Framtíð Reykjavíkurflugvallar

Bergþór Ólason tók til máls undir liðnum störf þingsins á Alþingi og ræddi þar um framtíð Reykjavíkurflugvallar. 

Herra forseti. Eflaust gerir maður of lítið af því að hrósa pólitískum andstæðingum, en innviðaráðherra brást þannig við í umræðu á Alþingi í gær um málefni flugvalla, að ekki er annað hægt en að hrósa honum fyrir. Í gær spurði ég ráðherra að því hvernig hann sæi fyrir sér þróun innanlandsflugs, kæmi upp sú staða að rekstrarhæfi vallarins í Vatnsmýrinni skertist umtalsvert vegna uppbyggingar nýrra hverfa við flugvellinum. Um þetta spurði ég í því ljósi að stöðugt er þrengt að flugvellinum og þar með dregið úr rekstraröryggi hans. Mat Hollensku flug- og geimferðastofnunarinnar, sem Isavia fékk til að gera úttekt á mögulegum áhrifum fyrirhugaðrar byggðar í Skerjafirði á flugöryggi á Reykjavíkurflugvelli, bendir til að byggð eins og sú sem nú er áætluð í Skerjafirði geti haft umtalsverð, neikvæð áhrif á rekstrarhæfi flugvallarins. Byggðin á málsvæðinu hefur þegar haft neikvæð áhrif þrengingar. Stefna gagnvart flugvellinum hefur áhrif strax og byggðin rís, en lausnin sem boðuð er er fugl í skógi eftir 15–20 ár, og það er ef allt gengur, eins og í sögu, jafn ólíklegt og það nú er.

Í gær svaraði innviðaráðherra, og þar með ráðherra skipulagsmála, því til að það væri, með leyfi forseta, alveg skýrt að í þessu samkomulagi skuli Reykjavíkurborg viðhalda sama rekstraröryggi og er á núverandi flugvelli. Ef Skerjafjarðarhugmyndirnar raska því, þ.e. flugörygginu, þá þurfa þær einfaldlega stöðvast, að bíða. Það liggur alveg augljóslega fyrir nema einhverjar mótaðgerðir séu til. Mótvægisaðgerðir væru þær helstar að draga úr byggingarmagni og lækka fyrirhugaða byggð í Skerjafirði nú eða, samanber mat Hollendinganna, að framkvæma miðlunarráðstafanir sem myndu aldrei felast í neinu öðru en takmörkuðu notagildi flugvallarins. Það blasir því við að ekki er annar kostur í stöðunni fyrir innviðaráðherra en að stíga inn í málið og fresta uppbyggingu á svæðinu, enda er hann orðinn ráðherra skipulagsmála, flugvallarmála, byggðamála og í rauninni allra þeirra mála sem mestu skipta er varðar flugvöllinn í Vatnsmýrinni.

Ég hvet hæstv. ráðherra til dáða í þessum efnum, en tíminn er takmarkaður til að bregðast við.

 

Ræðuna má sjá hér.