Ferjan Baldur á Breiðafirði

Sigurður Páll Jónsson tók til máls í störfum þingsins á Alþingi í dag og ræddi um ferjuna Baldur á Breiðafirði.

"Hæstvirtur forseti. Svo má brýna deigt járn að bíti, stendur á góðum stað. Ég ætla að vera þriðji þingmaðurinn í þessum ræðutíma til að tala um ferjuna Baldur á Breiðafirði, sem er nú biluð úti á sjó og er um að ræða alvarlega bilun í þriðja skiptið á þremur árum. Ég talaði um Baldur hér í ræðupúlti 17. janúar sl. og nefndi þá áhyggjur mínar af ástandi þessarar leiðar og talaði líka um að fjölga ferðum, sem reyndar hefur verið gert til að mæta brýnni þörf fyrir flutninga á vörubílum yfir fjörðinn. En núna er Baldur úti á sjó, bilaður, og það er verið að undirbúa að draga hann í land. Hann er búinn að vera á reki frá því í gærdag.

Þetta er 44 ára gamalt skip með eina aðalvél sem í raun og veru er bannað að vera með í svona ferjum; hann er á undanþágum með þennan búnað. Það fást ekki varahlutir í þessa vél með góðu móti og þetta er mjög bagalegt ástand.

Ég brýni fyrir stjórnvöldum, samgönguráðherra, Vegagerð og rekstraraðilum, að setjast núna niður og undirbúa kaup á nýrri ferju og það strax. Það er ekki hægt að una við þetta lengur. Núna er, eins og kom fram í ræðum áðan, Klettshálsinn ófær. Við vitum hvernig Gufudalssveitin er og við vitum hvert álagið er út af aukinni matarframleiðslu, laxeldi og fiskveiðum fyrir vestan og farþegar sjá sér kannski ekki fært að fara að ferðast með skipi sem bilar úti á miðjum sjó. Það er stórhættulegt mál að vera með slíkt skip í ferðum."

Upptöku af ræðu Sigurðar Páls í þingsal má sjá hér