"Auknum fjárveitingum þurfa að fylgja skýr og mælanleg markmið"

Birgir Þórarinsson þingmaður og fulltrúi Miðflokksins í Fjárlaganefnd Alþingis:

 

"því miður er almennt skortur á því í fjárlagafrumvarpinu að auknum fjárveitingum fylgi skýr og mælanleg markmið um fjölgun starfa sem er meginverkefnið sem við stöndum frammi fyrir. Arðbærar fjárfestingar ríkissjóðs í þessu árferði eru afar mikilvægar. Þær þurfa að vera meiri en kveðið er á um í þessu frumvarpi. Og ef ekki núna þá hvenær?"

 

Flutningsræða Birgis Þórarinssonar þann 5. október í umræðu um Fjárlög 2021:

Herra forseti.

Í fjárlagafrumvarpinu, sem við ræðum hér og er sett fram við erfiðar aðstæður í efnahagslífinu, kemur fram að tekjur og gjöld verða nánast þau sömu og áætlað er að þau verði í ár. Það mun þýða að skuldsetning ríkisins mun aukast verulega á skömmum tíma og halli ríkissjóðs á árunum 2020 og 2021 sá mesti í Íslandssögunni. Hér er því um verulega erfiðar aðstæður að ræða í efnahagslífinu og mikilvægt að vel til takist af hálfu ríkissjóðs að reyna að milda þá erfiðleika sem eru hér til staðar með öllum tiltækum ráðum. Hallinn sem átti að verða 10 milljarðar á þessu ári verður rúmir 269 milljarðar. Á næsta ári verður staðan sú sama, halli upp á 264 milljarða. Á tveimur árum verður því hallinn rúmir 533 milljarðar kr. Þegar bankahrunið varð árið 2008 var hallinn 194 milljarðar. Við erum því komin í verri stöðu hvað skuldir varðar en í bankahruninu. Þessi staða felur í sér mikla erfiðleika fyrir hluta þjóðarinnar, sérstaklega þá sem hafa misst vinnuna og eru að missa hana. Tölur um atvinnuleysi fara hækkandi og sömuleiðis spár um atvinnuleysi og spárnar hafa versnað bara núna á skömmum tíma. Vinnumálastofnun hefur hækkað spá sína um þróun atvinnuleysis og Samtök atvinnurekenda spá því að allt að 30.000 manns geti verið án atvinnu um áramótin.

Þetta er að sjálfsögðu mjög alvarlegt, herra forseti, en því miður er almennt skortur á því í fjárlagafrumvarpinu að auknum fjárveitingum fylgi skýr og mælanleg markmið um fjölgun starfa sem er meginverkefnið sem við stöndum frammi fyrir. Arðbærar fjárfestingar ríkissjóðs í þessu árferði eru afar mikilvægar. Þær þurfa að vera meiri en kveðið er á um í þessu frumvarpi. Og ef ekki núna þá hvenær?

Ástandið í atvinnumálum er sérstaklega slæmt á Suðurnesjum, ég vil koma því hér að. Atvinnuleysið er rétt um 20% í Reykjanesbæ. Það er ákaflega dapurlegt að ekki skuli hafa orðið af milljarða framkvæmdum í Helguvík á vegum Atlantshafsbandalagsins vegna ósættis í ríkisstjórninni, eðlilegar viðhaldsframkvæmdir sem koma síðan að borgaralegum notum og eru samkvæmt skuldbindingum okkar gagnvart NATO og bandalagsþjóðum. Hér er enn eitt dæmið um það hvernig Sjálfstæðisflokkurinn beygir sig í duftið fyrir hugmyndafræði Vinstri grænna í þessum málaflokki.

