrirspurn til samgönguráðuneytis um hver kostnaðurinn yrði við að fjölga ferðum með Breiðafjarðarferjunni Baldri í tvær ferðir á dag frá 1. september til 31. maí. Ferðirnar í dag eru átta á viku, tvær ferðir á mánudögum og föstudögum til að mæta aukinni þörf á flutningum vegna fiskeldisins á sunnanverðum Vestfjörðum. Ég fékk svar 10. desember um að kostnaðaraukinn af þessari fjölgun ferða nemi um 208 millj. kr. á vetri sé miðað við viðkomu í Flatey, en tæpum 198 milljónum án viðkomu í Flatey.

Ég fékk símhringingu í gær þar sem var verið að reyna að fá eina aukaferð í dag, miðvikudag, vegna þess að annars þyrftu níu 40 tonna trukkar að keyra vestur um ónýta vegi í Gufudalssveit, með tilheyrandi skemmdum á vegum af álagi. Um miðnætti barst tilkynning um að það væri búið að redda aukaferð í dag þannig að megnið af þessum trukkum komst með ferjunni yfir fjörðinn.

Það er búið að vera mikið ákall um það undanfarið að fjölga ferðum með Baldri strax og taka til gagngerrar skoðunar kaup á nýrri ferju sem tæki a.m.k. tíu trukka. Við verðum að vinna hratt í þessum efnum vegna þess að vegirnir, eins og kemur fram, eru ónýtir þarna í Gufudalssveit. Einhvern tímann í framtíðinni mun það lagast en það er ekki næstu árin þannig að á þessu verður að taka strax. Með fjölgun ferða væri hægt að gera það strax á morgun."

Upptöku úr þingsal má sjá hér