Er samgöngusáttmálinn í uppnámi?

Bergþór Ólason, alþingismaður, tók til máls undir liðnum óundirbúnar fyrirspurnir á Alþingi í dag og beindi fyrirspurn sinni um framvindu samgöngusáttmálans til efnahags- og fjármálaráðherra:

Mig langar við þetta tækifæri að spyrja hæstv. fjármálaráðherra út í framvindu svokallaðs samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins og opinbers hlutafélags í tengslum við þann samgöngusáttmála sem samþykkt var að stofna hér á síðasta þingi og hefur nú verið stofnað. Í framhaldsnefndaráliti sem gefið var út í tengslum við samþykkt laga um opinbert hlutafélag segir, með leyfi forseta:
„Nauðsynlegt er að hafa það í huga að heildarsamkomulagið verður því að ganga upp til að markmið samkomulagsins náist.“
Með þessu var verið að reyna að ramma það inn að ekki væri hægt að velja ákveðin tiltekin atriði í samgöngusáttmálanum og veita þeim framgang en þvælast fyrir öðrum, heildarsýnin yrði að ganga upp. Nú hafa borist fréttir af því að búið sé að slá af mislæg gatnamót á mótum Bústaðavegar og Reykjanesbrautar og nú síðast bárust fréttir af því að búið væri að slá af mislæg gatnamót á Arnarnesvegi. Fréttir bárust um það nú á síðustu dögum. Í því samhengi hafa komið fram sjónarmið um að samgöngusáttmálinn sé í uppnámi og hæstv. fjármálaráðherra talaði á þeim nótum hér, í umræðum fyrir ekki löngu, að auðvitað yrði að horfa til þess að sáttmálinn gengi upp í heild sinni og menn væru ekki að velja úr áhugaatriði hvers og eins sveitarfélags heldur næðist markmiðið um þessa heildarsýn fram.
Mig langar í því samhengi að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann meti það sem svo að í þessu ljósi gæti verið komin upp sú staða að samgöngusáttmálinn sé einmitt í uppnámi og ef ekki, hvað þurfi þá að ganga á, hvað það varðar, til að tiltekin atriði, sérstaklega er snúa að stofnvegauppbyggingu, nái ekki fram að ganga.

Ræðu Bergþórs og svar ráðherra má sjá hér