Til þess að takast á við vandann sem við blasir í efnahagsmálum á ekki og stendur ekki til að hækka skatta og það er skynsamleg leið. Það á heldur ekki að ráðast í niðurskurð, og ég kem nánar að því hér á eftir, heldur á að taka lán til að komast í gegnum mikla efnahagserfiðleika sem allir vona að verði skammvinnir. Hagstofan spáir 3,9% hagvexti strax á næsta ári. Vonandi gengur það eftir. Það er ákaflega mikilvægt að það gangi eftir en það er hins vegar mikilli óvissu háð, t.d. því að bóluefni við veirunni verði komið á markað og ferðamenn fari að koma hingað aftur til landsins og hjólin fari aftur að snúast með eðlilegum hætti í efnahagslífinu. En ég hef töluverðar áhyggjur af því að þessi hagvaxtarspá gangi ekki fyllilega eftir, ekki síst í ljósi þessa sem skall hressilega á okkur núna, þessi auknu smit.

Bein efnahagsleg áhrif faraldursins gera það að verkum að afkoma ríkissjóðs versnar um 192 milljarða kr. Þar vegur samdráttur skatttekna vegna minni umsvifa mest en hann er áætlaður um 89 milljarðar kr. Þrátt fyrir töluverða breytingu á spám um hagvöxt fyrir næsta ár er spá um atvinnuleysi á næsta ári sú sama og í uppfærðri fjármálastefnu eða um 6,7%. Hins vegar eru töluverðar líkur á því að atvinnuleysi gæti orðið hærra á næsta ári ef hagvaxtarhorfur hafa versnað og spár um hagvöxt ganga ekki fyllilega eftir. Nú liggja fyrir dekkri spár um atvinnuleysi. Þar af leiðandi er mjög líklegt að um sé að ræða vanmat í útgjöldum til atvinnuleysisbóta í frumvarpinu og þær gætu farið yfir 100 milljarða á næstu tveimur árum. Það er því ákaflega mikilvægt, herra forseti, að efla sköpun starfa. Ríkisstjórnin verður að hafa trúverðuga stefnu hvað þetta varðar. Hlutverk ríkisins er mjög mikilvægt.

Ég vil víkja aðeins frekar að skuldasöfnun ríkisins. Þótt hún sé skásti kosturinn í stöðunni við þessar erfiðu aðstæður í efnahagsmálum þá er skuldasöfnun engu að síður mikið áhyggjuefni. Samkvæmt fjármálaáætlun sem við ræðum hér á morgun koma skuldir ekki til með að hætta að hækka fyrr en árið 2025 sem hlutfall af landsframleiðslu. Sú hætta er fyrir hendi að skuldahlutfall ríkisins og sveitarfélaga verði komið í 65% af landsframleiðslu á þeim tímapunkti ef ekki yrði gripið til ráðstafana. Það er gríðarleg breyting til hins verra á skömmum tíma. Hér skiptir því öllu að örva hagvöxt. Það er langur tími og áhyggjuefni að það skuli taka fimm ár að ná jafnvægi í ríkisfjármálum.

Svo ég víki aðeins aftur að fjármálaáætlun — það er nauðsynlegt í tengslum við þessa umræðu hér þó að við förum vandlega yfir hana á morgun — þá gerir hún ráð fyrir því að afkoma ríkissjóðs verði neikvæð um 264 milljarða á næsta ári og um 800 milljarða árunum 2021–2025. Útlit er fyrir að skuldir ríkissjóðs hækki í 1.250 milljarða í lok þessa árs og verði 430 milljörðum hærri en gert var ráð fyrir í fjárlögum. Verði óvissusvigrúmið nýtt að fullu eins og heimildir eru til samkvæmt nýrri fjármálastefnu verða skuldir A-hluta ríkissjóðs komnar yfir 2.000 milljarða í lok árs 2022. Þetta eru náttúrlega fordæmalausar tölur sem við höfum aldrei séð áður, herra forseti. Þess vegna er afar brýnt að vel takist til í fjárlagavinnunni sem er lykillinn að því að ríkisvaldið komi inn með myndarlegum hætti til að reyna að draga úr þessu miklu höggi sem við höfum öll orðið fyrir í efnahagsmálum.

Á næsta ári er gert ráð því að skuldirnar geti aukist um 268 milljarða og verði komnar yfir 1.500 milljarða í lok ársins eða í rúmt 41% af landsframleiðslu. Lágt vaxtastig og greiður aðgangur að lánsfé fyrir ríkissjóð á hagstæðum vöxtum er vissulega jákvætt hvað þetta varðar en það verður ekki þannig um ókomna framtíð. Vextir koma til með að hækka á ný, innan ekki svo langs tíma, og fjármagnskostnaður ríkissjóðs að hækka.

