Frumvarp til laga um lögbundna frídaga

Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, mælti í dag fyrir frumvarpi sínu um breytingu á lögum um 40 stunda vinnuviku, nr. 88/1971 um lögbundna frídaga.

Með frumvarpinu er lagt til að hér eftir verði 1. desember ár hvert lögbundinn frídagur.  

Í lögum um 40 stunda vinnuviku, nr. 88/1971, er nú, auk helgidaga þjóðkirkjunnar, sérstaklega kveðið á um fjóra heila frídaga: sumardaginn fyrsta, fyrsta mánudag í ágúst (frídag verslunarmanna), 1. maí (baráttudag verkalýðsins) og þjóðhátíðardag Íslendinga 17. júní.

Að mati flutningsmanna hefur enginn þessara daga haft í för með sér jafnmiklar grundvallarbreytingar á sögu og lífi íslensku þjóðarinnar og fullveldisdagurinn 1. desember 1918, dagurinn sem markaði fullnaðarsigur í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga. Með því er ekki gert lítið úr sögu eða mikilvægi þessara daga, sem að sönnu er ærið, en í ljósi þess að mælt er fyrir um að þessir fjórir dagar skuli vera almennir frídagar samkvæmt lögum um 40 stunda vinnuviku og þeir þannig festir í sameiginlegt minni þjóðarinnar, telja flutningsmenn eðlilegt og rétt að fullveldisdagurinn 1. desember verði jafnframt gerður að frídegi á sama hátt og mikilvægis hans verði þannig minnst um alla framtíð.

Frumvarpið má lesa í heild sinni hér.

Flutningsmaður: Þorsteinn Sæmundsson.

Meðflutningsmenn:  Anna Kolbrún Árnadóttir, Bergþór Ólason, Birgir Þórarinsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Karl Gauti Hjaltason, Ólafur Ísleifsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og  Sigurður Páll Jónsson.

Flutningsræðu Þorsteins og umræðu um málið í þingsal má sjá hér