Eigum við að taka þessa áhættu?

Karl Gauti Hjaltason, þingmaður Miðflokksins, ræddi um frumvarp heilbrigðisráðherra um lögleiðslu á neyslu fíkniefna, í störfum þingsins í dag:

Herra forseti. Í gær var á dagskrá þingsins nýtt frumvarp hæstvirts heilbrigðisráðherra um að lögleiða neyslu fíkniefna. Lögleiðing fíkniefnaneyslu hefur samhliða fengið nýtt heiti og nú kallast það afglæpavæðing. Ef við erum að ræða um unga fólkið leikur enginn vafi á því að alvarlegasti vandinn sem steðjar að þeim hópi er fíkniefnaneysla. Stjórnlaus fíkn í þessi efni hefur vægast sagt skaðleg áhrif á mjög marga; neytendur, fíkla og ekki síður alla aðstandendur. Í störfum mínum til áratuga með löggæslunni varð ég áþreifanlega var við þetta, örvæntinguna, vonleysið og bjargarleysið, og sú barátta var oft og tíðum upp á líf og dauða. Allt of margir falla í þeirri baráttu.
Frumvarp hæstvirts heilbrigðisráðherra gengur efnislega út á að heimila kaup og vörslu fíkniefna. Frumvarpið sem slíkt stendur hins vegar berstrípað. Því fylgja engar hliðaraðgerðir, eins og títt er meðal þeirra þjóða sem farið hafa þessa leið, engar aðgerðir á sviði heilbrigðismála, meðferðarmála eða löggæslumála. Hér er því um illa undirbúið og vanhugsað frumvarp að ræða, herra forseti. Er einhver viti firrtur meiri hluti hér í þinginu fyrir þessu frumvarpi?
Lögreglan má búast við því að neytendur veifi efnunum framan í hana. Sölumenn munu felast innan um neytendur og lögreglan getur ekkert gert. Enginn mun fagna þessu frumvarpi meira en sölumenn dauðans. Neytendur fá ekki samhliða bættari meðferðarúrræði, ráðgjöf og mál þeirra fara ekki í neinn sérstakan farveg til að taka á vandamálinu. Svo tala talsmenn frumvarpsins með sólgleraugun uppi um að þetta sé leiðin sem aðrir séu að fara. En svo er ekki, herra forseti. Það er rangt. Það er bara eitt orð yfir þetta: Auglýsingamennska. Hver hefur reynsla annarra þjóða verið? Í Portúgal jókst neysla unglinga á fíkniefnum öðrum en kannabis þrefalt á 20 árum frá 1995. Sömu sögu er að segja í Hollandi. Hlutfall ungmenna sem höfðu prófað kannabis þrefaldaðist á rúmlega tíu árum. En á Íslandi er hún einmitt þrefalt minni en í Hollandi. Eigum við að taka þessa áhættu, herra forseti?

ræðu Karls Gauta í þingsal má sjá hér