Hæstv. fjármálaráðherra nefndi það í framsöguræðu sinni að það hafi verið mikilvægt að búa í haginn og greiða niður skuldir á undanförnum árum. Það er rétt að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar varðaði veginn þar. Hins vegar ríkti þenslustefna hjá nýrri ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur nánast alveg þar til að menn vöknuðu af vondum draumi samdráttar í ferðaþjónustu. Það liggur hvorki fyrir í fjárlagafrumvarpinu né er þess getið í fjármálaáætlun hvaða árangri aðgerðapakkar ríkisstjórnarinnar hafa skilað vegna veirufaraldursins upp á tugi milljarða þrátt fyrir að lög um opinber fjármál kveði á um að meta beri árangur af aðgerðum sem þessum. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar einkenndust um margt af örvæntingu og voru ekki nægilega vel undirbúnar eins og við sáum svo glögglega þegar stöndug fyrirtæki fóru að nýta sér úrræðin eins og hlutabótaleiðina án þess að þurfa á þeim að halda. Hér var undirbúningur aðgerðanna einfaldlega ófullnægjandi og höfum í huga að ríkissjóður er sameiginlegur sjóður okkar allra. Að misnota hann kemur alltaf í bakið á mönnum með einum eða öðrum hætti.

Almennt er skortur á því í frumvarpinu að auknum fjárveitingum fylgi skýr og mælanleg markmið, t.d. um fjölgun starfa. Hverju á að ná fram, hvenær á að ná því fram og hvernig á að ná árangri? Að lokum þurfa að vera skýr mælanleg markmið. Þetta er afar mikilvægt í þeirri vinnu sem fram undan er. Stórir atvinnuvegir hafa veruleg áhrif á þróun hagvaxtar og nú þegar okkar stærsta atvinnugrein í útflutningstekjum þjóðarinnar, ferðaþjónustan, hrynur nánast á einni nóttu skiptir verulegu máli að hinar tvær útflutningsstoðirnar, stóriðjan og sjávarútvegurinn, gangi vel en í þessum greinum hefur einnig orðið samdráttur. Allt tal um að stóriðjan megi missa sín og að hraða megi hinni grænu byltingu er ábyrgðarlaust með öllu. Þeir hinir sömu gera sér enga grein fyrir stöðu efnahagsmála á Íslandi og mikilvægi verðmætasköpunar fyrir litla þjóð. Það sama má segja um sjávarútveginn. Það er þjóðinni ekki til framdráttar að tala stanslaust niður þessa helstu undirstöðuatvinnugrein okkar, ekki síst núna þegar innstreymi gjaldeyris hefur dregist verulega saman og atvinnuleysi er í hæstu hæðum. Margt má hins vegar laga í fiskveiðistjórnarkerfinu, sníða af því vankanta, eins og sagt er, kvótahámarkið, málamyndaleigu á kvóta, vigtunarmál og hvernig veiðigjöld eru reiknuð, en stjórnvöld eiga ávallt að leitast við að styrkja starfsumhverfi íslenskra fyrirtækja og sér í lagi nú þegar efnahagsumhverfi er í alvarlegri stöðu.

Það eru vonbrigði að í fjárlagafrumvarpinu skuli ekki vera gerð grein fyrir meiri lækkun tryggingagjaldsins en raun ber vitni. Tímabundin lækkun um 0,25% dugir skammt í þessum aðstæðum. Það þarf myndarlega lækkun eða niðurfellingu tryggingagjaldsins og það er ekki ávísun á glatað skattfé ríkissjóðs. Höfum það í huga. Það skapar verðmæti, skapar nýjar tekjur fyrir ríkissjóð þegar störfum tekur að fjölga og ekki þarf að greiða atvinnuleysisbætur. Það er lífsnauðsynleg aðgerð til að fjölga störfum og í raun mætti tengja lækkunina þannig að hún virkaði hvetjandi fyrir fyrirtæki að ráða fólk til starfa.

