Forgangsröðun ríkisútgjalda

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í gær og spurði þar fjármála- og efnahagsráðherra um forgangsröðun í ríkisrekstri. 

Herra forseti. Ríkisútgjöld vaxa jafnt og þétt. Hvort sem er gott ár eða slæmt efnahagslega aukast ríkisútgjöldin og hafa gert stöðugt undanfarin ár. Mikið af þessu fer í óljós verkefni sem eru jafnvel til óþurftar, til að mynda í eilífðarhítina borgarlínu, sem hæstv. ráðherra virðist ekki vita hvað muni kosta ríkið til lengri tíma litið. Eins og í loftslagsmálum þar sem meginmarkmiðið virðist vera að eyða sem mestum peningum án þess að skilgreina hvernig þeir peningar eigi að nýtast til gagns. En um leið eru tækifæri vannýtt, tækifæri til að ráðast í hagkvæmar fjárfestingar, tækifæri til að spara. Þó sýndi ríkisstjórnin dálitla viðleitni nú með því að leggja peninga í að ráða fyrirtæki hér í bæ til að stytta biðlista á Landspítalanum með því að fjármagna 175 aðgerðir þar. Þetta munu allt vera tiltölulega minni háttar aðgerðir. Yfirlæknir á þessari stofnun eða í þessu fyrirtæki, Klíníkinni, Hjálmar Þorsteinsson, var í viðtali á Bylgjunni fyrir fáeinum dögum og benti á að það væru auðvitað aðrar aðgerðir sem væru aðkallandi og ríkið gæti sparað sér töluverða peninga með því að nýta þjónustu í þessu fyrirtæki, ekki hvað síst liðskiptaaðgerðir, sem er auðvitað frægt dæmi sem við höfum rætt margoft í þinginu, kostnaðinn við að senda sjúklinga til útlanda í liðskiptaaðgerðir fremur en að framkvæma þær á Íslandi. Því spyr ég hæstv. fjármálaráðherra: Kemur til greina að hans mati, nú þegar við erum enn að vinna í fjárlögunum, að setja meiri peninga í að spara með því að kaupa meiri þjónustu af fyrirtækjum á sviði heilbrigðismála til að stytta biðlista á Landspítalanum og auka hagkvæmni í rekstri ríkissjóðs?

 

Fyrirspurnin í heild sinni