Upplýsingaóreiða varðandi sóttvarnarráðstafanir af hálfu stjórnvalda

Karl Gauti Hjaltason tók þátt í störfum þingsins á Alþingi í dag og ræddi um upplýsingaóreiðuna hér á landi varðandi sóttvarnarráðstafanir af hálfu stjórnvalda.

"Nú berast fréttir af því að dönsk stjórnvöld hyggist á næstu dögum gefa út hvernig þau hyggjast aflétta sóttvarnaráðstöfunum og setja þar fram ákveðnar tímasetningar. Á meðan má þing og þjóð hér á landi búa við upplýsingaóreiðu af hálfu stjórnvalda hvað þetta varðar. Bæði hæstv. forsætisráðherra og hæstv. heilbrigðisráðherra hafa marglýst því yfir að búið verði að bólusetja þorra þjóðarinnar fyrir mitt árið; reyndar er nú undanfarið farið að tala um meiri hluta þjóðarinnar. Við hljótum að geta gert kröfu um að ráðamenn tali skýrt um á hvaða forsendum þessar yfirlýsingar hafa verið gefnar.

Það skiptir máli, herra forseti. Það skiptir máli fyrir atvinnurekendur svo að þeir geti skipulagt þá uppbyggingu sem fram undan er. Það skiptir máli fyrir atvinnulífið sem er að hluta til fast í öndunarvél sóttvarnaráðstafana. Það skiptir mestu máli fyrir ferðaþjónustuna. Það skiptir máli út frá heilsufarslegu sjónarmiði og það skiptir máli að stjórnvöld slái á þá upplýsingaóreiðu sem þau hafa skapað í þessu máli.

Herra forseti. Eyða verður sem mestri óvissu í þessum efnum. Stjórnvöld verða þannig að upplýsa, nú þegar bóluefni frá Janssen hefur fengið markaðsleyfi í Evrópu, hvenær vænta megi afhendingar þess hingað, en þar er um stórinnkaup að ræða. Rétt eins og stjórnvöld í Danmörku hafa boðað verða stjórnvöld hér að setja skýra stefnu um hvaða mark þau hyggjast miða við hvað varðar framvindu bólusetninga og setja í samhengi við afléttingu sóttvarnaráðstafana. Atvinnulífið bíður eftir skýrri stefnu í þessum efnum."

Upptöku af ræðu Karls Gauta úr þingsal má sjá hér