Hæstv. fjármálaráðherra sagði í ræðu sinni að á næsta ári yrði gjaldið 10 milljörðum lægra. Engu að síður á gjaldið að skila 100 milljörðum í ríkissjóð á næsta ári. Ráðherra sagði einnig að ríkissjóður gegndi lykilhlutverki í þeim efnum. Undir það skal heils hugar tekið hér en þá er að beita þessu lykilhlutverki á réttan hátt. Myndarleg lækkun tryggingagjalds vinnur gegn atvinnuleysi sem mun kosta ríkissjóð 100 milljarða á tveimur árum. Hátt tryggingagjald kemur verst niður á fyrirtækjum þar sem laun og launatengd gjöld eru stór hluti kostnaðar. Hvert einasta starf er mikilvægt og ekki síst á þeim tímum þegar atvinnuleysi stefnir í sögulegt hámark. Það verður að hlúa að fyrirtækjunum svo þau geti haldið starfsmönnum sínum og vonandi fjölgað þeim. Hátt tryggingagjald veikir einnig samkeppnishæfni. Bætt samkeppnishæfni Íslands er mjög mikilvæg og sérstaklega núna. Skattheimta á íslensk fyrirtæki er há í alþjóðlegum samanburði og er sú næsthæsta á Norðurlöndunum á eftir Noregi.

Þrátt fyrir boðaða lækkun tryggingagjaldsins er reiknað með því að það skili rúmum 100 milljörðum kr. í ríkissjóð á næsta ári en eins og kunnugt er er tryggingagjaldið sérstakt gjald sem launagreiðendum ber að greiða af heildarlaunum launamanna sinna. Gjaldið er reiknað sem hlutfall af þeim launum sem fyrirtækið greiðir til starfsmanna sinna og því fleiri krónur sem fyrirtækið greiðir í laun, því hærri fjárhæð þarf að greiða í tryggingagjald og því hærri sem tryggingagjaldsprósentan er, því dýrari er hver starfsmaður fyrir fyrirtækið. Því hærri sem prósentan er, því minni launahækkunum getur fyrirtæki staðið undir og þá starfsfjölda einnig. Gjaldið dregur úr getu fyrirtækja til að fjárfesta og búa til störf. Vaxtamöguleikar einkafyrirtækja eru því hindraðir með háu tryggingagjaldi. Hæstv. fjármálaráðherra kom einnig inn á það í ræðu sinni að mjög mikilvægt væri að einkafyrirtækin myndu fjárfesta. Lækkun tryggingagjalds myndi auðvelda þeim það einnig. Samkeppnisstaða innlendra fyrirtækja gagnvart erlendum keppinautum hefur versnað á undanförnum árum vegna innlendra kostnaðarhækkana, mælt í erlendri mynt. Sú þróun er nú sýnileg í minni verðmætasköpun útflutningsgreina og þeirra fyrirtækja á innlendum markaði sem keppa við erlend fyrirtæki. Ávinningurinn af góðri lækkun tryggingagjaldsins er því mikill.

Einnig á að styðja við bakið á fyrirtækjum með því að veita skattafslátt á hlutabréfakaupum og að söluhagnaður þessara bréfa verði skattfrjáls. Þetta er einnig mikilvæg innspýting. Þessi háttur var viðhafður fyrir nokkrum árum og það myndi gefa almenningi kost á því að vera þátttakandi í því að byggja upp fyrirtæki sem síðan skapa störfin. Það er jákvætt að sjá aukningu í fjárveitingum til samkeppnissjóða í frumvarpinu til eflingar á rannsóknum og nýsköpun en það er hins vegar mikilvægt að þar að baki liggi skýr og mælanleg markmið um t.d. aukningu sjálfbærra starfa í framtíðinni. Á það skortir hins vegar af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Herra forseti. Það er augljóst að í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar má sjá þess merki að það eru kosningar á næsta leiti. Þrátt fyrir að gert sé ráð fyrir því að hagvöxtur verði strax á nýju ári og ferðaþjónustan taki við sér á ný er ekki dregið úr útgjöldum. Að því leytinu til eru þessi fjárlög kosningafjárlög. Það er lagt í hendur næstu ríkisstjórnar að ná niður halla ríkissjóðs. Ríkisstjórnin sem á innan við eitt ár eftir af stjórnarsetu sinni telur mikilvægt að sett verði skýr og raunhæf stefnumið um að stöðva hækkun á skuldum hins opinbera sem hlutfall af landsframleiðslu eigi síðar en á lokaári fjármálaáætlunarinnar og að rjúfa með því vítahring hallareksturs og skuldasöfnunar í því skyni að endurheimta styrka fjárhagsstöðu hins opinbera í framtíðinni, eins og segir í fjármálaáætluninni sem við ræðum á morgun, en rétt er að koma inn á hana í þessu samhengi vegna þess að það er augljóst að ríkisstjórnin þorir ekki að mæta miklum halla með því að draga úr umsvifum hins opinbera. Til þess er of stutt til kosninga.

Gera verður kröfu um eðlilega skilvirkni og hagræðingu í allri starfsemi hins opinbera, sérstaklega undir þeim erfiðu kringumstæðum þegar halli ríkissjóðs er svo gríðarlegur. Það er ráðdeildarsemi í ríkisfjármálum að mæta þessari kreppu með einhverjum niðurskurði á útgjöldum. Það er hægt að ráðast í niðurskurð án þess að draga úr aðstoðinni við almenning. Það er grundvallaratriði. Þeir fjármunir sem myndu sparast með niðurskurði á að nýta til að skapa t.d. tímabundin störf. Færa sveitarfélögunum ákveðna fjármuni til að þau skapi tímabundin störf í sinni heimabyggð og síðan að ríkissjóður skapi einnig tímabundin störf. Þetta skiptir verulegu máli og dregur úr atvinnuleysi, dregur úr atvinnuleysisbótum og felur í sér nauðsynlega hagræðingu innan ríkisins.

Ég vil víkja stuttlega að loftslagsmálunum vegna þess að ég er þeirrar skoðunar að þau eigi ekki að hafa forgang þegar við ræðum lífskjör almennings í alvarlegustu kreppu sem þjóðfélagið hefur lent í í 100 ár. Málaflokkurinn umhverfismál hækkar um 4,4 milljarða milli ára að frádregnum framlögum til ofanflóðasjóðs og styrkjum til sveitarfélaga vegna fráveituframkvæmda. Að þessum málefnum frádregnum er þetta 2 milljarða hækkun. Er það eðlilegt í þessu árferði? Ég tel svo ekki vera. Í fjárlögum fyrir árið 2019 var hækkunin 2 milljarðar og hækkun til stjórnsýslu umhverfismála nemur 1,6 milljarði milli ára. Í fjárlögum fyrir árið 2019 var hún 800 milljónir og hækkun milli 2019 og 2020 var 572 milljónir.

Skoðum fleiri liði þar sem hægt er að spara til að reyna að fjölga störfum, nýta peningana í að fjölga störfum. Málaflokkurinn umsækjendur um alþjóðlega vernd fær á fjárlögum um 3 milljarða og útlendingamálin rúma 4 milljarða. Þessi málaflokkur er í ólestri og í honum er hægt að spara háar fjárhæðir. Við eigum að ræða það sem betur má fara í þessu kerfi eins og í öðrum kerfum. Við ræðum hvað má betur fara í heilbrigðiskerfinu. Við ræðum hvað má betur fara í almannatryggingakerfinu en það er eins og það megi ekki ræða hvað má betur fara í málefnum hælisleitenda. Mikill meiri hluti þeirra sem sækja um alþjóðlega vernd hér á landi er fólk sem er í leit að betri lífskjörum. Það er ekki lögmæt og gild ástæða fyrir því að fá hér dvalarleyfi. Þessar umsóknir á að afgreiða strax á tveimur sólarhringum eins og gert er í Noregi. Það er ekki gert hér og ríkissjóður þarf að greiða framfærslu fyrir þetta fólk svo mánuðum skiptir þar til mál þeirra eru loksins afgreidd. Það vantar skilvirkni í málaflokkinn og að stytta málsmeðferðartímann. Það er ábyrgðarhluti að ekki skuli tekið á þessu og það skrifast á ríkisstjórnina og ég verð að segja, herra forseti, sérstaklega á Sjálfstæðisflokkinn vegna þess að hann hefur haft málaflokkinn á sinni könnu árum saman. Hann virðist ekki vera fær um að taka á vandanum.

Og ekki gengur ríkisstjórnin fram með góðu fordæmi í ráðdeild í ríkisfjármálum. Í frumvarpinu fær hún 681 milljón og hækkun upp á 20 millj. kr. milli ára, enda ekki vanþörf á að ráða fleiri aðstoðarmenn og fjölmiðlafulltrúa. Það er mat ríkisstjórnarinnar að engin ástæða sé til að spara á ríkisstjórnarheimilinu þó svo að við séum komin í verstu kreppu í 100 ár. Hækkun til utanríkismála nemur tæpum 1 milljarði milli ára. Hækkun til sendiráða nemur um 205 milljónum. Hækkun til stjórnsýslu ríkisfjármála nemur 2,2 milljörðum milli ára.

Það er alveg ljóst, herra forseti, að þarna eru margir liðir þar sem hægt er að hagræða og nýta þá fjármuni síðan til að fjölga störfum og draga þar með úr atvinnuleysisbótum. Við getum ekki byggt framtíð okkar á lántökum, sagði hæstv. fjármálaráðherra í ræðu sinni, og ég tek heils hugar undir það. Það er blóðug sóun úti um allt í opinbera kerfinu, sagði hæstv. fjármálaráðherra. Það er alveg ljóst að hægt er að hagræða og sækja fjármuni víða í ríkiskerfinu til að mæta þessum miklu erfiðleikum, mæta fólkinu sem hefur misst vinnuna og er að missa vinnuna. Þess vegna verðum við að hagræða í ríkisrekstrinum, og það er mjög auðveldlega hægt að gera það án þess að það bitni á því fólki sem nú á um sárt að binda. Ef ekki er tilefni til þess að spara núna í ríkisfjármálunum þegar hallinn á rekstri ríkissjóðs er í sögulegu hámarki er það aldrei. Ég hef því bent hér á milljarða sem hægt væri að nýta til þess að skapa tímabundin störf í einu mesta atvinnuleysi í sögu þjóðarinnar.

Sem fyrr er hleður ríkisstjórnin undir báknið með Sjálfstæðisflokkinn í fjármálaráðuneytinu og sem fyrr er slagorð Sjálfstæðisflokksins, Báknið burt, hrein öfugmæli og orðið að aðhlátursefni. Ekki hefur verið mikil hagræðingarkrafa innan Stjórnarráðsins á síðustu árum og orðið löngu tímabært að ráðast í uppstokkun á opinbera kerfinu og draga úr umsvifum hins opinbera. Það er auk þess óskynsamlegt að bæta í ríkisbáknið eins og gert hefur verið þar sem það er erfitt og sársaukafullt að vinda ofan af útgjaldaaukningu ef tekjuforsendur ríkisins breytast eins og nú hefur raungerst svo harkalega. Hækkanir á fjárveitingum til ríkisstofnana umfram almennar verðlagshækkanir eru regla fremur en undantekning. Ríkisreksturinn verður því stöðugt dýrari skattgreiðendum og þannig er síaukinn kostnaður vegna eftirlitsstofnana ríkisins. Í frumvarpinu eru aðhaldskröfur til ríkisstofnana litlar og sætir það furðu í ljósi gríðarlegs halla á ríkissjóði. Eðlilegt er að gera a.m.k. 10% hagræðingarkröfu á rekstur allra ráðuneyta. Það ætti að skila ríkissjóði sparnaði upp á rúman milljarð króna.

Herra forseti. Þessarar ríkisstjórnar verður lengi minnst þegar kemur að landbúnaðinum. Hún hefur ekki fært landbúnaðinum þann stuðning sem honum er nauðsynlegur og hann á skilið. Ríkisstjórnarflokkarnir hafa hver í sínu horni samþykkt ályktanir um mikilvægi landbúnaðarins. Ekki verði séð að ályktun Framsóknarflokksins um að tryggja sanngjörn starfsskilyrði landbúnaðarins hafi verið í hávegum höfð þegar opnað var fyrir aukinn innflutning á landbúnaðarvörum. Það sama á við um Sjálfstæðisflokkinn sem talaði fyrir því fyrir síðustu kosningar að viðhalda styrk íslensks landbúnaðar. Á sama tíma vill hann ekki hrófla við tollasamningi sem grefur undan landbúnaðinum. Tollasamningurinn við Evrópusambandið er íslenskum landbúnaði mjög óhagstæður. Hann á að færa íslenskum bændum sömu möguleika í Evrópu og Evrópusambandið fær hér á landi og það gerir samningurinn ekki. Miðflokkurinn hefur margsinnis bent á nauðsyn þess að segja samningnum upp vegna brostinna forsendna en úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu gerir það að verkum að okkar stærsta og besta markaðssvæði hverfur úr samningnum núna um áramótin. Semja verður upp á nýtt við Evrópusambandið um tollkvóta á landbúnaðarvörum.

Margt bendir síðan til að framkvæmd þessa samnings sé í miklum ólestri. Hingað streymi inn í landið meira magn landbúnaðarafurða frá Evrópusambandinu en heimilt er samkvæmt samningnum. Eftirlit með framkvæmd samningsins virðist því vera í ólestri og þetta hefur m.a. forysta Bændasamtakanna bent á. Miðflokkurinn hefur óskað eftir að ræða þetta mál sérstaklega á Alþingi. Þetta er högg fyrir íslenskan landbúnað ofan á allt annað. Veirufaraldurinn hefur gert það að verkum að ríki hafa horft meira inn á við. Á tímum óvissu í efnahagsmálum heimsins, hruns í útflutningstekjum, atvinnuleysis og ferðatakmarkana skulum við minnast þess að öflugur landbúnaður, íslensk matvælaframleiðsla og matvælaöryggi er undirstaða fullveldis, þróttmiklar byggðar og mannlífs í landinu.

Herra forseti. Fastur liðir eins og venjulega í tengslum við fjárlagafrumvarpið eru breytingar á ýmsum lögum vegna fjárlaga. Til einföldunar er þetta nefnt gjaldskrárhækkanir og taka iðulega gildi um áramót. Þessar hækkanir hafa að sjálfsögðu verðlagsáhrif, hækka vísitölu neysluverðs, hækka lán landsmanna og kynda undir verðbólgu. Ríkisvaldið á að taka virkan þátt í þeirri viðleitni að draga úr hækkun verðlags og efna ekki til hækkana umfram það sem getur talist algerlega nauðsynlegt. Verðbólga hefur verið lág undanfarin misseri en blikur gætu verið á lofti í þeim efnum. Það verður ekki séð að nauðsynlegt sé að ríkisvaldið gangi fram með þessum hætti. Gæta verður ýtrasta aðhalds við gjaldskrárbreytingar og það á sérstaklega við nú þegar landsmenn mega svo sannarlega ekki við því að verðbólgan fari hér úr böndunum.

Herra forseti. Ég vil, nú þegar tími minn er farinn að styttast, koma aðeins inn á málefni sveitarfélaganna. Staða margra sveitarfélaga er slæm og allt of lítið hefur farið fyrir umræðunni um áhrif veirufaraldursins á sveitarfélögin. Í fjárlagafrumvarpinu er lækkun á framlögum til sveitarfélaga og byggðamála upp á 1,4 milljarða kr. og lækkun til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga upp á 1,2 milljarða. Á sama tíma hafa útgjöld sveitarfélaganna til fjárhagsaðstoðar aukist verulega og koma til með að aukast enn frekar. Útgjöld vegna fjárhagsaðstoðar aukast um 30% á þessu ári og 60% á því næsta samkvæmt tölum frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Sveitarfélögin standa frammi fyrir miklum erfiðleikum og til að ná endum saman þurfa þau innspýtingu upp á 50 milljarða kr. Ekkert er minnst í frumvarpinu á samning þann sem fjármála- og efnahagsráðherra gerði fyrir skömmu við sveitarfélögin um aukinn stuðning vegna veirufaraldursins. Ljóst er að hann dugir hvergi til.

Áætlað er að aukin útgjöld til skattrannsókna verði um 250 millj. kr. og það er ágætt, en það vantar að vísu mælanleg markmið um hverju slík aukin fjárheimild eigi að skila skattgreiðendum.

Í umfjöllun um nýsköpun er einungis minnst á framhalds- og háskólastigið. Til að ná fram heildstæði markmiði fyrir nýsköpun í framtíðinni þarf að sjálfsögðu að huga einnig að grunnskólakerfinu og stefnumörkun í þeim efnum.

Afskriftir skattkrafna í frumvarpinu eru 17,8 milljarðar kr. og aukast um 741 millj. kr. Ég hef áður rætt þennan lið hér, herra forseti, í fjárlagaumræðunni. Það er alveg ljóst að það virðist ganga mjög illa að ná þessu niður af hálfu fjármálaráðuneytisins og fjármálaráðherra og það er mikið áhyggjuefni vegna þess að hér er um verulega háa upphæð að ræða, 17,8 milljarðar af lögbundnum skattkröfum sem skila sér ekki í ríkissjóð. Það er eitthvað að þessu kerfi ef þetta heldur svona áfram ár eftir ár og upphæðin gerir ekki annað en að hækka á milli ára. Á þessu verður að taka.

Hallinn næstu tvö árin á fjárlögum getur verið um 600 milljarðar, eins og hefur komið fram, og hann stefnir í 900 milljarða á næstu fimm árum sem nemur heilum fjárlögum á næstu fimm árum, sem er mjög alvarlegt, herra forseti. Í frumvarpinu er ekki gerð grein fyrir því hvernig á að greiða þetta upp. Það tekur fimm ár að ná jafnvægi sem er mjög langur tími í ljósi þess hversu sveiflukennt íslenskt hagkerfi er. Í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir niðurgreiðslu skulda heldur lækkun sem hlutfall af vergri landsframleiðslu, þannig vinnist á þeim. Þá hefur ríkissjóður lítið svigrúm og næsta ríkisstjórn mun því þurfa að taka erfiðar ákvarðanir. Hratt gekk að vinna á skuldum sem urðu til við síðustu kreppu við fall fjármálafyrirtækjanna. Þá voru það þrotabúin og stöðugleikaframlögin sem gegndu lykilhlutverki. Nú er ekkert viðlíka til staðar. Nú þarf að greiða niður skuldir, væntanlega með hækkun skatta, sölu eigna og arðtekjum sem fara minnkandi, ekki nema að hagvöxturinn verði þeim mun meiri á komandi árum sem verður að teljast fremur ólíklegt.

Ekki hefur komið fram hvernig skuldasöfnunin kemur niður á komandi kynslóðum. Þetta þarf að ræða innan nefndarinnar. Ráðuneytið á reyndar að vera búið að skila skýrslu eða yfirliti um þetta sem er mjög mikilvægt að fá fram fyrir umræðuna fram undan.

Tímans vegna hef ég ekki getað komið að mikilvægum málefnum sem ég hefði viljað ræða hér. Það eru kjör eldri borgara og annarra sem reiða sig á lífeyrisgreiðslur. Ég verð að koma inn á það síðar í þessari umræðu, en það er alveg óumdeilt að kjör þeirra aldraðra sem minnst hafa milli handanna eru í engu samræmi við almenn lífskjör í landinu og það er mjög brýnt að taka á skerðingum bóta almannatrygginga og að horfa til þessa hóps sem hefur gleymst í umræðu veirufaraldursins.

Að lokum vil ég segja það, herra forseti, að ég vonast til þess að fram undan sé góð vinna í fjárlaganefnd um frumvarpið og vænti þess að eiga gott samstarf við alla nefndarmenn. Auk þess vænti ég þess að ríkisstjórnin horfi nú vel til þeirra tillagna sem við í Miðflokknum komum til með að leggja fram sem skipta miklu máli í endurreisn efnahagslífsins.

 

Birgir ræddi fjárlögin og afleiðingar Covid-19 í Bítinu á Bylgjunni þann 6. október:

Smellið hér til að hlusta á viðtalið